Mánudagur, 21. janúar 2013 Stjórn Félags tónlistarskólakennara hefur ákveðið að hefja útgáfu á rafrænu fréttabréfi. Hugmyndin er að fréttabréfið verð

epli ft logo

Mánudagur, 21. janúar 2013

Stjórn Félags tónlistarskólakennara hefur ákveðið að hefja útgáfu á rafrænu fréttabréfi. Hugmyndin er að fréttabréfið verði meðal annars vettvangur fyrir styttri tilkynningar og ábendingar um ýmis fagleg málefni og kjaramál sem eiga við á hverjum tíma.

Stjórnin óskar öllum félagsmönnum gleðilegs árs og þakkar fyrir samstarfið á liðnu ári!

***
Peningar

Átt þú inni ofgreidd félagsgjöld?

Skrifstofa FT vill minna á að félagsmaður sem er ráðinn við fleiri en einn skóla í meira en 100% starf samtals í dagvinnu getur fengið félagsgjöldin endurgreidd vegna þess hluta sem er umfram fullt starf.

Viðkomandi félagsmaður þarf að leggja fram afrit af launaseðlum frá báðum/öllum vinnuveitendum. Endurgreiðslan fer fram eftir á vegna hvers skólaárs eða annar. Félagsmenn sem óska eftir endurgreiðslu eru hvattir til að senda beiðni um það til skrifstofu FT.

***
tonlist

Umsóknarfrestur um námslaun er til 15. febrúar

Vakin er athygli á því að umsóknarfrestur um námslaun hjá Starfsmenntunarsjóði tónlistarskólakennara er til 15. febrúar.

Þeir tónlistarskólakennarar sem hafa starfað í a.m.k. 10 ár og greitt er fyrir í sjóðinn eiga rétt á námslaunum. Stjórn sjóðsins er heimilt að veita félagsmönnum námslaun í allt að tólf mánuði.

Samkvæmt verklagsreglum Starfsmenntunarsjóðs tekur sjóðsstjórn tillit til eftirfarandi þátta við úthlutun námslauna:

a) Starfsaldurs umsækjanda.
b) Eðli umsóknar. Að frágangur umsóknar sé viðunandi og að allar upplýsingar um væntanlegt nám komi fram.
c) Hvernig nám nýtist umsækjanda í starfi að námi loknu.
d) Að staðfesting liggi fyrir frá viðkomandi skóla/kennara eða ljóst sé að námið standi umsækjanda til boða.
e) Að jafnaði sé ekki veitt námslaun nema sem nemi einu stöðugildi í hverjum skóla.
f) Umsóknir og fylgigögn þeim tilheyrandi sem berast eftir tilgreindan umsóknarfrest eru ekki teknar til greina.

Öllum umsóknum verður svarað í síðasta lagi 15. apríl. Úthlutun síðasta árs má sjá hér.

***
Merki Nótunnar

Um Ísmúsþemað á Nótunni 2013

Í tilefni af opnun „Ísmús“ (Gagnagrunns með íslenskum músík- og menningararfi.) sl. sumar ákvað Tónlistarsafn Íslands og Nótan að taka höndum saman um að hafa íslenskan tónlistar- og menningararf í brennidepli á Nótunni 2013. Atriði í viðurkenningarflokknum „frumsamið/frumlegt“ verða að tengjast íslenskum tónlistar- og menningararfi að þessu sinni og hafa tengingu við Ísmúsvefinn.

Spurt hefur verið hvort atriðin verði að tengjast efni sem finna má á Ísmús.is? Svarið er já. En... á það má benda að ef einhverjir hafa verið að vinna úr eða með efni sem ekki er á Ísmúsvefnum eru þeir félagar Jón Hrólfur Sigurjónsson og Bjarki Sveinbjörnsson hjá Tónlistarsafni Íslands vafalítið reiðubúnir að bæta því efni þar inn hið snarasta.

Nálguninni eru engar skorður settar aðrar en þær að í atriðinu þarf nemandi (nemendur) að hafa unnið með eða út frá íslenskum tónlistar- og menningararfi, sem finna má á Ísmús, með einhverjum hætti. Sem dæmi þá getur verið um útsetningar að ræða, tónverk sem byggir á fyrrgreindu efni, blöndun tónlistarstíla, hljóðblöndun, nýstárlegan flutning; hvað varðar hljóðfærasamsetningu, notkun tölvutækni til dæmis skjávarpa, þverfaglega nálgun eða leikræna tilburði.

Á eftirfarandi tengli má sjá dæmi um hvernig nota má Ísmúsvefinn í tengslum við þemað Ísmús-þema (síðan er unnin af Jóni Hrólfi Sigurjónssyni).

