Minnisblað um Netsiðareglur og rafræn samskipti Síðustu ár hafa orðið til ýmsir samfélagsmiðlar þar sem auðvelt er að koma skoðunum sínum á framfæri.

moli
***

Minnisblað um Netsiðareglur og rafræn samskipti

Síðustu ár hafa orðið til ýmsir samfélagsmiðlar þar sem auðvelt er að koma skoðunum sínum á framfæri. Mörk milli þess sem fólk skrifar í einkalífi og starfi verða óljósari um leið og aðgengi að fjölmiðlum verður auðveldara. Þarna myndast nýr vettvangur fyrir samskipti og nám nemenda og huga þarf af og ræða hvernig slíkum samskiptum skuli háttað.

Veturinn 2011-2012 skoðaði skólamálanefnd Félags framhaldsskólakennara netsiðareglur sem Finnlandssænsku kennarasamtökin settu sér og niðurstaða þeirrar vinnu var að beina því til siðaráðs KÍ að Kennarasamtökin settu hliðstæðar reglur með leiðbeiningum fyrir kennara um notkun samfélagsmiðla þar sem hnykkt er á hlutverki þeirra sem fagmanna og leiðbeiningar um hvernig efla má umræðu um notkun netsins og minnka má áreitni og einelti sem tengist samfélagsmiðlum. Hér á eftir er það helsta reifað sem skólamálanefnd FF telur að ætti að vera í slíkum reglum eða viðmiðum og fékk skólamálanefnd FG leyfi til að leyfa félagsmönnum okkar að njóta þeirra líka.

Leiðbeiningar fyrir kennara um notkun samfélagsmiðla

• Kennarar gæti að mörkum einkalífs og vinnu í samfélagsmiðlum og gæti þess að samskipti séu eðlileg, fagleg og mismuni hvorki nemendum né forráðamönnum þeirra.

• Kennarar eiga að ræða notkun samfélagsmiðla við nemendur.
Kennarar ættu að lýsa þeim mörkum sem þeir setja sér um notkun samfélagsmiðla og segja t.d. frá því að það sé ekki sanngjarnt að kennari sé „vinur“ sumra nemenda en ekki allra

• Kennari á að gæta trúnaðar við nemendur á samfélagsmiðlum.
Kennari á ekki að skrifa um einstaka nemendur, viðbrögð þeirra eða verkefni. Ekki á heldur að birta myndir af nemendum eða úr skólastarfinu án leyfis og mikilvægt að fá samþykki allra sem efnið snertir.

• Kennarar tjái sig af sanngirni um vinnu sína á samfélagsmiðlum.

Leiðbeiningar um hvernig minnka má áreitni og einelti sem tengist samfélagsmiðlum

• Kennarar hvetji til þess að í skólum þeirra séu settar sameiginlegar reglur, fyrir stjórnendur, kennara, nemendur og forráðamenn um notkun samfélagsmiðla.
Reglurnar ættu að vera skýrar og augljóst hver ber ábyrgð á hverju. Skólar ættu að setja sér reglur um hvernig fyrispurnum er svarað í tölvupósti, símtölum, á fundum o.s.frv.

• Kennarar hvetji til þess að í skólum séu settar skýrar reglur um notkun nemenda á farsímum og myndavélum og tónhlöðum og nemendur og forráðamenn þeirra upplýstir um reglurnar og hver viðurlögin við brotum á þeim eru.

• Skólinn gefur skýr skilaboð um að einelti og áreitni eru ekki liðin. Skólinn á að útskýra fyrir nemendum að það sem er skrifað á neyið telst opinber birting og viðurlög eru samkvæmt því. Leggja áherslu á að skólinn hefur ekkei umburðarlyndi fyrir hvers konar einelti og áreitni á netinu.

• Leiðbeiningar sem hægt er að gefa kennurum sem verða fyrir áreitni eða einelti
a. Kennarar taki afrit af öllum óréttmætum skilaboðum, uppfærslum og bloggfærslum. Þeir forðist að miðla eða skrifa ósæmileg skilaboð, tjá sig um þau eða framsenda þau. Þeir svari ekki neikvæðum skilaboðum áður en þau hafa verið rædd við foreldra, umsjónarkennara eða annan fulltrúa skólans. Ræða á málin eins fljótt og auðið er við skólastjórnanda, trúnaðarmann eða stéttarfélag.
b. Taka þarf ákvörðun um hvort viðkomandi vill reyna að höndla málin innan skólans eða hafa samband við lögreglu.
c. Ef kennari veit hver braut á honum er hægt að hafa samband við nemanda – og forráðamann ef nemandi er yngri en 18 ára til að láta þá vita af ástandinu og hver brugðist verður við.
d. Kennari getur krafist þess að færsla sé fjarlægð af netinu. Ef við því er ekki orðið er hægt að hafa samband við umsjónarmann vefsvæðisins og hvetja til þess að efninu verði eytt. Yfirleitt er hægt að vísa í reglur viðkomandi síðu- um samskipti málinu til stuðnings.

***

Skilaboðaskjóða- fjölmenningarvefur

Við viljum vekja athygli ykkar á áhugaverðum vef á heimasíðu Austurbæjarskóla sem ætlaður er kennurum, foreldrum og bekkjarfulltrúum þegar koma þarf upplýsingum um bekkjarstarf til þeirra foreldra sem hafa annað móðurmál en íslensku. Eyðublöðin eru einnig á íslensku, þannig að erlendir foreldrar geta nýtt sér þau til að bjóða í afmæli hjá sínum börnum. Bekkjarfulltrúar og foreldrar geta prentað út tilkynningar um bekkjarstarf eða boð í afmæli á viðeigandi tungumálum eftir að hafa ráðfært sig við umsjónarkennara og heftað við tilkynningu eða töskupóst sem dreift er í bekknum. Sjá frekar hér

***

Fyrirlestrar við HÍ sem tengjast kennslu:

Viðhorf sérkennara til menntastefnunnar skóla margbreytileikans. Sjá nánar hér.

Hvernig eflum við saman gæði náms og kennslu. Sjá nánar hér.

Fleiri ábendingar hafa ekki borist að sinni um ráðstefnur og fundi.

Við hvetjum ykkur til að senda okkur hugmyndir og ábendingar um efni í Skólamola FG.

1px