Nóvember 2013. Forystusveit kennara vinnur óeigingjarnt starf fyrir félaga sína. Leggjum henni lið. Tölum saman. Guðrún Hólmgeirsdóttir í Vikupósti

FF-eplamynd

Nóvember 2013.

Forystusveit kennara vinnur óeigingjarnt starf fyrir félaga sína. Leggjum henni lið. Tölum saman.

Guðrún Hólmgeirsdóttir í Vikupósti á vef FF

***

Undirbúningur kjarasamninga í fullum gangi

Samninganefnd Félags framhaldsskólakennara undirbýr nú gerð nýs kjarasamnings við ríkið en gildandi kjarasamningur við fjármálaráðherra rennur út 31. janúar nk. Nefndin er sammála um að leggja megináherslu á endurskoðun launasetningar kennarastarfsins og launaleiðréttingu félagsfólks í framhaldsskólum m.v. samanburðarhópa. Ennfremur að berjast fyrir bættum skilyrðum framhaldsskólanna til að halda uppi nauðsynlegu faglegu starfi og samstarfi og til að greiða starfsfólki laun í samræmi við menntun og ábyrgð í starfi. Samninganefndir Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum munu starfa saman við framsetningu samningshugmynda og gerð viðræðuáætlunar um endurnýjun kjarasamnings. Viðræðuáætlun FF/FS og Samninganefndar ríkisins á lögum samkvæmt að liggja fyrir um miðjan nóvember.

***
Skýrsl Capture

Framhaldsskólinn vermir botninn samkvæmt nýrri vinnumarkaðsskýrslu

Skýrslan, Í aðdraganda kjarasamninga – Efnahagsumhverfi og launaþróun, var unnin af samstarfsnefnd stærstu aðila á vinnumarkaði og kom út í október. Sjá hér.

***

Ályktun FF um frumvarp til fjárlaga 2014

Stjórn Félags framhaldsskóla ályktaði 31. október sl. um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2014 og gagnrýnir harðlega metnaðarleysi í málefnum framhaldsskólans sem þar birtist. Þar sé eina framtíðarsýnin að stytta framhaldsskólann og auka skilvirkni. Útgjöld á hvern framhaldsskólanemanda á Íslandi eru miklu lægri en að meðaltali í löndum OECD og hin umrædda skilvirkni er því aðeins feluorð um áframhaldandi niðurskurð í rekstri framhaldsskólans.

Í frumvarpinu er skorið niður um einn og hálfan milljarð. Þrátt fyrir að öðru hafi verið haldið fram í opinberri umræðu. Á árunum 2008-2012 var skorið niður um 7 milljarða miðað við framreiknað framlag ársins 2007 á verðlagi 2012. Ef mikil fjölgun nemenda er tekin með í er hagræðingin varlega áætluð 12 milljarðar miðað við sömu forsendur. Rekstur skólanna mun þyngjast enn frekar, verði frumvarpið samþykkt óbreytt með enn fábreyttara námsframboði, minni stoðþjónustu, allt of stórum námshópum og almennt versnandi skilyrðum fyrir nám og kennslu.

Stjórn Félags framhaldsskólakennara skorar því á Alþingi að rétta hlut framhaldsskólanna og gera þeim mögulegt að rækja lögbundnar skyldur sína. Sjá ályktunina hér.

***

Fundir í framhaldsskólum víða um land

Forysta Félags framhaldsskólakennara hefur haldið fundi með forystufólki í mörgum framhaldsskólum víða um landið undanfarnar vikur. Málefnin eru þessi:
• Launaþróun og starfskjör
• Slök frammistaða framhaldsskóla sem ríkisstofnana í stofnanasamningum
• Áframhaldandi niðurskurður og kreppa í framhaldsskólum landsins.
• Undirbúningur kjarasamninga sem losna 31. janúar 2014.