***
Helm og B

Vefsíða með nótum fyrir píanósamspil

Á þessum nýja rafræna miðli gefst tækifæri til að koma ábendingum á framfæri og deila efni um faglegt skólastarf. Að þessu sinni er kennurum bent á vefsíðu með nótum fyrir píanósamspil hverskonar. Á vefsíðunni eru nóturnar flokkaðar eftir því hvort þær eru fyrir eitt eða tvö píanó, 2, 4, 6, 8, 12 eða 16 hendur. Smellið á myndina til að fara á vefsíðu Helm & Baynov Verlag.

***
þjóðlagakver Capture

Þjóðlagakver

Guðrún Ingimundardóttir (Rúna) hefur gefið út Þjóðlagakver með þjóðlögum og kvæðalögum frá Fljótum, Siglufirði og Ólafsfirði. Þjóðlagakver þetta er hið fyrsta í röðinni en hvert kver mun innihalda þjóðlög og kvæðalög frá ákveðnum landshluta ásamt nokkrum tvísöngvum sem í eina tíð voru sungnir víða um land.

Séra Bjarni segir þetta í formála að bók sinni Íslensk þjóðlög: „En síðar meir geta þeir sem vilja, gert útdrætti úr safni þessu og gefið út svo mörg eða fá lög, sem þeir vilja, og útsett þau á einn eða annan hátt eptir eigin geðþótta. Þetta safn, er jeg hef reynt að gjöra sem vandaðast og fullkomnast, verður þá eins og nokkurs konar forðabúr, sem úr má taka og hagnýta sjer eftir vild og þekkingu.“

Með útgáfu á Þjóðlagakverunum vonast Rúna til þess að endurvekja áhuga söngfólks á þjóðlagaarfinum og blása nýju lífi í kvæðamennskuna.

Lesa meira

***
Capture

Söngvasafn

Nýlega kom út bók hjá Námsgagnastofnun sem ber heitið Söngvasafn. Safnað hafa og valið Ingólfur Guðbrandsson, Snorri Sigfús Birgisson og Þorgerður Ingólfsdóttir. En bókin er helguð minningu Ingólfs.

Söngvasafn er 240 blaðsíður að stærð og inniheldur 224 lög til notkunar með almennum söng í skólum, á heimilum og við ýmiss konar mannfagnað. Bókin hentar líka mjög vel í píanókennslu því lögin eru í einföldum píanóútsetningum. Bókstafshljómar gera gítarleikurum auðvelt að nota bókina. Aftast í bókinni eru fróðlegar athugasemdir við ýmis lög, uppruna þeirra og útsetningar.

Í bókinni eru lög úr eldri söngvasöfnum, Íslensku söngvasafni (Fjárlögunum) frá 1915/1916 og Nýja söngvasafninu (1949), en einnig fjölmörg ný og nýleg lög af ýmsu tagi sem ekki hafa verið prentuð áður eða hafa verið ófáanleg um lengri eða skemmri tíma. Söngvasafn geymir m.a. ættjarðarlög, stúdentalög, jóla- og áramótalög, afmælislög, rúmlega 50 þjóðlög og þannig mætti áfram telja.

Lesa meira

***
EMCY

Tónlistarkeppnir fyrir börn og ungmenni í Evrópu

Á eftirfarandi tengli er fréttabréf EMCY „European Union of Music Competitions for Youth“ sem eru regnhlífarsamtök um tónlistarkeppnir fyrir börn og ungmenni í Evrópu.

EMCY er aðili að „International Music Council“ og „European Music Council“ sem Félag tónlistarskólakennara er aðili að í gegnum Evrópusamtök tónlistarskóla.

Í fréttabréfinu eru m.a. listar yfir tónlistarkeppnir sem framundan eru hjá aðilum EMCY, umsóknarfrestir eru tilgreindir og sigurvegarar fyrri tónlistarkeppna EMCY.

Hægt er að nálgast tengla á ýmis erlend samtök sem tengjast tónlistarmenntun á vef Félags tónlistarskólakennara.

***
peturinga

Umsóknir um Selið Stokkalæk 2013

Selið Stokkalæk auglýsir eftir umsóknum um dvalarstyrki árið 2013. Með dvalarstyrkjum er átt við endurgjaldslaus afnot af Selinu í tiltekinn tíma, ýmist til kennslu eða æfinga eða til tónleikahalds.

Umsóknir skulu hafa borist fyrir 10. febrúar næstkomandi. Sótt er um á heimasíðunni stokkalækur.is undir flipanum „Styrkir og bókanir“. Á dagatali á forsíðu heimasíðunnar kemur fram hvaða dagar eru þegar bókaðir á árinu (merktir með bláu).

Sérstök athygli er vakin á því að styrkir til æfinga eða tónleikahalds verða einkum veittir ungum tónlistarmönnum sem eru að hefja feril sinn sem atvinnumenn í klassískri tónlist.

Lesa meira

***

Ábyrgðarmaður:

Sigrún Grendal
formaður Félags tónlistarskólakennara
Netfang: sigrun@ki.is
Sími: 595-1111 / 694-5462

1px