7 tbl. 28 maí 2013 Heilir og sælir ágætu félagsmenn, nú er þessu skólaári að ljúka. Ég vona að þið hafið átt góðan og árangursríkan vetur hvað varðar

SI Haus

7 tbl. 28 maí 2013

***

Heilir og sælir ágætu félagsmenn, nú er þessu skólaári að ljúka. Ég vona að þið hafið átt góðan og árangursríkan vetur hvað varðar nám nemenda, skólaþróun og starfsþróun. Framundan er sumarið og undirbúningur næsta vetrar. Minni ykkur á mikilvægi þess að skólastjórnendur taki sumarfrí. SÍ vinnur nú að því að fá hugmyndir og tillögur frá Menntavísindasviði, Háskóla Akureyrar og Háskólanum í Reykjavík um starfsþróun, símenntun og námskeið fyrir skólastjórnendur. Vonandi getum við kynnt þær tillögur fyrri part sumars.

með kveðju
Svanhildur

***

Kjaramál

1213298939Uh9ynb[1]

Hafin er vinna með Launanefnd sveitarfélaga og Félagi stjórnenda leikskóla um skoðun og samræmingu á kjarasamningum SÍ og FSL. Fyrsti fundurinn fór í að samlesa kjarasamninga og skoða hverju þyrfti að breyta og hverju ekki. Á næsta fundi 29. maí munu SÍ og FSL kynna hugmyndir sínar fyrir SNS um breytingar á kjarasamningum og fyrirhugaða vinnu.

***

Fréttir frá Danmörku

danish-flag-balloon-28856813[1]

Sett hafa verið lög í Danmörku eftir verkbann sveitarfélaga á kennara. Öll vinnutímaákvæði kennara (tímaskilgreiningar) verða teknar úr sambandi í kjarasamningi kennara í tvö skólaár frá 1. ágúst 2014.

Markmið ríkisvaldins er að fjölga kennslustundum nemenda og auka samvera kennara með nemendum. Skólastjórum verður afhent fullt vald yfir vinnutíma kennara og skipulagi á vikulegri viðveru sem og ársskipulagi. Hér er viðtal við varaformann Skolelederforeningen Claus Hjortdal. sem skýrir málið frekar. Einnig er hér tengill á heimasíðu Skolelederforeningen. fyrir þá sem vilja fylgjast frekar með þessu máli.

***

Námstefna og aðalfundur SÍ 11.-12. október 2013

1219160742DrLGK7[1]

Námstefna SÍ verður að þessu sinni haldin í samvinnu við Félag stjórnenda leikskóla. Námstefnan mun fjalla um Skóla framtíðarinnar og hvernig við sem skólastjórnendur þurfum að vera horfa fram á veginn og hafa sýn til framtíðar. Hvernig byggjum við upp nám og kennslu á 21. öldinni? Hvaða verkefni eru handan við hornið og hvernig vinnum við þau? Námstefna verður haldin á Hótel Hilton föstudaginn 11. október kl. 9:30-16:30. Tveir erlendir fyrirlesarar Frank Craword og Ollie Bray munu vera með erindi um stjórnandann sem leiðtoga í skóla framtíðarinnar. Nánari dagskrá síðar.

Aðalfundur SÍ verður haldin 12. október kl. 10-13 í Laugalækjarskóla.

***

Fréttir frá Skólastjórafélagi Vesturlands

Starfsemi SV er í frekar föstum skorðum. Félagsmenn eru mjög virkir og góð mæting á fundi. Í stjórn eru Magnús Þór Jónsson, Elín Kristinsdóttir, Hilmar Már Arason, Ingibjörg Adda Konráðsdóttir og undirrituð. Magnús Þór er formaður félagsins en undirrituð hefur leyst hann af í því hlutverki frá áramótum.
Vetrarstarfið hófst formlega með aðalfundi í Landnámssetrinu í Borgarnesi 27. September 2012. Svanhildur var gestur okkar á þeim fundi og fór yfir stöðu SÍ og framtíðarsýn.
Félagsmenn SV mættu vel á námstefnu SÍ á Akureyri. Heilmargir félagsmenn voru í námi í vetur. Einhverjir eru að klára masterinn, nokkir voru á Bifröst í Sterkari stjórnsýsla og nokkir í Heiltækri forystu.
Vetrarfundur var haldinn í Landnámssetrinu í Borgarnesi 7. febrúar. Á þessum vetrarfundum hefur skapast sú hefð að fá félagsmenn sem eru í framhaldsnámi til að segja því sem þeir eru að gera og okkur hefur fundist það fyrirkomulag henta okkur vel. Í þetta skipti brugðum við þó út af vananum og fengum þau Jón Pál Haraldsson og Sif Einarsdóttur til að fjalla um áherslurnar í nýrri aðalnámskrá. Þau ræddu m.a. um innleiðingu hæfniviðmiða, grunnþættina, innleiðingu og innleiðingaráætlun fyrir grunnskóla og vinnu við skólanámskrár út frá nýju aðalnámskránni. Gagnleg og skemmtileg erindi og góðar umræður í lokin.
Vorfundir félagsins eru tveggja daga fundir. Fyrri daginn fáum við fyrirlesara, förum í skoðunarferð og endum daginn á sameiginlegum kvöldverði og skemmtun fram eftir kvöldi. Seinni daginn förum við í skólaheimsóknir og borðum saman hádegismat áður en allir fara til síns heima. Lögð hefur verið áhersla á að halda vorfundina á sem flestum stöðum á svæðinu. Þetta árið var fundurinn í Reykholti. Við fengum Jón Baldvin Hannesson sem fyrirlesara. Hann leiddi okkur í allan sannleikann um nýja námsmatið og hvernig væri unnið með það í Giljaskóla. Erindið hans var bæði fróðlegt og skemmtilegt og honum tókst að hrista vel upp í okkur. Eftir erindi Jóns Baldvins skoðuðum við Snorrastofu og heimsóttum síðan Háskólann á Bifröst og fengum kynningu á því sem þar er í boði. Við enduðum daginn á að borða saman og ómuðu hlátrasköllin um Hótel Reykholt langt fram eftir kvöldi. Seinni daginn heimsóttum við Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum og á Varmalandi. Þar var tekið vel á móti okkur og sáum við og fræddumst um öflugt og skemmtilegt skólastarf. Vorfundinum lauk með hádegismat á Varmalandi.
SV hefur verið í vinasambandi við Skólastjórafélag Suðurlands sem hefur byggst upp á gangkvæmum heimsóknum á vorfundi. Vorið 2012 heimsóttum við félaga okkar á Suðurlandi. Þessi samskipti hafa verið skemmtileg og gaman að kynnast félögum okkar úr öðrum svæðafélögum.
Arnbjörg Stefánsdóttir formaður SV.

