Fréttabréf Mý deildar Delta Kappa Gamma 6. tbl. 2013 Ef þú sérð ekki fréttabréfið með myndum smelltu þá hér Og hér fyrir aftan til að komast á heima

DKG

Fréttabréf Mý deildar Delta Kappa Gamma 6. tbl. 2013

Ef þú sérð ekki fréttabréfið með myndum smelltu þá hér

Og hér fyrir aftan til að komast á heimasíðu landssamtakanna og
Mý deildarinnar

***

Af fundum haustsins

images (1)

Stjórnarfundir

Stjórnin hefur fundað tvisvar sinnum í haust. Fyrri fundurinn var í byrjun ágúst. Á honum lagði stjórn línurnar fyrir komandi vetur. Seinni fundurinn var haldinn í september og þá hittist stjórnin á kaffihúsinu Gísli, Eiríkur, Helgi á Dalvík til að leggja lokahönd á dagskrá vetrarins og einnig til að hitta Hildi Ösp sem nýlega hefur tekið við störfum gjaldkera.

Næsti stjórnarfundur verður 12. nóvember. Sá fundur verður haldinn með stjórn Betadeildar því efni hans er dagskrá jólafundarins.

Stjórn þiggur allar tillögur að dagskrá jólafundar. Þeim getið þið komið til stjórnar með því að senda einkaskilaboð á Facebooksíðu deildarinnar eða að senda tölvupóst til Jennýar. Netfang hennar er jennyg@unak.is

Deildarfundir

Að mati ritara fréttabréfs hefur haustið liðið hratt. Nú þegar höfum við haldið þrjá fundi og samt þykir ritara að vetrarstarfið sé rétt byrjað!

Að venju eru fundir okkar bæði fróðlegir og skemmtilegir. Fundargerðir þeirra eru komnar á heimasíðu deildarinnar.

Það var tilbreyting í því á fyrstu tveimur fundunum að heimsækja deildarkonurnar og nöfnunar, Önnu í Árteigi og Önnu í Reykhúsum. Og því er ekki að neita að það er sérstaklega skemmtilegt þegar mætingin er jafn góð og hún var á síðasta fundi. Svo var það líka ánægjuleg stund þegar Ásdís og Bryndís gengu í deildina á síðasta fundi.

Jólafundurinn er næsti fundur

Eins og undanfarin tvö ár verður jólafundur okkar haldinn með Beta deildinni. Hann verður haldinn þriðjudaginn 3. desember í VMA. Nánari upplýsingar verða sendar ykkur í tölvupósti þegar nær dregur.

***

Hver er konan?

Birna maria

Að þessu sinni segir Birna María Svanbjörnsdóttir frá sjálfri sér.

Ætt og uppruni: Ég fæddist á Akureyri 14. apríl 1964, elst þriggja systkina, dóttir hjónanna Reine Margaretu Sigurðsson og Svanbjörns Sigurðssonar. Pabbi átti rætur að rekja til Akureyrar og Reykjadals en mamma er sænsk og alin upp í Gautaborg. Þau kynntust og hófu búskap þar þegar pabbi var þar við nám og fluttu með Gullfossi til Íslands 1963. Að mestu leyti ólst ég upp á Akureyri en tengslin við Svíþjóð voru alla tíð sterk og við eyddum stórum hluta skólafría þar í gegnum árin og árið 1976–1977 bjuggum við í Gautaborg. Ég byrjaði mína skólagöngu í 6 ára bekk hjá Sólveigu í Húsmæðraskólanum á Akureyri og mér er minnisstæð heimavinnan sem fylgdi mér til Svíþjóðar þá yfir jólin til að bæta upp leyfið úr skólanum. Þetta þótti sænsku ættingjum mínum merkilegt. Mér þótti hún hins vegar skemmtileg og sinnti henni samviskusamlega. Næst lá leiðin í vorskóla í Barnaskóla Akureyrar og þegar Lundarskóli tók til starfa fluttist ég þangað og svo koll af kolli, í Gagnfræðaskólann og Menntaskólann. Mér fannst alltaf gaman í skólanum og leikir mínir og vina mína einkenndust oft af „skólaleikjum“ þar sem ég var kennarinn. Mér fannst líka mjög gaman að teikna, sauma, breyta og hanna og þegar ég velti fyrir mér starfsvali var kennarastarfið ofarlega á lista en einnig fannst mér störf arkitekta og innanhúss arkitekta heillandi.

