2 tlb. 2013 Heilir og sælir ágætu félagsmenn, ég vona að þið getið nýtt ykkur fréttabréfið frá ESHA ráðstefnunni til starfsþróunar. Þar eru einnig gr

SI Haus

2 tlb. 2013

Heilir og sælir ágætu félagsmenn, ég vona að þið getið nýtt ykkur fréttabréfið frá ESHA ráðstefnunni til starfsþróunar. Þar eru einnig greinar sem eru áhugaverðar fyrir kennara s.s. um útikennslu, vefmiðla ofl. og þið getið vakið athygli þeirra á. Bendi á að það er alltaf hægt að nálgast fréttabréfin á heimasíðunni.

Í þessu fréttabréfi eru tvær greinar um skólamál eftir félaga okkar, ég vil hvetja ykkur til að senda mér greinar um skólamál sem þið eigið í fórum ykkar, meistararitgerðir, þróunarverkefni eða annað sem við getum miðlað okkar á milli og lært af.

Þá vil ég minna ykkur á könnun menntamálaráðuneytisins til skólastjóra vegna innleiðingar námskráa í leik- og grunnskóla. Hægt er að svara könnuninni til 31. janúar.

Þarfagreining meðal skólastjórnenda SÍ, FSL, FS og FT um starfsþróun og námskeið.

Starfshópur á vegum Félags stjórnenda leikskóla, Skólastjórafélagi Íslands, Félagi stjórnenda í framhaldskólum og Félagi tónlistarskólakennara er að skoða starfsþróun skólastjórnenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum og tónlistarskólum bæði framboð og eftirspurn. Í byrjun febrúar verður send út könnun til félagsmanna þar sem ætlunin er að kanna þarfir skólastjórnenda fyrir starfsþróun og námskeið. Mikilvægt er að sem flestir gefi sér tíma til að svara þeirri könnun til að hægt sé að þróa og byggja upp markvissa starfsþróun skólastjórnenda.

með kveðju
Svanhildur

***

Handraði

Handraðinn á heimasíðu SÍ hefur verið uppfærður. Búið er að tengja álit og úrskurði menntamálaráðuneytis og umboðsmanns alþingis inn á viðeigandi greinar grunnskólalaganna undir verkefni skólastjóra skv. grunnskóla- og stjórnsýslulögum. Handraðinn er í vinnslu, lögfræðingur menntamálaráðuneytis hefur tekið að sér að lesa hann yfir og koma með athugasemdir og ábendingar um það sem betur má fara. Þá væri gott að heyra frá ykkur ef það er eitthvað sem þið rekist á og þarf að betrumbæta. Sjá hér

***

Rétt málsmeðferð-öruggt skólastarf

Námskeið um stjórnsýslu í starfsemi grunnskólanna

Námskeiðið er skipulagt af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Skólastjórafélagi Íslands. Það er ætlað skólastjórum, aðstoðarskólastjórum, deildarstjórum, fræðslustjórum, starfsmönnum sveitarfélaga sem starfa að málefnum grunnskóla og formönnum skólanefnda.

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur þekki inntak stjórnsýslureglna og geti beitt þeim af öryggi, greint hvenær stjórnsýslulögin eiga við og hvernig þeir almennt fylgi góðum stjórnsýsluháttum í skólastarfinu. Á námskeiðinu verður farið yfir hlutverk stjórnsýslureglna í starfi grunnskóla. Fyrst og fremst verður fjallað um samspil grunnskólalaga og stjórnsýslulaga en einnig koma til skoðunar tilteknar meginreglur í öðrum lögum svo sem barnalögum, upplýsingalögum og persónuverndar-lögum. Ekki verður fjallað um starfsmannamál og hæfisreglur að þessu sinni. Þá verða lögð raunhæf verkefni fyrir þátttakendur til úrlausnar í tengslum við tiltekin álitaefni.
Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Tryggvi Þórhallsson, lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sigríður Thorlacius, lögfræðingur hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur og Guðni Olgeirsson, sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Skráning og þátttökugjald. Þátttökugjald er 3.000 krónur og fá þátttakendur sendan reikning að loknu námskeiði. Opnað verður fyrir skráningu 1. febrúar á vef sambandsins

Námskeiðstaðir og tímasetningar

11 mars, mánudagur. Hótel Selfoss kl. 13:00-17:30
18 mars, mánudagur. Menntaskólinn í Borgarfirði kl. 13:00-17:30
8 apríl, mánudagur. Brekkuskóli á Akureyri kl. 13:00-17:30
15 apríl, mánudagur. Austurbrú á Egilstöðum* kl. 13:00-17:30
10 maí, föstudagur, Hótel Natura, Reykjavík v/Vestfjarða kl. 13:00-17:30

*með möguleika á fjarfundi til Hafnar í Hornafirði

ætlað Vestfjörðum en opið öllum sem ekki hafa nýtt sér aðrar dagsetningar.

Alls verða haldin námskeið á átta stöðum á landinu. Þegar hafa verið haldin þrjú námskeið, tvö á höfuðborgarsvæðinu og eitt á Suðurnesjum.

Hægt er að sjá dagskrá námskeiðsins hér

***

Grein um skólamál - Finnska menntakerfið - Kenna minna - Læra meira

Grein eftir Hilmar Björgvinsson, skólastjóra Kerhólsskóla um bók Pasi Sahlberg, Finnish Lessons, What can the world learn from educational change in Finland. Bókin fjallar um finnska menntakerfið og hvað heimurinn getur lært af þeim breytingum sem þar hafa orðið á menntakerfinu á undanförnum árum. Sjá frekar hér.

***

Grein um skólamál - Góðar fréttir úr grunnskólanum

Grein eftir Hafstein Karlsson, skólastjóra Salaskóla sem birist í Fréttablaðinu 15. janúar 2013 og fjallar um framþróun í íslenskum grunnskólum frá því um síðustu aldamót þar sem ýmsum góðum hugmyndum hefur verið hrint í framkvæmd og þær náð að festa rætur og stuðla að skólaþróun. Sjá frekar hér

***

Skilaboðaskjóða- fjölmenningarvefur

Vil vekja athygli ykkar á áhugaverðum vef á heimasíðu Austurbæjarskóla sem ætlaður er kennurum, foreldrum og bekkjarfulltrúum þegar koma þarf upplýsingum um bekkjarstarf til þeirra foreldra sem hafa annað móðurmál en íslensku. Eyðublöðin eru einnig á íslensku, þannig að erlendir foreldrar geta nýtt sér þau til að bjóða í afmæli hjá sínum börnum. Bekkjarfulltrúar og foreldrar geta prentað út tilkynningar um bekkjarstarf eða boð í afmæli á viðeigandi tungumálum eftir að hafa ráðfært sig við umsjónarkennara og heftað við tilkynningu eða töskupóst sem dreift er í bekknum. Sjá frekar hér.

***

Væksthus for ledelse

Hér er áhugaverður danskur vefur um stjórnun og leiðtogafærni. Nýjar fréttir koma á hverjum föstudegi.

***

Á döfinni

Vinnufundur stjórnar, skólamálanefndar, samninganefndar og kjararáðs verður haldinn 28. febrúar og 1. mars í Fróða, fundarsal KÍ að Heiðabyggð, Flúðum.
Meginefni fundarins eru kjaramál og vinna við kröfugerð SÍ í samræmi við vinnugögn frá ársfundinum í haust.

***
Korpu 071

Ábyrgðarmaður
Svanhildur María Ólafsdóttir,
formaður Skólastjórafélags Íslands.
Svanhildur@ki.is, símar 5951129/8917648

facebook
1px