Rauða eplið 9. tbl. október 2013 Af nýútkomnu fjárlagafrumvarpi má ráða að framhaldsskólum landsins sé ætlað að þola einna mestan niðurskurð allra st

FF-eplamynd

Rauða eplið 9. tbl. október 2013

Af nýútkomnu fjárlagafrumvarpi má ráða að framhaldsskólum landsins sé ætlað að þola einna mestan niðurskurð allra stofnana ríkisins á árinu 2014. Þetta eru kaldar kveðjur nýrrar ríkisstjórnar til nemenda og starfsfólks skólanna en framlög til þeirra hafa verið skorin niður ár hvert frá hruni. Skammsýni stjórnvalda á góðæristímanum fyrir hrun olli því að einnig þá var fé til starfsemi framhaldsskólanna skorið svo mjög við nögl að ógnaði gæðum skólastarfs.

Er ekki mál að linni? Hvar er metnaður íslenskra stjórnvalda fyrir sitt menntakerfi? Ætlar Ísland að sitja áfram í öskustó og vera eftirbátur nær allra Evrópulanda um mat á kennarastarfinu til launa?

Kjarasamningar KÍ framhaldsskóla við ríki og aðra vinnuveitendur eru lausir fljótlega eftir áramót. Ekki er glæsilegt að litast um í launalandslagi kennarastéttarinnar þrátt fyrir margítrekuð markmið í kjarasamningum og samkomulögum við menntamálaráðherra á ýmsum tímum um endurmat á kennarastarfinu og jafnstöðu félagsmanna KÍ í framhaldsskólum við samanburðarhópa svo sem háskólamenntaða sérfræðinga hjá öðrum stofnunum ríkisins.

Tölurnar segja eiginlega allt sem segja þarf eins og sjá má á meðfyljgjandi mynd um launaþróun KÍ/framhaldsskóla samanborið við aðra þó víst megi telja að flestir þekki orðið staðreyndir málsins. Kennarar eru orðnir langþreyttir á lítilsvirðingu stjórnvalda við kennara og skólastarf og metnaðarleysi um kjör þessa mikilvæga starfshóps. Því verður ekki lengur unað að smíðuð séu samkomulög og markmið sem ekki er fyrirhugað að efna.

(E.K.J)

***
***

Um fjárframlög til símenntunar framhaldsskólakennara

Framlög til símenntunar framhaldsskólakennara í fjárlagafrumvarpi 2014 eru 39,2. Það eru vonbrigði fyrir kennara að þau hækka aðeins um tæp 4% frá þessu ári en þá voru framlögin 37,7 milljónir eða um sömu prósentutölu og útgefin verðbólguspá Seðlabankans. Gildi símenntunar eykst sífellt og þörf fyrir öfluga starfsþróun. Framhaldsskólakennarar gera miklar faglegar kröfur til sín og þurfa sífellt að geta bætt við sig til að uppfylla kröfur samfélagsins.

Um síðustu áramót flutti menntamálaráðuneytið starfsemi SEF-Samstarfsnefndar um endurmenntun framhaldsskólakennara frá Endurmenntun til Rannís og fyrirkomulagi um námskeiðahald og styrki var breytt á þann hátt að utanumhald var aukið þannig að kostnaður jókst. Því er það eðlileg krafa að framlög til símenntunar verði aukin.

***

Ráðstefna á vegum Norrænu kennarafélaganna (NLS)

Um 90 fulltrúar aðildarfélaga NLS komu saman á ráðstefnu í Danmörku í byrjun þessa mánaðar um þróunina á undanförnum árum á kjarasamningum opinberra starfsmanna, stöðu kennarastarfsins á nýrri öld og hlutverk kennarafélaga, trúnaðarmanna og kennarastéttarinnar í því að efla virðingu fyrir kennarastarfinu. Formenn KÍ og aðildarfélaga sóttu ráðstefnuna.

Alls staðar standa kennarar sem opinberir starfsmenn frammi fyrir tvíþættri kröfu, annars vegar niðurskurði og hagræðingu í kjölfar kreppu, og hins vegar kröfum um meiri skilvirkni í skólastarfinu með vondum áhrifum á atvinnuöryggi, laun og starfsskilyrði. Þessar kringumstæður hafa haft áhrif á samskipti við kjarasamningagerð og á fyrirkomulag samninga. Reynt er að fækka viðfangsefnum í kjarasamningum og grípa til lagasetningar í stað frjálsra samningaviðræðna og er verkbann danskra sveitarfélaga á grunnskólakennara skýrt dæmi um þetta.

Til að vinna gegn þessu þurfa kennarar að taka höndum saman um að efla virðingu fyrir kennarastarfinu. Það er fyrst og fremst verk þeirra sjálfra, það gerir enginn fyrir þá. Skapa þarf aðstæður í skólastarfinu sem styðja við kennarastarfið og fagmennsku, samvinnu um nám og kennslu, sjálfræði í starfi og starfsþróun. Kennarar þurfa að gera miklu meira af því að tala um kennarastarfið, segja frá um hvað það snýst og þeim mikilvægu gildum sem það stendur fyrir.

