35.félagsbréf 31. janúar 2013 Fagmennska, samstaða, lausnaleit Við bjóðum góðan dag alla daga. Dagur leikskólans, 6. febrúar, hefur fest sig í sess

FSL Haus

35.félagsbréf 31. janúar 2013

Fagmennska, samstaða, lausnaleit

***

Við bjóðum góðan dag alla daga.

Dagur leikskólans, 6. febrúar, hefur fest sig í sessi sem hátíðisdagur í leikskólum landsins. Félagsmenn eru hvattir til þess að vekja athygli á leikskólastarfi hvort sem er í nánasta umhverfi eða opinberlega. Dagur leikskólans er á fasbókarsíðu þar sem upplagt er að deila hugmyndum og frásögnum í máli og myndum.

Vondu fréttirnar

Enginn samningsgrundvöllur er fyrir breytingum á kjarasamningi eða kjarabætur á grundvelli bókunar 2 og ekkert til þess að greiða atkvæði um. FSL setti fram fjölmargar hugmyndir að útfærslum til að bæta kjör félagsmanna,(ekki síst aðstoðarleikskólastjóra), en því miður hafnaði SNS þeim öllum með þeim þvergirðingshætti sem einkennir umhverfi þeirra kjaraviðræðna sem nú eiga sér stað. VIð trúðum því um sumarsólstöður í júní 2011 að við myndum fá leiðréttingar en SNS stóð ekki við orð sín.
Þetta eru mikil vonbrigði fyrir samninganefnd félagsins og starfshópinn sem svo sannarlega lagði sig fram af fremsta megni.

Góðu fréttirnar

-Vilji er til þess af hálfu viðsemjenda að fela mannauðsstjórum sveitarfélaganna að kanna orsakir starfsmannaveltu og finna leiðir til þess að minnka hana.
-Vilji er til þess af hálfu SNS viðsemjenda okkar að undirbúa samningana 2014 í samvinnu SÍ(Skólastjórafélag Íslands) og FSL. Stjórn og samninganefnd FSL kom saman fyrir skemmstu og ákvað að fela starfshópi um bókun 2 að kanna það hvort þessi leið sé greiðfær. SÍ mun funda í febrúar í sínum röðum og viji þeirra verður ljós í byrjun mars. Samstarf við SÍ er á allan hátt uppbyggilegt og vænlegt til framfara svo að við teljum ástæðu til bjartsýni.
-Samningstími á almenna vinnumarkaðnum hefur verið styttur og það kemur í ljós á allra næstu dögum hvort að það hefur áhrif á okkar samninga.

Samráðsfundur í Hannesarholti

Samráðsnefndin kom saman 28. janúar í Hannesarholti Veður voru válynd og fulltrúar Vestfjarða og Austurlands voru veðurtepptar við kertaljós á Ísafirði en náðu þó að senda okkur fréttir úr heimabyggðum.
Fulltrúar HÍ og HA höfðu framsögu um stöðu mála í leikskólafræðum. Fundarmenn voru sammála um að námið verður að vera svo innihaldsríkt og vel skipulagt að það sé eftirsóknarvert að stunda það í fimm ár. Við erum stödd á tímamótum þar sem kynslóðaskipti eru fram undan en næsta kynslóð er ekki vöknuð og okkar verkefni er að vekja hana.Sérfræðingar frá mennta og menningarmálaráðuneytinu voru gestir undir þessum lið.
Eftir hádegi voru fluttar fréttir frá svæðum. Það má segja að blæbrigðarmunur sé á milli fundarins núna og fyrir ári síðan og sem betur fer á jákvæðan hátt. Þrátt fyrir að enn séu ógróin sár eftir sameiningar og fækkun stjórnenda þá virðist niðurskurðarhnífurinn vera kominn í slíðrið. Á sumum svæðum er verið að skila til baka að einhverju leyti og fundarmenn voru ánægðir með þá þróun að samráð og fundir séu að færast inn á dagvinnutíma. Skipulag á undirbúningstímum gengur víða betur og svo mætti lengi telja. Fundargerð verður sett á heimasíðuna innan skamms.

Dagur leikskólans. Orðsporið.

Katrín Jakobsdóttir mennta og menningarmálaráðherra mun veita Orðsporið á Degi leikskólans. Fjöldi tilnefninga bárust og mun kynningarnefnd birta þær innan skamms.

1px