5 tbl. 5. apríl 2013 Heilir og sælir ágætu félagar, nú er vorönnin rúmlega hálfnuð og vorannir og skipulag næsta vetrar framundan. Það er mikilvægt f

SI Haus
9. apríl 2012 090

5 tbl. 5. apríl 2013

Heilir og sælir ágætu félagar, nú er vorönnin rúmlega hálfnuð og vorannir og skipulag næsta vetrar framundan. Það er mikilvægt fyrir stjórnendur í svo ábyrgðarmiklu starfi sem skólastjórnun er að hlúa að og styrkja eigin vinnuvernd og símenntun jafnhliða vinnuumhverfi starfsmanna og námi og líðan nemenda. Gleymið ekki sjálfum ykkur í önnum hversdagsins.

Í þessu fréttabréfi kennir ýmissa grasa s.s. ábending vegna ráðningamála, niðurstöður starfsþróunarkönnunar, fréttir frá Skólastjórafélagi Vestfjarða og tvö mjög áhugaverð meistaraverkefni sem fjalla um hönnun og byggingu skólahúsnæðis og viðhorf skólasamfélagsins til þess.

með kveðju
Svanhildur

***

Til athugunar vegna ráðningamála

Í kjarasamningum 2008 breyttust ráðningar á þann hátt að nú eru allir stjórnendur og kennarar ráðnir ótímabundinni ráðningu með reynslutíma sem er 4 mánuðir.

Við sérstakar aðstæður s.s. afleysingu vegna veikinda, fæðingarorlofs eða annars orlofs er heimilt að ráða starfsmann til starfa tímabundið og er unnt að taka fram í ráðningarsamningi að segja megi slíkum samningi upp af hálfu annars hvors aðilans áður en ráðning fellur sjálfkrafa úr gildi við lok samningstíma. Tímabundin ráðning skal þó aldrei vara samfellt lengur en í 2 ár nema verklok séu fyrirfram ákveðin.

Með ráðningasamningi þarf í þeim tilvikum að fylgja eyðublað sem er inn á vef Sambandsins og nefnist Fylgiblað með ráðningasamningi grunnskóla

***

Starfsþróun stjórnenda - könnun

Starfshópur á vegum Félags stjórnenda leikskóla, Skólastjórafélagi Íslands, Félagi stjórnenda í framhaldskólum og Félagi tónlistarskólakennara er að skoða starfsþróun skólastjórnenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum og tónlistarskólum. Lögð var fram könnun í febrúar fyrir alla félagsmenn framangreindra félaga þar sem kannaðar voru þarfir skólastjórnenda fyrir starfsþróun og námskeið. Heildarfjöldi í stjórnenda í SÍ, FSL, FS og FT er 1135. Svarendur voru 667 eða 58% og eiga þeir þakkir skilið fyrir góða svörun. Hér er hægt að sjá fyrstu niðurstöður

 

***

Framhaldsnám í stjórnun Menntastofnanna við Menntavísindasvið HÍ.

Umsóknarfrestur um framhaldsnám í stjórnun menntastofnana við Menntavísindasvið Háskóla íslands rennur út 15. apríl næstkomandi. Námið tilheyrir námsbrautinni Menntastjórnun og matsfræði. Hefur þú áhuga á námi af þessu tagi? Er leiðtogaefni í þínum skóla sem rétt væri að hvetja til að sækja um slíkt nám?

Hér má finna upplýsingar um námið

Hér er hægt að sækja um

***

Fréttir frá Skó-Vest

Skólastjórafélag Vestfjarðar, Skó-Vest hélt vorfund 2012 á Hólmavík, þar mættu nokkrir skólastjórar og sögðu frá því helsta sem væri að gerast í þeirra skóla. Þetta voru fulltrúar frá Ísafirði, Þingeyri, Bolungarvík, Súðavík og Hólmavík sem sögðu frá. Þá fengum við formann SÍ í heimsókn til okkar og var hún með erindi fyrir okkur. Við borðuðum saman um kvöldið og áttum góða stundir saman.
Námskeið um sjálfsmat samkvæmt nýrri aðalnámskrá var haldið í Reykjanesskóla 18.-19.janúar 2013 og var Jón Baldvin Hannesson skólastjóri Giljaskóla á Akureyri fenginn sem leiðbeinandi. Þarna mættu fulltrúar frá Súðavík, Ísafirði, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri og Hólmavík. Þetta var hreint út sagt frábært námskeið í alla staði og mikið lært.

Þetta er nú það helsta sem Skó-Vest hefur staðið fyrir, þá hafa nokkrir stjórnarfundir verið haldnir og reynt að senda út pósta til félagsmanna um hin ýmsu mál.

Með kærri kveðju
Anna Lind Ragnarsdóttir
Skólastjóri Súðavíkurskóla
Formaður Skó-Vest

***

Meistaraverkefni - Hönnun grunnskóla. Hvað ræður för?

Hér gefur á að líta meistaraverkefni Helga Grímssonar, skólastjóra Sjálandsskóla er varðar hönnun grunnskóla. Skoðað er hönnunarferli nokkurra grunnskóla og hvernig helstu notendur meta að til hafi tekist. Sjá frekar hér

***

"Mér finnst hún lokuð en samt opin“ Viðhorf nemenda til námsumhverfis

Þetta meistaraverkefni Árnýjar Ingu Pálsdóttur, skólastjóra Kelduskóla beinist að viðhorfum nemenda til ytra umhverfis skóla þ.e. skólahúsnæðis, skólalóðar, búnaðar og útikennslustofum. Sjónum er einnig beint að því hvaða viðmið gilda fyrir hönnun skóla sem eiga að þjóna skólastarfi á 21. öldinni.
Sjá frekar hér

Á döfinni

Námskeiðin Rétt málsmeðferð-öruggt skólastarf
8. apríl kl. 13:30-18:00 Brekkuskóla Akureyri
15. apríl kl. 13-17:30 Austurbrú - Egilstöðum
10. maí kl. 13-17:30 Hótel Natura Reykjavík, ætlað félagsmönnum á Vestfjörðum og öðrum þeim sem ekki hafa getað nýtt sér aðrar dagsetningar.
Skráning hér

Ársfundur Kennarasambands Íslands 19. apríl.

Námstefna og aðalfundur SÍ, 11. og 12. október í Reykjavík
takið frá dagana, nánari upplýsingar í fréttabréfi í maí.

***
Korpu 071

Ábyrgðarmaður
Svanhildur María Ólafsdóttir,
formaður Skólastjórafélags Íslands.
Svanhildur@ki.is, símar 5951129/8917648

facebook
1px