Rauða eplið 14. febrúar 2013 Kæri félagsmaður Rauða eplið fjallar að þessu sinni um kjarabaráttu, kynningar- og útbreiðslumál og nýstofnaðan aðgerða

FF-eplamynd
***

Rauða eplið 14. febrúar 2013

Kæri félagsmaður

Rauða eplið fjallar að þessu sinni um kjarabaráttu, kynningar- og útbreiðslumál og nýstofnaðan aðgerðahóp FF. Á næstu vikum og mánuðum mun reyna á þrek og þor bæði félagsmanna FF og FS í framhaldsskólunum og skólameistara til þess að taka sig saman um að krefjast leiðréttingar á hlut framhaldsskólans.

Mikil reiði er vegna fálætis ráðamanna um hag og kjör bæði nemenda og starfsmanna skólanna. Enn einu sinni er sú staða komin upp að starfskjör kennara hafa dregist langt aftur úr því sem gerist meðal samanburðarhópa. Niðurskurður í framhaldsskólum hefur verið miklu meiri og alvarlegri en í mörgum öðrum stofnunum ríkisins og ber ástandið um margt svip af ástandinu í heilbrigðiskerfinu. Aðgerða er þörf og það veltur nú sem fyrr mest á okkur sjálfum hver uppskeran verður.

***

Ráðherrar fjármála og menntamála svara ekki erindi FF og FS um kjaramál og stöðu framhaldsskólanna

Ráðherrar fjármála og menntamála hafa í bráðum mánuð ekki ansað erindi stjórna Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum um fundi og aðgerðir til bjargar framhaldsskólunum og leiðréttingu á kjörum félagsmanna. Rituð voru bréf og fundarbeiðni til ráðherranna beggja. Þögn ráðherranna er æpandi meðal annars í ljósi þess að nú heyrast dæmi þess að skólameistarar – sjálfsagt tilneyddir vegna fjársveltis – boði kennurum og öðru starfsfólki sínu enn frekari niðurskurð. Slíkt grípur beint ofan í pyngju félagsmanna sem var þó létt fyrir. Framhaldsskólinn er bókstaflega að éta innan úr sjálfum sér. Einingarverð vinnustundar venjulegs kennara er orðið hlægilegt m.a. vegna þess að sífellt fleiri nemendum er troðið í hvern námshóp, minna eða ekki neitt er greitt fyrir viðbótarstörf sem þó þarf að vinna s.s. umsjón með nemendum, fagstjórn og fleira. Afleiðingin er sú að sífellt fleiri vinnustundum er varið í að sinna venjulegu dagvinnustarfi, sem til að byrja með er illa metið til launa. Ólaunaðum yfirvinnustundum félagsmanna fjölgar.

Illa hefur verið farið með framhaldsskólann bæði í góðæri og hallæri og starfi hans í reynd lítill sómi sýndur. Okkar er að lyfta starfskjörum kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda upp úr þeirri niðurlægingu sem nú blasir við þar sem meðaldagvinnulaun ná ekki 400.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf. Stjórnvalda er að skila framhaldsskólunum því sem af þeim hefur verið tekið – fyrst í offorsi blinds hagræðingarákafa og síðan eftir efnahagshrunið með þróttleysi og sinnuleysi um að verja menntun í landinu.

***

Hefur þú lesið Vikupóstinn og horft á Kennara mánaðarins?

Heimasíða FF er gengin í endurnýjun lífdaga meðal annars með stóraukinni miðlun efnis. Þannig birtist nú í vikunni þriðji Vikupósturinn þar sem Jóhanna Björk Guðjónsdóttir, frönskukennari í Kvennaskólanum skrifar um gildi tungumálanáms og –kennslu. Fyrsti Kennari mánaðarins er Ásta Pálmadóttir, stærðfræðikennari í Flensborgarskólanum en næsti er skammt undan. Um leið eru félagsmenn hvattir til að fylgjast með heimasíðunni. Hér með er auglýst eftir fleiri Vikupóstsriturum og áhugasamir beðnir um að snúa sér til Elnu (elna@ki.is) eða Önnu Maríu (anna@ki.is).

***

Aðgerðahópur FF hefur hafið störf

Hópurinn hélt fyrsta fund sinn 6. febrúar sl. og ræddi aðgerðir í kjarabaráttunni framundan.
Hlutverk hópsins er að móta aðgerðir og málflutning til að nota í kjarabaráttunni, inn á við og út á við, ákveða röð þeirra og setja þær í gang. Meðal þess sem rætt var og ákveðið var þetta:

Aðgerðahópur einbeiti sér fyrst og fremst að aðgerðum en kynningarnefnd sjái um kynningar- og útbreiðslumál. Aðgerðahópurinn einbeiti sér að nokkrum fáum, einföldum aðgerðum. Áformað er að stofna aðgerðahópa í skólunum og /eða eftir svæðum, nýta lykilfólk eins og erindreka félagsins og leita til forystufólks í félagsdeildunum og í samstarfsnefndum.

Aðgerðir út á við:

Halda áfram að sækja að stjórnvöldum um að skila til skólanna þeim fjármunum sem af þeim hafa verið teknir með niðurskurði sem hefur verið nær samfelldur í um áratug.
Halda uppi skipulegum og einföldum málflutningi um framhaldsskólann sem hluta af velferðarkerfinu, um kennarastarfið og kjör kennara í ljósi menntunar og ábyrgðar í starfi.
Setja pressu á skólanefndir, ráðherra, þingmenn og skipuleggja fundi með frambjóðendum í aðdraganda alþingiskosninga um menntamál og stöðu framhaldsskólans.

Aðgerðir inn á við:

Leita samstöðu meðal allra félagsdeilda félagsins um að krefjast nú þegar endurskoðunar á launasetningu starfa félagsmanna, mats á menntun og reynslu og viðbótarstörfum.
Möguleg brot á kjarasamningum verði rædd á félagsdeildafundum í öllum skólum en töluvert ber á tilraunum til að undirbjóða kjarasamninga, til dæmis varðandi skerta kennslu m.v. einingar, samkennslu áfanga og námskrárvinnu sem greidd er með einingaverði sem er ekki í samræmi við efni kjarasamnings.
Tilgangur aðgerða sem beinast inn í skólana er að þjappa fólki saman, undirstrika vægi félagsdeilda, þýðingu samstarfsnefnda og gildi stofnanasamninga þar sem grundvöllur launakjara félagsmanna er lagður.

Fulltrúar í aðgerðahóp eru: Aðalheiður Steingrímsdóttir, Ágúst Ásgeirsson, Brynjólfur Eyjólfsson, Elna Katrín Jónsdóttir, Kolbrún Elfa Sigurðardóttir og Hrafnkell Tumi Kolbeinsson. Fulltrúarnir koma allir úr röðum stjórnar- og samningafólks félagsins en á fyrsta fundi var rætt um þann möguleika að stækka þennan miðlæga aðgerðahóp auk þess að mynda net aðgerðahópa víðsvegar um landið.

***

Ritstjórar: Anna María Gunnarsdóttir og Elna Katrín Jónsdóttir
Ábyrgðarmaður: Aðalheiður Steingrímsdóttir

facebook
1px