Menntun og starf: Þegar ég var á síðasta ári í MA fengum við að fara í starfskynningu í eina viku. Það var ekkert í boði sem tengdist arkitektúr eða slíku svo ég valdi að vera eina viku í Lundarskóla. Eftir það var ekki aftur snúið. Þetta var það skemmtilegasta sem ég hafði gert, að umgangast og tala við þessi einlægu börn fannst mér gefandi og ég fylltist eldmóði. Ég ætlaði að verða kennari. Til að fá enn frekari staðfestingu áður en ég hæfi formlegt nám í kennslufræðum ákvað ég að „prófa“ starfið í lengri tíma og fékk vinnu sem leiðbeinandi í Oddeyrarskóla árið eftir stúdentsprófið. Ekki minnkaði ljóminn við það því þar deildi ég umsjón með reyndum og metnaðarfullum kennara sem kenndi mér margt sem nýttist mér síðar í kennslu. Eftir það lá leiðin í KHÍ.

Áhugi minn á teikningu og myndlist var enn til staðar og í Kennó tók ég námskeið sem tengdust því og B.Ed. ritgerðin mín fjallaði um myndmeðferð (e. art therapy) sem ég hafði fengið áhuga á og hafði í hyggju að læra meira um. Á þeim tíma var þó ekki hægt að fara beint í framhaldsnám eftir grunnnám heldur þurfti að safna reynslu í tvö ár. Ég gerðist því kennari í grunnskóla í Kópavogi og tók við umsjón með tveimur 1. bekkjum. Ég kenndi öðrum bekknum fyrir hádegi og hinum eftir hádegi, samtals 54 börnum. Þetta var verulega krefjandi starf fyrir ný útskrifaðan kennara og mjög lærdómsríkt.

Mér fannst starfið með börnunum mjög skemmtilegt en það skyggði á hvað ég bar mikla ábyrgð ein. Ég saknaði sárlega einhvers að tala við um daglegt starf og áherslur, einhvers sem væri á staðnum og tæki jafnvel þátt í kennslunni með mér. Árið eftir óskaði ég eftir því að vera ekki ein með árgang til að fá einhvern á móti mér og vinna með og smám saman þróaðist fyrsti vísir að teymisvinnu sem hugnaðist mér. Reynsla mín sem umsjónarkennari varð til þess að hugmyndir um framhaldsnám í myndmeðferð lögðust til hliðar en mig langaði að eflast í bekkjarkennslu og þróa starfshætti mína í samstarfi við samkennara mína.

Ég er gift Gunnari Þór Gunnarssyni hjartalækni. Við eignuðumst okkar fyrsta barn sumarið 1991, hana Valgerði. Þremur árum síðar eignuðumst við Oddnýju og Sóleyju árið 2003. Valgerður lést haustið 2001. Haustið 1994 fluttum við til Gautaborgar þar sem Gunni fór í sérnám og bjuggum þar í tæp 8 ár. Þar var offramboð af kennurum á þessum tíma og meðan ég var að bíða eftir að fá kennarastöðu fékk ég vinnu sem stuðningsfulltrúi í leikskóla og grunnskóla og afleysingastöður sem kennari þar til ég fékk fasta stöðu sem umsjónarkennari í Ugglums skóla. Ég lærði margt nýtt á þessum tíma en það sem ég held að standi upp úr er hugarfar og vinnubrögð um samvinnu og samræðu um kennslu og nám.

Eftir að við fluttum til Íslands vorið 2002 skráði ég mig í meistaranám við Háskólann á Akureyri og í kjölfar þess bauðst mér starf við skólaþróunarsvið (síðar miðstöð skólaþróunar) Háskólans á Akureyri. Hugur minn hafði smám saman opnast fyrir skólaþróunarfræðum sem áttu nú hug minn allan. Eftir að hafa lokið meistaranáminu og unnið nokkur ár með starfandi kennurum á vettvangi við að þróa og bæta skólastarf ákvað ég að fara í doktorsnám á því sviði í þeim tilgangi að efla mig í starfi og skilja betur þessi fræði. Ég hóf doktorsnám við HÍ haustið 2008 og ákvað strax að dreifa því á sex ár samhliða hlutastarfi hjá miðstöðinni.

