Fimmtudagur 17. janúar 2013 Kæru félagsmenn Í fyrsta RAUÐA EPLINU okkar á nýju ári verður meðal annars rætt um kjaramálin og stöðu framhaldsskólanna

FF-eplamynd

Fimmtudagur 17. janúar 2013

Kæru félagsmenn

Í fyrsta RAUÐA EPLINU okkar á nýju ári verður meðal annars rætt um kjaramálin og stöðu framhaldsskólanna, félagsfund FF 17. janúar, fjárveitingar til símenntunar og námsorlofa, stöðu FF innan KÍ og upphaf starfs við endurskoðun laga KÍ. Félagið hefur þegar hafið undirbúning kjarasamninga og fyrir dyrum standa fundarhöld í framhaldsskólum víða um land. Stjórn FF telur virkni félagsdeilda skipta miklu í viðleitni til þess að rétta hlut kennara og annarra félagsmanna í framhaldsskólunum og leggur mikið upp úr góðu samstarfi við félagsdeildir sínar um allt land.

Auðvelt er að prenta fréttabréfið út með því að hægri smella á skjalið. Formenn félagsdeilda eru beðnir að gera það og hengja upp á áberandi stað í skólunum.

***

Kennaralaunin og fjárhagsstaða framhaldsskólanna – erfið staða og mikil óánægja með mat á kennarastarfinu til launa

Kjör í framhaldsskólum hafa versnað jafnt og þétt miðað við samanburðarhópa hjá ríki frá því löngu fyrir efnahagshrunið. Þannig var mismunur meðaldagvinnulauna KÍ/framhaldsskóla og BHM þegar orðinn 13% KÍ/F í óhag árið 2007 en sá munur er nú orðinn meira en 16% eða um 60.000 kr. á mánuði og á heildarlaunum munar milli 8 og 9%. Vart þarf að taka fram að samanburður á launum framhaldsskólakennara og launum háskólamenntaðra á almennum vinnumarkaði er þeim fyrrtöldu enn óhagstæðara. Stöðugildum félagsmanna í framhaldsskólum hefur sáralítið fjölgað undanfarin ár. Á sama tíma hefur nemendum fjölgað mikið auk þess sem nemendahópurinn verður sífellt breiðari og margbreytilegri. Kröfur til menntunar og starfshæfni kennara hafa aukist í takt við þarfir samfélagsins og kröfur til kennarastarfsins á 21. öld.

Framhaldsskólinn hefur verið illa leikinn í mörg ár. Í góðærinu var af misráðnum ákafa reynt að gera framhaldsskólann sífellt ódýrari og kreista meira vinnuframlag út úr starfsfólkinu fyrir sömu eða lítið breytt laun. Eftir hrunið hafa yfirvöld síðan – meðal annars gegn ráðum erlendra sérfræðinga- ekki varið skóla og menntun fyrir ótæpilegum niðurskurði en haft við orð að svo væri gert. Þannig hefur ákveðinn blekkingarleikur verið leikinn um að t.d. framhaldsskólum væri ,,hlíft“ umfram aðra opinbera starfsemi þegar sú var ekki raunin og nemendum fjölgaði stöðugt án þess að eðlilegar breytingar yrðu á rekstrarfjárveitingum. Afleiðingarnar eru slæmar bæði fyrir nemendur og starfsfólk.

Yfirfullir skólar og námshópar, námsframboð of fábreytt, framboð stoðþjónustu hefur staðið í stað eða minnkað sem er ekki í neinu samræmi við markmið framhaldsskólalaga frá 2008, skólastjórnendur liggja í kennurum með óskir – jafnvel kröfur um að þeir kenni sífellt fleiri nemendum á sífellt skemmri tíma og svona mætti áfram telja. Nýleg rannsókn sýnir t.a.m. að ólaunuð vinna kennara umfram dagvinnuskyldu hefur aukist og ekki blæs byrlega með að draga úr brotthvarfi nemenda frá námi eins og vonlegt er miðað við aðstæður í framhaldsskólunum nú síðustu ár.

