1. tbl. 2013 Heilir og sælir ágætu félagsmenn og gleðilegt ár, þakka samvinnu á liðnu ári. Hér gefur á að líta nýtt útlit fréttabréfs SÍ. Það mun ne

SI Haus
1. tbl. 2013

Heilir og sælir ágætu félagsmenn og gleðilegt ár, þakka samvinnu á liðnu ári.

Hér gefur á að líta nýtt útlit fréttabréfs SÍ. Það mun nefnast eplið eins og fréttabréf KÍ en auðkennast af litnum í merki Skólastjórafélags Íslands. Fréttabréfið mun halda áfram að koma út mánaðarlega eða oftar ef þurfa þykir.

Fréttabréfið er viðameira að þessu sinni þar sem ákveðið var að taka það allt undir fagleg málefni og veita ykkur upplýsingar um áhugavert efni sem var á Evrópuráðstefnu skólastjóra í okt. 2012. Fréttabréfið verður vistað á heimasíðu SÍ til frekari skoðunar.

***

ESHA 2012 Evrópuráðstefna skólastjórnenda

Í þessu fyrsta fréttabréfi 2013 verður sagt frá Evrópuráðstefnu skólastjórnenda ESHA sem haldin var í Skotlandi 29.-31. október 2012. Næsta ESHA ráðstefna verður haldin í
Dubrovnik í Króatíu í október 2014.

Stjórn og skólamálanefnd SÍ sóttu ráðstefnuna og hafa tekið saman greinar frá fimm meginfyrirlestrum og 13 málstofum.

Allt þetta efni er mjög áhugavert og fræðandi og gefur ykkur vonandi hugmyndir og kveikjur sem þið getið nýtt ykkur í starfsþróun ykkar.

***

Meginfyrirlestur - Leadership

Mark Van Vugt er prófessor í sálfræði við VU Háskólann í Amsterdam. Sérsvið Van Vugt er á sviði stjórnunar-/leiðtogafræða innan félagssálfræðinnar. Síðustu skrif hans og rannsóknir beinast að hegðun og samspili leiðtoga og fylgjenda þeirra.

Erindi sitt byggir Van Vugt á rannsóknum sínum sem hann hefur skrifað um í bókinni Naturally selected Hann bendir á að fljótlega (25 sekúndur) eftir að hópur hefur myndast hefur hann, án umræðu, valið sér hver sé sá sem hlustað verður meira á og muni leiða hópinn í verkefninu.

Maðurinn er í eðli sínu hópvera sem hefur umfram aðrar verur þróað með sér færni til að vera hluti af hóp. Hann getur bæði leitt hóp og verið fylgjandi í hópi. Samkvæmt Van Vugt er þetta hæfileiki sem maðurinn hefur þróað með sér frá örófi alda.

Sjá frekar hér.

***

Meginfyrirlestur - Leadership in education and links to Scotland‘s professional standards

Fyrirlesarinn Tony Finn er Chief Executive of the General Teaching Council for Scotland. Hann hóf framsögu sína á því að spyrja spurninga sem hann svaraði í erindi sínu.

1. Hvernig líta leiðtogar út og hvernig líður okkur sem slíkum? Eru þeir inni á skrifstofunni með nefið upp í loftið og sjá ekki börnin? Eru þeir allir með yfirvaraskegg? Eru þetta kennarar sem vilja losna úr kennslustofunni og fá þægilega vinnu? Eru þetta ofurhetjur eða leggja þeir áherslu á samvinnu?

2. Hvers vegna er forysta (leadership) mikilvæg fyrir menntun?
3. Hvers vegna kennum við? Hvað er góð kennsla og hvers vegna skiptir hún máli?
4. Hvernig mælikvarða (standards) eru við að þróa?
5. Hvernig er góð forysta?
6. Getum við stuðlað að ákveðinni menningu þegar kemur að forystu? Hvernig myndi slík menning líta út?
Sjá frekar hér.

***

Meginfyrirlestur „Because you want to...Not because you have to."

