Fréttabréf SÍ. 1 tbl. 22. janúar 2014 Ágætu félagsmenn, gleðilegt ár og þökk fyrir samstarfið á liðnum árum. Fram undan er viðburðaríkt ár þar sem vi

SI Haus

Fréttabréf SÍ. 1 tbl. 22. janúar 2014

***

Ágætu félagsmenn, gleðilegt ár og þökk fyrir samstarfið á liðnum árum. Fram undan er viðburðaríkt ár þar sem við munum leggja áherslu á starfsþróun skólastjórnenda bæði með námskeiðum og ráðstefnum. Í þessu fréttabréfi munum við segja frá því helsta sem er á döfinni. Kjaramál og samningaviðræður verða stór þáttur í starfi félagsins ásamt margs konar daglegum verkefnum fyrir félagsmenn. Hikið ekki við að hafa samband ef þið þarfnist þess með.

Með kveðju,
Svanhildur

***

Kjaramál

1236290090a2uD5j[1]

Eins og fram kom í síðasta fréttabréfi hittist viðræðunefnd SÍ og samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga á fyrsta samninganefndarfundi þann 16. desember sl. Farið var yfir markmið SÍ í kjaramálum og viðræðunefndin lagði áherslu á að gerð yrði verkáætlun til lengri tíma um þau markmið sem við höfum lagt fram óháð lengd kjarasamnings sem gerður yrði núna. Fram kom í máli samninganefndar Sambandsins að ekki yrði farið í viðræður fyrr en niðurstaða lægi fyrir í kjarasamningum á almennum markaði. Samninganefnd Sambandsins frestaði síðan fyrirhuguðum fundi 14. janúar til 3. febrúar næstkomandi þar sem þau voru ekki tilbúin til viðræðna.

Á þessu stigi er því ekki um neinar fréttir að ræða af kjarasamningaviðræðum en samningur okkar er laus þann 31. janúar 2014. Við munum leggja áherslu á það á næsta fundi með samninganefndinni að viðræður hefjist og gera kröfu um að næsta samningstímabil hefjist 1. febrúar 2014 þó að viðræður dragist.

Hér er hægt að skoða markmið og leiðir SÍ 2014-2024.

Formaður SÍ hitti kennsluráðgjafa og sérkennsluráðgjafa í Reykjavík á fundi í síðustu viku þar sem þeir óskuðu eftir umræðum um stöðu þeirra í kjarasamningaviðræðum. SÍ semur fyrir starfsmenn á skólaskrifstofum, kennsluráðgjafa og sérkennsluráðgjafa í sínum kjarasamningum og hafa þeir samningar verið notaðir sem viðmið hjá mjög mörgum skólaskrifstofum en þó er eitthvað um að starfsmenn skólaskrifstofa séu í starfsmannafélögum viðkomandi sveitarfélags.
Ákveðið var að setja saman fjögurra manna hóp sem færi yfir kjarasamninga og leiðir SÍ og setti fram markmið og tilllögur fyrir samningaviðræður.
Formaður mun síðan hitta hópinn á fundi í byrjun febrúar. Í framhaldi verður starfsmönnum skólaskrifstofa, kennsluráðgjöfum og sérkennsluráðgjöfum sem taka laun samkvæmt kjarasamningi SÍ sendar þessar tillögur og óskað eftir ábendingum og/eða tillögum.

***

Starfsþróun skólastjórnenda

k12399400

Vorið 2013 var gerð könnun meðal skólastjórnenda í SÍ, FSL, FS og FT um þarfir til starfsþróunar. Í framhaldi var leitað tilboða frá Menntavísindasviði HÍ, Miðstöð skólaþróunar á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík og Endurmenntunardeild HÍ sem lögðu síðan fram hugmyndir að starfsþróun og námskeiðum fyrir skólastjórnendur fyrir skólaárið 2013-14. Sjá hér.

Þátttaka var ekki mikil en mikil ánægja er með þau námskeið sem fóru af stað, sérstaklega ber að nefna námskeiðsröð í HR.

Starfshópur á vegum SÍ, FSL, FS og FT hefur ákveðið að leita aftur tilboða frá háskólunum og bæta Háskólanum á Bifröst við. Við vonum að með því að vera fyrr á ferðinni þá verði þátttaka meiri. Nánar um þetta síðar í vor.

***

Fyrirhuguð þing, ráðstefnur, málþing og fleira 2014

1219160742DrLGK7[1]

Hér verður sagt frá þeim viðburðum á árinu 2014 sem búið er að ákveða. Nánari upplýsingar koma síðar í tölvupóstum og/eða fréttabréfi.

Mars og apríl
Haldin verða námskeið fyrir skólastjórnendur í leik- og grunnskólum um ráðninga- og starfsmannamál.
Haldin verða átta námskeið víðs vegar um landið með fjarfundum. Námskeiðin eru unnin í samstarfi Skólastjórafélagsins, Félags stjórnenda leikskóla, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Nánari upplýsingar verða sendar í tölvupósti í byrjun febrúar.

1.-4. apríl – Þing Kennarasambands Íslands.

5. apríl – Ráðstefna um starfsþróun á Akureyri. Sjá hér.

13.-14. ágúst – Norræn ráðstefna undir yfirskriftinni "Future teachers – a Profession at Crossroads" verður haldin í Reykjavík. Aðalfyrirlesarar verða Andy Hargreaves og Pasi Sahlberg. Nánar auglýst síðar.

15.-19. september – Námskeið norrænna skólastjóra frá Færeyjum, Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Námskeiðið verður haldið í Reykjavík. Markmið þessa hóps KURS21NORD er að skoða skólaþróun á Norðurlöndum og læra í samvinnu um markmið og leiðir í skólaþróun. Þessi hópur hefur mikinn áhuga á að fá íslenska skólastjórnendur með á námskeiðið í september. Pláss er fyrir 8 til 10. Þeir sem hafa áhuga og vilja frekari upplýsingar hafi samband við formann SÍ.

10.-11. október – Námstefna SÍ á Selfossi. Meginefni námstefnunnar er starfsþróun skólastjórnenda. Nánar um þetta síðar.
______
27.-29. október – ESHA2014 ráðstefna evrópskra skólastjóra nú haldin í Dubrovnik í Króatíu. Sjá frekar hér.
Þessar ráðstefnur eru mjög áhugaverðar og metnaðarfullar. Stjórn SÍ og skólamálanefnd fóru á ráðstefnuna 2012 í Edinborg. Hægt er að sjá frásagnir og erindi á heimasíðu SÍ og 1. fréttabréfi SÍ 2013. Stjórn SÍ hefur ákveðið að fjórir fulltrúar frá SÍ sæki ráðstefnuna. Við hvetjum sem flesta til að kynna sér ráðstefnuna og sækja hana.

***
Korpu 071

Ábyrgðarmaður
Svanhildur María Ólafsdóttir,
formaður Skólastjórafélags Íslands.
svanhildur@ki.is, símar 5951129/8917648

facebook
1px