***

Fréttir frá SKAUST - Skólastjórafélagi Austurlands

Hefðbundin starfsemi Skaust hefur falist í haustfundi, vorfundi og viðburði þess á milli, námskeiði eða kynnisferð. Vorfundurinn átti að vera á Egilsstöðum 15. apríl í tengslum við námskeiðið Rétt málsmeðferð, öruggt skólastarf. Vegna veðurs varð að fresta bæði námskeiðinu og fundinum og féll fundurinn að mestu niður en var þó haldinn að hluta í rútuferð félagsmanna í byrjun maí.
Heimsókn í Skagafjörð
Dagana 2. og 3. maí stóð Skaust fyrir ferð skólastjórnenda á Austurlandi norður í Skagafjörð. Markmið ferðarinnar var þríþætt; að efla tengsl skólastjórnenda á Austurlandi, að efla tengsl skólastjórnenda á Austurlandi og Norð-Vesturlandi en þó fyrst og fremst að kynnast skólastarfi í Skagafirðinum en Skagfirðingar hafa eins og flestum er kunnugt verið að ná góðum árangri í skólunum sínum.

Herdís Á Sæmundardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs Skagafjarðar sá að mestu um skipulag dagskrár í Skagafirði. Skólarnir í Varmahlíð og Sauðárkróki voru skoðaðir en mest var lagt upp úr því að fá kynningu á þeim verkefnum sem í gangi eru í Skagafirði. Svo fór að ekki náðist að fá kynningu á þeim öllum enda um stór og viðamikil verkefni að ræða og Austfirðingar spurulir um það sem er í gangi. Auk kynningar á samþættri félags, - frístunda- og fræðsluþjónustu í Skagafirðinum þá var kynning á Vinaverkefni Skagfirðinga og Vinaliðaverkefninu sem Árskóli tók upp síðasta vetur. Þá var kynning á Ipad verkefni þriðja bekkjar í Árskóla og Gæðagreininum sem starfsfólk Árskóla telur vera grunninn að góðum árangri í skólanum. Skólastjórnendur á Austurlandi voru afar áhugasamir um verkefni Skagfirðinga og líklegt að bæði Vinaliðaverkefnið og Gæðagreinirinn verði skoðaður vel.
Skagfirðingar tóku einstaklega vel á móti okkur Austfirðingum og voru m.a. með móttöku í Gestastofu sútarans og kynningu á starfsemi sútunarverksmiðjunnar á Sauðárkróki. Skólastjórnendur á Norð- Vesturlandi voru að hluta til með í öllum kynningum og var einstaklega skemmtilegt að ná að blanda skólastjórafélögunum saman sem þrátt fyrir ólík landshorn eiga svo margt sameiginlegt. Að kvöldi 2. maí borðuðu félagar skólastjórafélaganna saman í Jarlsstofunni á Hótel Tindastól. Ákveðið var að hafa dagskrána þar óformlega og ganga út frá því að þar sem margir skólastjórnendur hittust þar myndi eitthvað gerast og svo sannarlega voru umræður kvöldsins fjörugar, gagnlegar og fróðlegar.
Á leiðinni heim var stansað í Giljaskóla á Akureyri þar sem Jón Baldvin Hannesson skólastjóri fór yfir það hvernig unnið er með námsmatið í Giljaskóla. Sá fyrirlestur var afar áhugaverður og einhverjir hafa þegar hugsað sér að fá Jón Baldvin í skólann til sín.
Með þessum orðum þökkum við skólastjórafélagi Norð- Vesturlands, Skagfirðingum og Jóni Baldvini fyrir höfðinglegar móttökur.
Þórgunnur Torfadóttir formaður SKAUST

***
Korpu 071

Ábyrgðarmaður
Svanhildur María Ólafsdóttir,
formaður Skólastjórafélags Íslands.
Svanhildur@ki.is, símar 5951129/8917648

facebook
1px