Fréttabréf 13. tbl. 18. desember 2013 Heilir og sælir ágætu félagar! Nú er jólafríið fram undan og ég hvet ykkur til að nota fríið til hvíldar og en

SI Haus

Fréttabréf 13. tbl. 18. desember 2013

***
img28

Heilir og sælir ágætu félagar!

Nú er jólafríið fram undan og ég hvet ykkur til að nota fríið til hvíldar og endurnýjunar. Miklar kröfur eru gerðar til ykkar um að vera faglegir leiðtogar sem stýra faglegri skólaþróun og jákvæðum skólabrag jafnframt því að annast daglegan rekstur. Þetta er ábyrgðarmikið og krefjandi starf og því er það mikilvægt að þið hugið að ykkur sjálfum bæði líkamlega og andlega.

Þetta hefur verið viðburðaríkt ár þar sem megináherslan hefur verið að setja okkur markmið í kjaramálum til 10 ára, fyrir árabilið frá 2014-2024, sjá frekar hér. Þessi markmið voru unnin í víðtæku samráði við fulltrúa SÍ í stjórn, samninganefnd, kjararáði, skólamálanefnd og formenn svæðafélaga. Auk þess voru haldnir félagsfundir á öllum svæðum þar sem drög að markmiðum voru kynnt og leitað eftir ábendingum og athugasemdum. Ég hvet ykkur til að fara yfir markmiðin og koma með athugasemdir eða ábendingar til okkar. Því þetta á að vera „lifandi skjal“ sem getur tekið breytingum og komið til móts við ykkar væntingar og þarfir eins og hægt er.

Með ósk um gleðilega jólahátíð,
Svanhildur

***

Kjaramál

stock-photo-partnership-61234468[1]

Viðræðunefnd SÍ og samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hittist á fyrsta samninganefndarfundi mánudaginn 16. desember. Farið var yfir markmið SÍ í kjaramálum og viðræðunefndin lagði áherslu á að gerð yrði verkáætlun til lengri tíma um þau markmið sem við höfum lagt fram óháð lengd kjarasamnings sem gerður yrði núna. Fram kom í máli samninganefndar Sambandsins að ekki yrði farið í viðræður fyrr en niðurstaða lægi fyrir í kjarasamningum á almennum markaði. Næsti fundur var þó ákveðinn 14. janúar 2014.

***

Skólamál, námsmat við lok grunnskóla

k12399400

Á aðalfundi Skólastjórafélags Íslands sem haldinn var í Laugalækjarskóla 12. október 2013 var samþykkt ályktun um frestun á gildistöku ákvæða Aðalnámskrár grunnskóla sem kveða á um nýtt námsmatskerfi og matsviðmið við lok grunnskóla. Jafnframt skorar fundurinn á ráðherra að láta hefja vinnu við endurskoðun á nýju matskerfi og matsviðmiðum við lok grunnskóla með það að markmiði að skilgreina með miklu skýrari hætti, en nú liggur fyrir, muninn á þeirri hæfni sem krafist er fyrir matsviðmiðin þrjú, A, B og C .

Í framhaldi var sett á stofn nefnd innan Skólastjórafélags Íslands til að vinna frekar með ályktunina og það sem í henni felst.
Í nefndinni eru:
Hilmar Hilmarsson, skólastjóri Réttarholtsskóla, formaður nefndarinnar,
Jón Páll Haraldsson, aðstoðarskólastjóri Laugalækjarskóla,
Guðlaug Sturlaugsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness,
Ómar Örn Magnússon, aðstoðarskólastjóri Hagaskóla,
Jón Baldvin Hannesson skólastjóri Giljaskóla
Vala Stefánsdóttir deildarstjóri Giljaskóla.

Óskað hefur verið eftir fundi með Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra.

***

Skólamál - mælingar á skólastarfi

k12072373

Hvernig mælum við skólastarf? Hér á landi mælum við eða metum skólastarf með nokkrum aðferðum má þar meðal annars nefna samræmd próf, leskimanir, talnalykil, ytra mat og sjálfsmat skóla. Niðurstöður PISA rannsóknarinnar 2012 eru ein af nokkrum mælieiningum sem gefa okkur vísbendingar um stöðu skólamála hér á landi.

Alþjóðakennarasamtökin (Education International) hafa meðal annars gagnrýnt að PISA rannsóknin „nái aðeins til þrenns konar læsis; talna, lesmáls og raungreina og þótt þessir þættir séu mikilvægir geta þeir ekki nýst sem mat á öllu því sem kennt er í skólum. Listgreinar, tungumál og hugvísindi eru aðeins nokkur af þeim viðfangsefnum sem rannsóknin nær ekki til."

Þeir benda einnig á að „PISA geti ekki verið endanlegur vitnisburður um gæði menntakerfis, samt þarf að huga vel að breytingum sem verða á heildarárangri nemenda og hreyfingum milli efri og neðri hópa í hverju landi fyrir sig. Grannskoðun á þróun mála milli PISA umferða í hverju landi fyrir sig er hugsanlega gagnlegri en samanburður milli landa.“

„PISA rannsóknin 2012 sýnir að jafnari úthlutun bjarga til skóla, minni aðgreining nemenda vegna félagsaðstæðna og efnahags, meira sjálfræði skóla hvað varðar námskrá og kennsluaðferðir og, það sem mestu varðar, framboð á menntuðum kennurum styður jákvætt námsumhverfi og bætir námsárangur.“

Það er mjög gott að „OECD hafi komist að því að góð kjör kennara hafi bein áhrif á frammistöðu nemenda. Fámennari hópar og vel launaðir kennarar eru tveir grunnþættir góðra menntakerfa. Lönd sem hafa bætt árangur sinn verulega á síðustu tíu árum hafa tekið þá stefnu að bæta störf kennara með aukinni fagmennsku, með hækkun kennaralauna til að gera starfið áhugaverðara fyrir nýliða og með hvata fyrir kennara til að taka þátt í starfsþróun,“ er meðal þess sem kemur fram í fyrstu viðbrögðum Alþjóðakennarasamtakanna (EI).

Meginatriðið hér er að hver skóli taki allar þessar mælingar og mat, ígrundi niðurstöður og skoði hvernig nemendur hans eða skólinn í heild er að ná árangri í námi, líðan og framförum. Umbætur og skólaþróun byggjast fyrst og fremst á markvissu sjálfsmati skóla.

***
Korpu 071

Ábyrgðarmaður
Svanhildur María Ólafsdóttir,
formaður Skólastjórafélags Íslands.
svanhildur@ki.is, símar 5951129/8917648

facebook
1px