Í sumum skólum hafa einnig verið haldnir almennir fundir í félagsdeildinni og svipuð málefni rædd. Mikil óánægja ríkir með slaka launaþróun og svikin loforð um að kjör í framhaldsskólum standist samanburð við kjör annarra sérfræðinga hjá ríki. Gremju og biturðar verður einnig mjög vart í garð stjórnvalda sem miðað við fjárlagafrumvarp 2014 ætla heldur að herða sig en hitt í því að hlaða niðurskurði á herðar framhaldsskólunum og nú umfram aðrar ríkisstofnanir. Lítil jákvæð áhrif stofnanasamninga á kjör starfsfólks í framhaldsskólum er svo kornið sem fyllir mælinn en launahækkana umfram umsamdar miðlægar lágmarkskjarabreytingar gætir vart í framhaldsskólunum.

***

Kennari mánaðarins telur hugmyndir um styttingu framhaldsskólans út í hött

Arna Einarsdóttir líffræðikennari við Menntaskólann á Akureyri er Kennari mánaðarins á vef FF. Í myndskeiðinu segir Arna frá fjölbreyttu starfi sínu og sýn á kennarastarfið. Talað er við nemendur hennar og samstarfsmenn.

Arna tjáir sig umbúðalaust um launakjör kennara og hugmyndir um styttingu framhaldsskólans sem hún telur út í hött. Sjá hér.

***

Frá SEF

Í upphafi árs var ljóst að Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara-SEF þurfti að skera verulega niður framboð til framhaldsskólakennara á þessu ári. Nefndin ákvað þá að láta sumarnámskeið faggreinafélaga ganga fyrir og var framboð á sumarnámskeiðum óbreytt frá fyrri árum. Nú hefur komið í ljós að enn er svolítið svigrúm og því hefur verið ákveðið að bjóða upp á frekari styrki til faggreinafélaga.
Aukaumsóknarfrestur 2013 verður til og með 15. desember 2013 og eru tveir styrkjaflokkar í boði:
* Einn styrkur vegna gestafyrirlesturs hjá fagfélagi eða skóla að upphæð 30.000 krónur.
* Einn styrkur til stjórnar faggreinafélags vegna ráðstefnu erlendis að upphæð 150.000 krónur.

Sama rafræna umsóknarformið gildir fyrir báða styrkjaflokka og verður það opnað hér á vefnum 15. nóvember. Sama faggreinafélag getur sótt um báða styrki í einni umsókn. Sjá nánar hér.

Þann 14. nóvember verður árlegur fundur nefndarinnar með formönnum faggreinafélaga. Fundurinn verður að þessu sinni haldinn í mennta- og menningarmálaráðuneytinu

***

Boðaðar eru miklar breytingar á skólastefnu og skipulagi framhaldsskóla á næstu árum. Því er áríðandi að ný stjórn sé í stakk búin að móta skýra stefnu í þessum málum og gæti hagsmuna félagsmanna í nýju og síbreytilegu starfsumhverfi.

Hefur þú skoðanir á hvernig framhaldsskólinn á að vera í framtíðinni eða hver starfsskilyrði framhaldsskólakennara eiga að vera? Þá ættir þú kannski að íhuga framboð til stjórnar FF.

Frestur til að skila inn framboðum er til 1. desember 2013.

***

Áhugavert lesefni fyrir kennara

Skólavarðan er málgagn Kennarasambands Íslands. Annað tölublað ársins er komið út en þar eru margar greinar sem varða framhaldsskólakennara. Elna Katrín Jónsdóttir gerir t.d. athyglisverða úttekt á stofnanasamningum í framhaldsskólum og sagt er frá framgangskerfi kennara í Svíþjóð.

Dreifingu blaðsins er háttað þannig að fáein eintök eru send út í alla skóla. Þeir sem þess óska geta fengið blaðið sent heim sér að kostnaðarlausu. Sjá hér.

***
facebook
1px