***

Samanburður á launum KÍ-framhaldsskóla og BHM og launastikumynd með skýringum

Launastika merkir upphaflega (2003) launaviðmið í skilningnum rauntölur úr bókhaldskerfi ríkisins um föst mánaðarlaun kennara það er grunnlaun án allra viðbótarflokka vegna stjórnunar, sérstakra verkefna, aldursafsláttar eða umbunar af öðru tagi. Sama tala var notuð fyrir alla framhaldsskóla frá og með þessum tíma en áður hafði verið miðað við meðallaun hvers skóla fyrir sig.

Markmiðið um samsvörun milli launastiku og meðallauna stóðst aðeins í skamman tíma - og kannski aldrei nema þetta eina fyrsta ár (2003) en allar götur síðan verið langt undir sbr. nánar bréf mmrn. frá 29. nóvember 2012 um þróun launastiku 2003-2012 og samanburð hagfræðings KÍ á þeim tölum og meðaldagvinnulaunum KÍ frhsk. en hann sýnir nú um 24% mismun milli launastiku og launa (286.102 kr. = launastika og um 377.000 kr. = meðaldv.laun KÍ frhsk.).

***

Almennur félagsfundur FF í Flensborgarskóla 17. janúar kl. 17:00

Eins og komið hefur fram þá barst til stjórnar félagsins í byrjun desember fundarbeiðni frá 250 félagsmönnum í BHS, TS, FSU, IH, MK, MR um almennan félagsfund og tilgreint fundarefni „Staðan í samningamálum og önnur mál sem lúta að starfsemi Félags framhaldsskólakennara“. Stjórn og talsmenn fundarbeiðenda hittust skömmu fyrir jól til samræðna og samstaða um að tilgangur fundarins væri að leggja kjarabaráttu félagsmanna lið. Á fundinum halda fulltrúar stjórnar og fundarbeiðenda stuttar framsögur um fundarefnið og síðan fara fram almennar umræður og skoðanaskipti, sjá fundarboð og dagskrá. Fundurinn er sendur út á Netsamfélaginu, undir flipanum „bein útsending“. Hægt er að fylgjast með fundinum í hvaða nettengdri tölvu sem er.

Stjórn FF hvetur félagsmenn til að taka virkan þátt í fundinum og þjappa sér saman til að ná árangri.

***

Ásókn í að skerða kjör við kennslu - áfram skorið niður í framhaldsskólum

Nokkuð hefur borið á fyrirspurnum og umkvörtunum kennara til FF að undanförnu vegna ásóknar í skólum þeirra í að skerða fjölda kennslustunda á móti námseiningum. Fyrsta grein auglýsingar nr. 4/2001 er svohljóðandi:
Skipulag skólastarfs miðast að jafnaði við ákveðið hlutfall námseininga og kennslustunda og miðast að meginstefnu til við eina einingu á móti tveimur kennslustundum. Skólameistari og kennari geta með sérstöku samkomulagi vikið frá því þyki það henta, enda taki námsmat til lokamarkmiða viðkomandi náms samkvæmt aðalnámskrá.

Afar mikilvægt er að stjórnendur framhaldsskóla fari ekki offari í notkun ofangreindrar auglýsingar og virði þá meginlínu hennar að um undantekningar frá meginreglu er að ræða og að slíkri undantekningu verði aðeins beitt með samþykki viðkomandi kennara. Allgróft er til dæmis að reyna að beita þessari auglýsingu til þess að réttlæta skerðingu kennslustundafjölda í hópum með fleiri en tíu nemendum enda ekki ætlast til neins afsláttar af námi og námsmati sbr. síðari mgr. ofangreinds texta auglýsingarinnar.