Fyrirlesari Dr. Frank Dick OBE, formaður European Athletics Coaches Association en hann hefur áralanga reynslu af þjálfun afreksmanna í Bretlandi og hefur fengið viðurkenningar fyrir störf sín

Fyrirlesturinn fjallaði um hlutverk og ábyrgð leiðtoga við markþjálfun einstaklinga og/eða teyma. Hvernig byggir leiðtogi upp hvetjandi menningu og skapar tækifæri til þess að einstaklingar og/eða teymi nái árangri? Þetta var mjög áhugahvetjandi fyrirlestur sem vakti umræður og frekari spurningar og áhuga, sjá frekar hér.

***

Meginfyrirlestur - Social Networking for Schools and School Leaders

Fyrirlestarinn Ollie Bray sagði frá því hvernig hann notar tæknina við kennslu í skóla í skosku hálöndunum. Hann ræddi um að við þyrftum að velta því fyrir okkur hvað við erum að reyna að gera í kennslu. Netsamskipti ögra því sem við þekkjum og breyta valdaröðinni. Nemendur standa yfirleitt framar kennurum þegar kemur að þeim. Með netinu er hægt að eiga samskipti þrátt fyrir fjarlægðir. Við viljum að allir séu flinkir í samskiptum og geti unnið saman. Tæknin getur auðveldað þetta. Hann taldi að skólar ættu að taka tæknina í sína þjónustu og vinna með hana í stað þess að loka á hana, sjá frekar hér.

***

Meginfyrirlestur - Umboðsmaður barna

Fyrirlesarinn Tam Baillie hefur starfað sem umboðsmaður barna (e. Scotland´s Commissioner for Children and Young People) í Skotlandi síðan í maí 2009.
Í þessum fyrirlestri greindi Ballie frá því hvernig embætti hans fann út hvaða áherslur þyrfti að hafa svo Skotland gæti framfylgt 12. grein Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna. 12. greinin fjallar um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og þau hafi vettvang til að koma þeim á framfæri og að tekið sé mark á því sem þau hafa fram að færa. Sjá frekar hér.

***

Málstofa - Distributive Leadership

Fyrirlesari var Frank Crawford ráðgjafi og fyrirlesari í menntunarfræðum. Hann hefur 40 ára starfsreynslu í menntakerfinu og hefur haldið námskeið fyrir stjórnendur og kennara um víða veröld. Fyrirlesturinn var mjög áhugaverður og fjallaði um breytingar á hlutverki hins faglega leiðtoga. Hlutverk leiðtogans er að styðja við, þjálfa, handleiða og greiða götu starfsfólksins. Það er mikilvægt að setja mörk, en einnig að gefa starfsfólki og nemendum svigrúm til að taka forystu og blómstra.
Sjá frekar hér.

***

Málstofa - Insight: Inspection, Innovation and Improvement in Scotland

Fyrirlesari var Kenneth Muir, yfirmaður nýlegrar stofnunar sem nefnist Education Scotland / Foghlam Alba. Þetta er ársgömul opinber stofnun með nýju sniði og umtalsverðu sjálfræði. Meginhlutverk hennar eru m.a. að sjá um úttektir og mat á skólastarfi, sinna ráðgjöf og stuðningi við skóla um nám og kennslu og að stuðla á allan mögulegan hátt að jákvæðri skólaþróun í Skotlandi í mjög víðum skilningi og langt út fyrir hefðbundnar skólastofnanir. Þetta taldi Muir að færi sérstaklega vel saman. Ríkulegur vefur stofnunarinnar endurspeglar þetta viðhorf vel. Sjá frekar hér.

***

Málstofa - Breytingastjórnun á breytingatímum

Glenn Rodger flutti erindi sem hann kallaði Leading change in challenging times.
Glenn útlistaði mikilvægi menntunar og útskýrði mismunandi hugtök í menntakerfi Skotlands eins og CfE, GIRFEC, Closing the gap, Children´s Bill, Early Years o.fl. Glenn sagði að það verði alltaf breytingar á menntakerfinu og bjóst við sérstaklega hröðum breytingu á komandi árum. Glenn starfar í dag sem framkvæmdarstjóri á skólaskrifstofu sveitarfélagsins Borders í Skotalandi (Scottish Borders council) og hefur gert síðan árið 2012.

Skotar hafa gengið í gegnum miklar breytingar í menntakerfinu á síðustu árum m.a. með nýrri námskrá. Glenn benti á að til að hafa gott menntakerfi þurfi góða kennara og framúrskarandi kennslu. Sjá frekar hér.