Hlutverk kennarafélaganna er áfram að hafa forystu, móta stefnu og framfylgja henni í samskiptum við stjórnvöld. En félögin þurfa líka að dreifa ábyrgð til trúnaðarmanna og þaðan til kennaranna sjálfra. Trúnaðarmenn hafa mikilvægt hlutverk við að hvetja kennara til umræðu starf sitt. Margir sendiherrar fyrir kennarastarfið þurfa að verða til í skólunum.

***

Ráðstefna um brottfall á framhaldsskólastigi í Evrópu

Evrópudeild Alþjóðasambands kennara (ETUCE) hélt ráðstefnu 19.-20. september síðastliðinn um brottfall og hvort nota megi upplýsingatækni til að draga úr því. Á ráðstefnunni voru kynntar niðurstöður á rannsóknum sem ETUCE hefur unnið í fjórum Evrópulöndum þar sem markmiðið var að minnka brottfall, fá nemendur til að snúa til baka í skóla og þróa viðmið um nýstárlega notkun upplýsingatækni í námi. Anna María Gunnarsdóttir sótti ráðstefnuna fyrir hönd Kennarasambands Íslands.

Ástæða þess að ETUCE réðst í þetta verkefni var að nauðsynlegt þótti að kennarasamtök tækju forystu í þessum málflokki. Hugmyndir um hvernig nota eigi upplýsingatækni í kennslu eru óljósar. Kennaramenntunarstofnanir taka fyrst og fremst þátt í fræðilegum rannsóknum á menntun og hafa mjög lítil áhrif á kennara eða kennsluaðferðir. Auk þess hafa stjórnvöld margra Evrópuþjóða það markmið að auka notkun upplýsingatækni í skólastarfi og draga með því úr útgjöldum til menntamála. Kennarasamtök þurfa því að móta sér stefnu í málaflokknum.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að brottfall megi einkum rekja til félagslegs bakgrunns nemenda og þess að þeir setja ekki námið í forgang. Notkun upplýsingatækni mun væntanlega ekki draga úr brottfalli af þessum sökum. Hins vegar benda rannsóknarniðurstöður til að upplýsingatækni gæti haft áhrif á aðra þætti sem orsaka brottfall eins og námsaðferðir, námsmat, forsendur nemenda og áhugahvöt.

***

Frá Vísindasjóði FF og FS

Minnt er á að úthlutun úr A deild stendur nú yfir. Nánari upplýsingar eru í Fréttabréfi A deildar 2013 sem sent var út í byrjun árs og er einnig að finna á heimasíðu KÍ/FF undir endurmenntunarsjóðir.

Sérstök athygli er vakin á því að þegar sótt er um rafrænt gegnum "Mínar síður" fær umsækjandi tölvupóst sem staðfestir að umsóknin sé móttekin í kerfinu og hafi vistast. Ef staðfesting kemur ekki um hæl þarf að reyna aftur eða senda umsókn eftir öðrum leiðum.

Húsnæðið að Bitruhálsi 2, þar sem sjóðurinn er til húsa, lokar á slaginu kl.16:00 á daginn og er lokað um helgar. Hægra megin við aðalinnganginn er bréfalúga (ómerkt) og þar er hægt að setja inn umsóknir. Fyrir þá sem ekki rata að Bitruhálsi 2 þá er Orkuveita Reykjavíkur næsti nágranni við hliðina (aðalinngangar húsanna snúa í sömu átt).

***
FF med nafni

FF minnir formenn félagsdeilda á skil á gögnum frá félagsdeildum

1. Upplýsingar um kjörna fulltrúa og starfsemi og tilheyrandi eyðublað sem þeir fengu sent í pósti – Skilafrestur 18. október
2. Ársreikningur frá síðasta aðalfundi – Skilafrestur 18. október
3. Staða á reikningum deilda m.v. 1. nóvember og bankayfirlit 1.1-1.11.2013 – skil 8. nóv.
4. Skilagrein yfir fundarsetu fulltrúa FF í samstarfsnefnd – skilist inn fyrir jólaleyfi 2013. Minnum á að fjárframlög FF til félagsdeilda fyrnast 1. janúar ár hvert. og skv. reglum FF skal ofandgreindum atriðum nr. 1-3 skilað inn til að fjárframlagi sé úthlutað. Ítarlegri upplýsingar varðandi fjárframlög til deilda má finna í bréfum sem send hafa verið formönnum félagsdeilda.

***

Framboðsfrestur hjá Félagi framhaldsskólakennara - FF er til 1. desember

Hefur þú einhverjar skoðanir á hvernig framhaldsskólinn á að vera í framtíðinni eða hver starfsskilyrði framhaldsskólakennara eiga að vera? Þá ættir þú kannski að íhuga framboð stjórnar FF. Frestur til að skila inn framboðum er til 1. desember 2013.

Boðaðar eru miklar breytingar á skólastefnu og skipulagi framhaldsskóla á næstu árum. Því er áríðandi að ný stjórn sé í stakk búin að móta skýra stefnu í þessum málum og gæti hagsmuna félagsmanna í nýju og síbreytilegu starfsumhverfi.

***
Aðalfundur
***

Ritstjórar: Anna María Gunnarsdóttir og Elna Katrín Jónsdóttir
Ábyrgðarmaður: Aðalheiður Steingrímsdóttir

***
facebook
1px