Önnur birtingarmynd viðleitni til að fá kennara til að vinna meira innan dagvinnuskyldu án viðbótarlaunagreiðslna – og um leið skerða eðlilega kennslu sem nemandi nýtur – er að reyna að fá kennara til þess að fallast á að bæta nemendum í einum áfanga við hóp nemenda í öðrum áfanga (t.d. 12 nemendur í 103 áfanga í tiltekinni grein og 2 eða 3 í 203 áfanga í sömu grein). Þetta merkir að kennari er að kenna tvo mismunandi áfanga með eigin námsáætlun og eigin skilgreiningu í námskrá og sérstöku námsmati á kennslutíma. Gagnvart nemandanum sem stundar nám í 203 áfanganum eru þetta svik því nokkuð augljóst er að hans réttur er að njóta kennslu samkvæmt námsáætlun, leiðsagnar og námsmats sem ætlaður er eigin tími. Eðlilegra en fyrrgreint væri að skilgreina 203 nemendurna fáu sem P-nemendur og greiða kennara skv. reglum kjarasamnings. Þá væri í það minnsta ljóst hver væru réttindi og skyldur bæði kennarans og nemandans.

Nokkuð hefur borið á því að reynt væri að fella námsáfanga/námshópa út úr stundatöflum kennara eftir að kennsla er hafin en slíkt er brot á grein 2.1.6.4 í kjarasamningi en þar segir: Fjöldi kennslustunda sem kennari tekur að sér við upphaf skólaárs/annar, er bindandi til loka skólaárs/annar. Á svona mál hefur reynt sem og á túlkun samningsaðila. Það er ekki umdeilt að eftir að kennsla er hafin samkvæmt stundatöflu gildir þetta samningsákvæði.

Ennfremur er þrengt að kjörum kennara með því að bregðast við samdrætti í kennslumagni með því að stilla kennaranum upp við vegg um að fallast á skerðingu á ráðningarhlutfalli þó ljóst sé að kennslumagnið gæti aftur hafa aukist strax á næstu önn eða næsta skólaári. Áður en niðurskurðarfárið í framhaldsskólunum hófst hefði þótt einboðið að bjóða kennaranum að sinna fagtengdum verkefnum tímabundið til að fylla upp í starfshlutfallið eða greiða laun skv. starfshlutfalli í ráðningarsamningi ef ekki er hægt að nota fyrri leiðina. Enn tíðkast líka of víða í framhaldsskólum sú slæma venja að halda kennurum jafnvel árum saman í þeim aðstæðum að þeir sinni ávallt 100% starfi eða meira en starfshlutfall í ráðningarsamningi sé áfram skráð minna t.d. 50% eða 75%. Þetta heldur kennurum í miklu óöryggi um starf sitt og afkomu. Sama gildir um tregðu til þess að fastráða kennara eftir 3 mánaða reynslutíma, eina önn eða eitt skólaár og enn finnast dæmi um að fastráðning eigi sér ekki stað þó engar hlutlægar ástæður s.s. afleysingar liggi fyrir. Í starfi kennara er sjaldnast tjaldað til einnar nætur og einkennileg starfsmanna- og mannauðsstefna – eða kannski stefnuleysi í báðu virðist skína út úr svona framkvæmd í skólum eins og að ofan er lýst.

***

Nær aldarfjórðungs bið eftir launuðu námsorlofi framhaldsskólakennara

Félag framhaldsskólakennara finnur fyrir mikilli óánægju félagsmanna með hversu fá námsorlof framhaldsskólakennara eru. Fjöldi námsorlofa hefur lítið breyst síðasta áratuginn en meðalaldur þeirra sem fá orlof er rúmlega 53 ár og meðalstarfsaldur tæplega 24 ár. Umsóknir um 35 ársorlof hafa í mörg ár verið um 120 en urðu 160 við síðustu úthlutun. Af öllu þessu má ráða að félagsmenn í framhaldsskólum geta ekki vænst þess að fá námsorlof nema einu sinni á starfsævinni og bíða allt of lengi eftir úthlutun m.a. eðlilega þörf fyrir endurnýjun í starfi. Nægir að benda á gjörólíka stöðu háskólakennara hvað aðgang að náms-/rannsóknarleyfum varðar sem þeir eru vitanlega vel komnir að.