***

Málstofa - Leading Learning

Fyrirlesarinn David Cameron ræddi sérstaklega um enskt menntakerfi þar sem ætlast er til að breytingar á skólastarfi og starfi kennara gerist hratt og þar er breytingaferlinu stjórnað að ofan. Hann bar skólakerfið saman við hið finnska og taldi að endurbætur/umbætur væru þar hluti af menntakerfinu, sjá frekar hér.

***

Málstofa - Leading in a crisis

Umsjón með málstofunni voru þrír stjórnendur frá Christchurch Nýja Sjálandi, Denise Torrey, Philip Harding og John Bangma.

Málstofan byggðist upp á myndasýningu úr skólum borgarinnar í bland við frásangir starfsmanna af jarðskjálftanum í Christchurch í febrúar 2011. Þremenningarir lýstu svo því sem fyrir augu bar og hver voru viðbrögð skólafólks. Fyrirlesarar lögðu áherslu á að viðbrögð í hamförum og hvernig góð neyðaráætlun getur verið gulls ígildi á slíkum stundum, sjá frekar hér.

***

Málstofa - Cluster connections

Sheena Devlin var fyrirlesari á þessari málstofu sem fjallaði um innleiðingu námskrár í samvinnu nokkurra skóla í Skotlandi. Stuðningur án miðstýringar er lykillinn.
Sjá frekar hér.

***

Málstofur um "Motivation" Hvatningu

Hér eru fjórar samantektir er varða „motivation“ eða hvatningu. Hvernig vinna skólastjórar með þetta hugtak í skólum bæði hjá starfsmönnum og nemendum. Hvaða aðferðir eru notaðar til að viðhalda áhuga og hvatningu meðal starfsmanna og nemenda. Þær eru
Motivaiting a team, fyrirlesari David Cameron
Motivaiting for further learning, fyrirlesarar Jacqueline Maull og Vicky Robertsson
Motivaiting young people, fyrirlesari Judy Murrey
Að virkja þá óvirku, fyrirlesari Ian White
Sjá frekar hér.

***

Málstofa um útikennslu

Peter Higgins stýrði málstofunni sem hann kallaði; Útinám, grundvallaratriði, framkvæmd, stefna og framtíðarsýn. Þar fjallaði hann um útikennslu í víðu samhengi. Hann varpaði fram tveimur grundvallarspurningum. Annars vegar spurningunni; Af hverju inninám? og hins vegar spurningunni; Af hverju útinám?
Peter Higgins er prófessor við Edinborgarháskóla og er yfir útináms- og umhverfisdeild skólans. Sjá frekar hér.

***

Málstofa um námsmat - Insight: 3-18 Assessment.

Umsjón með málstofunni voru Norman Emerson og John Allan.
Þeir líkja námsmati við langan og hlykkjóttan veg. Árið 2001 hófst vinna að breyttu námsmati í Skotlandi. Að flestra mati var þá of mikið um próf, þau ekki notuð á réttan hátt og því þurfti að breyta. Stjórnvöld skárust í leikinn, sett voru fram ný markmið og eflt til umræðu meðal skólamanna.
Þeir félagar sögðu það hafa verið mikla áskorun að breyta námsmatinu. Ekki hefðu allir verið sammála og því heitar umræður um námsmat í landinu. Áhugaverð grein um innleiðingu námsmats í Skotlandi, sjá frekar hér.

***

Málstofa um samvinnunám

Umsjón með málstofunni hafði Gillian Purves skólastjóri í grunnskóla.
Samvinnunámið er þróunarverkefni sem stendur til ársins 2014. Hún sagði frá því hvers vegna þau hófu þróunarstarf um samvinnunám og hvernig starfsþróun starfsmanna var byggð upp í tengslum við þróunarverkefnið. Fram kom í máli hennar að skólastarfið hafi breyst til mikilla muna og árangur náðst í að byggja upp jákvæðari skólamenningu, sjá frekar hér.

***
Korpu 071

Ábyrgðarmaður
Svanhildur María Ólafsdóttir,
formaður Skólastjórafélags Íslands.
Svanhildur@ki.is, símar 5951129/8917648

facebook
1px