Rauða eplið 8. tbl. september 2013 Frá Oddi S. Jakobssyni hagfræðingi KÍ Evrópski tungumáladagurinn Að tillögu Evrópuráðsins hefur Evrópski tungumá

FF-eplamynd

Rauða eplið 8. tbl. september 2013

***

Frá Oddi S. Jakobssyni hagfræðingi KÍ

***

Evrópski tungumáladagurinn

Að tillögu Evrópuráðsins hefur Evrópski tungumáladagurinn verið haldinn 26. september ár hvert síðan 2001. Í ráðinu eru 47 ríki sem eru fulltrúar um 800 milljóna Evrópubúa. Markmiðið með tungumáladeginum er meðal annars að vekja almenning til vitundar um mikilvægi tungumálakunnáttu, stuðla að fjöltyngi og auknum skilningi á menningu annarra þjóða. Ennfremur að vekja athygli á þeim tungumálum sem töluð eru í Evrópu og hvetja til tungumálanáms fólks á öllum aldri og jafnt innan sem utan skólakerfisins.

Haldið er upp á Evrópska tungumáladaginn 2013 með hátíðardagskrá í dag, fimmtudaginn 26. september í Bratta, fyrirlestrarsal Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð í Reykjavík. Vigdís Finnbogadóttir, sendiherra tungumála hjá Unesco og Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra eru meðal þeirra sem flytja ávörp en samkoman hefst kl. 16.

Allir eru boðnir velkomnir og tungumálakennarar og áhugafólk um tungumál sérstaklega hvatt til þess að mæta. Að dagskránni standa Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, mennta- og menningarmálaráðuneytið og STÍL – Samtök tungumálakennara á Íslandi.

***

Forystufólk úr öllum framhaldsskólunum á fundi um kjarasamninga og launamál

FF hélt fræðslufund 16. september síðastliðinn fyrir forystufólk félagsdeilda um kjarasamninga, stofnanasamninga og launaþróun. Fundinn sátu rúmlega 60 manns. Í framsögum var fjallað um hugmyndafræði dreifstýrðra kjarasamninga og upptöku þeirra hér á landi kringum aldamótin. Framhaldsskólinn fór að hálfu leyti inn í þetta kerfi í kjarasamningum árið 2001 og síðan að fullu árið 2005 með tilfærslu miðlægra kjaraþátta um mat á menntun, kennsluréttindum og reynslu yfir í stofnanasamninga. Gögn um launaþróun sýna að sá árangur sem félagsmenn KÍ í framhaldsskólum náðu í kjarasamningunum árið 2001 dugði aðeins fram á árið 2003/2004 en eftir það hafa laun ekki haldið í við samanburðarhópa. Markmið í kjarasamningum við ríkið um jafnstöðu við aðra í launum og um endurmat á kennarastarfinu hafa ekki verið uppfyllt og mat á kennarastarfinu er snöggtum lakara hér á landi en að meðaltali í OECD löndum og miklu lakara en á hinum Norðurlöndunum. Efnið verður sett á kjaramálasvæði á heimasíðu FF

Telja má fullreynt að núverandi samningsfyrirkomulag skili framhaldsskólanum neinu af því sem breytingu frá miðlægum kjarasamningum yfir í dreifstýrða samninga var ætlað að gera. Verulegur metnaður var á sínum tíma lagður í að leggja grunn að vönduðum stofnanasamningum í framhaldsskólum. Þrátt fyrir það hafa stofnanirnar aldrei haft afl eða aðstöðu til þess að eiga fé í afgang frá rekstri eða afla þess. Því standa þessir samningar dálítið eins og skessurnar sem urðu að steini steini þegar sólin kom upp.

Erindrekstur hafinn

Erindrekstur félagsins við félagsdeildir í framhaldsskólunum er hafinn. Tilgangur þessa er að efla samstarf við forystufólk kennara í hverjum skóla. Á erindrekafundum í haust verður fjallað um kjarasamninga/stofnanasamninga og leitað samstöðu um kjara- og félagsmál nú þegar kjarasamningar eru skammt undan. Fundir hafa þegar verið dagsettir í mörgum skólum. Hér má sjá lista yfir erindreka félagsins og þá skóla sem þeir tengjast.

***

Uppstillingarnefnd FF hefur hafið störf

Uppstillingarnefnd félagsins er nú að störfum. Hún setur fram tillögur um frambjóðendur til trúnaðarstarfa fyrir félagið. Starf uppstillingarnefndar skiptist í tvennt. Fyrir 1. desember 2013. skilar hún tillögum um framboð til formanns, fjögurra meðstjórnenda og þriggja varamanna. Almenn póstkosning um frambjóðendur til stjórnar fer síðan fram í janúar 2014. Uppstillingarnefnd skilar tillögum um önnur framboð 1. febrúar 2014. Kosning um þau fer fram á aðalfundi félagsins.

Félagsfólk í FF er hvatt til þess að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa fyrir félagið.

Nefndin tekur á móti tilnefningum í tölvupósti.
Í uppstillinganefnd eru:

Guðjón Ragnar Jónasson, formaður gudjonr@mr.is
Halldís Ármannsdóttir, ritari ha@fb.is
Anna Sigríður Davíðsdóttir anna@ma.is
Starfsmaður: Anna María Gunnarsdóttir (anna@ki.is)

***

Ritstjórar: Anna María Gunnarsdóttir og Elna Katrín Jónsdóttir
Ábyrgðarmaður: Aðalheiður Steingrímsdóttir

facebook
1px