***

Fjármunir til símenntunar ekki í takti við þarfir skólakerfisins og markmið menntastefnunnar

Fjármunir til símenntunar ekki í takti við þarfir skólakerfisins og markmið menntastefnunnar

Þörf starfandi kennara fyrir símenntun hefur aukist mjög á undanförnum árum. Áhersla á hefðbundna þekkingu sem auðvelt er að kenna og prófa er á undanhaldi og sífellt er lögð meiri áhersla á að fólk læri alla ævina og verði þannig fært um að fást við flókin og krefjandi verkefni. Kennarar jafnt og nemendur þurfa stöðugt að aðlaga sig að nýrri þekkingu, breyttum aðferðum og aðstæðum og þannig að endurstaðsetja sig í heimi örra breytinga. Kennarar þurfa sífellt að endurnýja sig og takast nú í meira mæli en áður við fjölbreytileikann með margbreytilegum kennsluaðferðum. Í nýrri aðalnámsskrá fyrir framhaldsskóla er lögð áhersla á að kennarar gegni lykilhlutverki í öllu skólastarfi og það sé á ábyrgð kennarans að útfæra í kennslu sinni fyrirmæli menntalaga og þá stefnu sem birtist í aðalnámskrá. Þörf fyrir símenntun framhaldsskólakennara og krafa um breytta kennsluhætti er því stöðugt meiri og ætti að endurspeglast í fjárframlögum til símenntunar framhaldsskólakennara.
Sú er því miður ekki raunin og fjárframlög til símenntunar framhaldsskólakennara hafa dregist stórlega saman að raunvirði síðustu ár. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá framlög til endurmenntunar vegna framhaldsskóla skv. fjárlögum 2001-2013 á verðlagi hvers árs og uppfærðar samkvæmt vísitölu neysluverðs í des. 2012.

Fréttamolar úr félagsstarfinu

Nefnd um stöðu FF innan KÍ að störfum

Vinna stöðunefndar er í fullum gangi. Formaður er Hanna Björg Vilhjálmsdóttir (Bhs. og stjórn FF) en aðrir í nefndinni eru Einar Trausti Óskarsson (FS), Guðjón Ragnar Jónasson (MR) og Þorbjörg Ragnarsdóttir (FVA). Nefndin hefur fengið ýmsa gesti á fundi, kynnt sér efni og aflað ýmissa gagna til þess að ná utan um verkefni sitt. Vinna nefndarinnar miðar að því að fagleg greining á stöðu FF innan KÍ sem félagsmenn geti kynnt sér, liggi fyrir áður en viðhorfskönnun verður gerð meðal félagsmanna í framhaldsskólum. Nefndin skilar skýrslu á ársfundi FF í apríl 2013 og könnun verður lögð fyrir félagsfólk í framhaldi af umræðu um skýrslu nefndarinnar.

Nefnd um endurskoðun á lögum og skipulagi KÍ samkvæmt samþykkt 5. þings sambandsins

Milliþinganefndin hefur nú tekið til starfa og er skipuð formönnum aðildarfélaga KÍ, formanni og varaformanni sambandsins. Nefndin skili tillögum sínum til stjórnar KÍ í síðasta lagi hálfu ári fyrir 6. þing KÍ. Nefndinni er falið að skoða eftirfarandi atriði:
1. Lengd kjörtímabils.
2. Hámarksseturétt í embættum.
3. Hugmynd um að framvegis verði kjörnir tveir varaformenn KÍ.
4. Framkvæmd kosningar um formann og varaformann / varaformenn.
5. Hugmynd um að leggja niður embætti sérstakra skoðunarmanna reikninga.
6. Hugmynd um að þing KÍ kjósi formenn fastanefnda og ráða en aðalfundir aðildarfélaga kjósi aðra fulltrúa samkvæmt sérstökum reglum sem settar yrðu.
7. Hlutverk réttindi og skyldur trúnaðarmanna, varatrúnaðarmanna og tengiliða.
8. Móta reglur um framkvæmd kosninga á þingum KÍ
9. Skoða röðun greina í lögunum (sbr.15.gr.).
10. Skoða fjölda nefnda og fjölda í nefndum. Einnig hvaða nefndir verða starfandi á þingum KÍ

Einn fundur hefur verið haldinn í nefndinni og eru fleiri boðaðir á næstunni.

***

Ritstjórar: Anna María Gunnarsdóttir og Elna Katrín Jónsdóttir
Ábyrgðarmaður: Aðalheiður Steingrímsdóttir

facebook
1px