Það skemmtilegasta við starfið: Árið 2010 tók ég við starfi forstöðumanns miðstöðvarinnar og fékk hlutastarf sem lektor við kennaradeild. Við þetta jókst starfshlutfallið og það varð erfiðara að finna tíma fyrir námið. Yfirstandandi almanaksár er ég því í leyfi frá störfum við HA og sinni náminu eingöngu.

Hlutverk miðstöðvarinnar er að vera gagnkvæmur farvegur þekkingar til starfandi kennara og annars fagfólks í skólum landsins og frá þeim inn í háskólann. Áhersla er á að fræða, veita ráðgjöf og styðja við þróun skólastarfs í takt við ríkjandi menntastefnu. Það getur ýmist verið af frumkvæði skólayfirvalda, skóla og starfsmanna eða með verkefnum sem miðstöðin hefur haft forystu um að móta eða óskar eftir samstarfi um að þróa. Miðstöðin sinnir sérfræðiþjónustu við alla leik- og grunnskóla á Akureyri með það að markmiði að stuðla að framsæknu skólasamfélagi í samræmi við skólastefnu bæjarfélagsins. Auk þess sinnir hún verkefnum í fjöldamörgum skólum út um allt land.

Það skemmtilegasta við starfið er tengingin við skólastarf á vettvangi, að koma inn í mismunandi skóla, hitta skólastjórnendur og kennara og eiga við þá uppbyggjandi samræðu um skólamál og breytingastarf. Kennsla verðandi kennara á vel við starfið á miðstöðinni og býður upp á að virkja flæðið milli fræða og útfærslu þeirra í starfi og gera það sýnilegt.

Þegar um er að ræða kennslu og nám skiptir ekki máli á hvaða aldri nemendur eru. Það besta við þetta allt er kannski að mér finnst ég sjálf alltaf vera að læra eitthvað nýtt og get tengt það fyrri þekkingu og reynslu þannig að úr verður ný þekking.

Af hverju DKG?: Þegar mér bauðst að gerast félagi í DKG sá ég það sem tækifæri til að kynnast störfum annarra kvenna sem fást við kennslu og fræðastörf og sem vettvang til að víkka sjóndeildarhringinn.

Anna spurði mig hvað hefði haft áhrif á ákvarðanatöku mína varðandi nám – og starfsval. Ég vona að ég hafi svarað þeirra spurningu með umfjöllun minni hér að ofan.

Hverri viltu kynnast í næsta fréttabréfi? Þórgunni Vigfúsdóttur skólastjóra Borgarhólsskóla á Húsavík.

Hvaða spurningu viltu leggja fyrir Þórgunni? Hvað er það mikilvægasta sem þú hefur lært í starfi þínu sem skólastjóri og hvernig nýtist það þér?

***

Konfektkassinn

konfektid

Nokkrir gómsætir konfektmolar hafa borist inn á Facebook síðuna okkar.

Í þessari grein, The smart way of using Ipads in the classroom er sagt frá því hvernig grunnskóli í Sviss hefur nýtt spjaldtölvur á skapandi hátt í starfi sínu.

Svo er hér grein sem birtist í The Guardian 14. október s.l. Hún heitir Let children read what they want.

Hér er myndband um Universal Design for Learning en Hanna Ásgeirsdóttir setti inn þennan mola og sagði að þetta væru hugmyndir sem hún væri að velta fyrir sér í meistaranámi sínu.

Við fengum ábendingu um Söguskjóðuna sem er áhugavert verkefni í leikskólanum Krílakoti á Dalvík.

***

Tímarit um sjálfbærni í menntun

jseseal

Á netinu er hægt að nálgast tímaritið The Journal of Sustainability Education.

Tímaritið er opið og þar eru margar greinar um sjálfbærni í menntun. Greinarnar eru bæði eftir fræðimenn og starfandi kennara svo þarna er að finna efni sem bæði fjallar um rannsóknir og einstök verkefni í skólastarfi um viðfangsefnið.

Það er auðvelt að finna sér greinar í þessu veftímariti vegna þess að greinarnar eru flokkaðar eftir efni, aldurshópum og skólastigum.

Það væri fróðlegt ef einhver okkar nýtir sér grein úr þessu blaði og segði okkur hinum frá því, annað hvort á fundi eða á Facebook síðu hópsins.

***
ros i snjo

Hafið það sem allra best í vetrarblíðunni þar til við hittumst á jólafundinum þann 3. desember,

Jenný, Anna, Guðný og Ingileif

facebook
1px