28. nóvember 2013 11. tölublað „Annars vegar er komið til móts við þá sjálfsögðu kröfu að unglingar fái að stunda nám næst heimabyggð með stofnun ný

FF-eplamynd

28. nóvember 2013
11. tölublað

„Annars vegar er komið til móts við þá sjálfsögðu kröfu að unglingar fái að stunda nám næst heimabyggð með stofnun nýrra lítilla landsbyggðarskóla... Hins vegar er starf þeirra skóla sem fyrir eru látið molna niður innan frá vegna áralangrar kröfu um hagræðingu og sparnað í rekstri."

Sara Níelsdóttir í Vikupósti á vef FF

***

Viðræðuáætlun og upphaf samningaviðræðna

Formenn Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum undirrituðu viðræðuáætlun við samninganefnd ríkisins vegna endurnýjunar kjarasamninga 22. nóvember sl. Fyrsti samningafundur með ríkinu verður haldinn 3. desember og þar á að ræða nánar skipulag og efni viðræðna. Eins og kunnugt er rennur kjarasamningurinn út 31. janúar 2014 og lögum samkvæmt ber að leitast við að ljúka kjarasamningagerð áður en gildandi samningur rennur út. Það markmið er því sett fram í 1. grein viðræðuáætlunarinnar. Viðræðuáætlunina má nálgast hér.

***

Yfirlýsing frá stjórn Kennarasambands Íslands

Kennarasamband Íslands (KÍ) hefur komið þeim skilaboðum til stjórnvalda að það muni ganga óbundið til samninga í komandi kjarasamningsgerð. KÍ tekur ekki undir áherslur í nýlegu minnisblaði ríkisstjórnarinnar um skammtímasamninga með smávægilegum launahækkunum.
Yfirlýsinguna í heild má lesa hér.

Flensborg

Á dögunum bárust þau vondu tíðindi úr Flensborg að vegna fjárhagsvanda skólans þyrfti að leggja niður fjölmiðladeildina og alla kennslu í matreiðslu og myndlist. Þetta felur í sér að allt verklegt nám í skólanum hverfur, kennarar missa vinnuna og nemendur verða fyrir miklum óþægindum. Fjölmiðladeildin var stofnuð fyrir 13 árum og þar hefur verið unnið merkilegt brautryðjendastarf sem vakið hefur mikla athygli langt út fyrir skólann. FF hefur átt mikið og gott samstarf við deildina á síðustu misserum um myndbandagerð um „Kennara mánaðarins“, og þakkar fyrir það.

Þessi alvarlega staða í Flensborg varpar ljósi á þær miklu skekkjur sem hafa verið árum saman í forsendum menntamálaráðuneytis fyrir rekstarfé til skólanna vegna aukins nemendafjölda, fleiri verkefna og launakostnaðar þeirra. Fram kom í viðtali við skólameistara Flensborgar að ákvörðunin um niðurlagningu námsins byggðist ekki síst á því að fámennir hópar væru í fjölmiðladeildinni og kennslan væri dýr. Afleiðingar stefnu stjórnvalda gagnvart skólunum eru að hrúga nemendum í bóklegar greinar með sem minnstum tilkostnaði. Ekkert er að marka allt talið um mikilvægi verklegs náms.

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 27. nóvemer síðastliðinn var niðurskurðinum mótmælt harðlega og skorað á mennta- og menningarmálaráðherra að endurskoða fjárframlög. Ályktunina í heild má lesa hér:

***

Kennarar til bjargar

Í nýjasta tölublaði Gymnasieskolen, blaðs GL, systursamtaka okkar í Danmörku er grein um erindi nýsjálenska menntunarfræðingsins John Hattie á ný afstaðinni ráðstefnu sem bar nafnið „Visible Learning“. Hann segir kennara vera í lykilhlutverki varðandi námsárangur nemenda.
Erindinu er á vissan hátt stillt upp gegn hefðbundnari málflutningi um orsakir bágs árangurs danskra nemenda í Pisa þar sem oft er lögð áhersla á fjölda nemenda í námshópum, mikilvægi þess að auka kennslu og heimanám og á bættan innri og ytri aðbúnað í skólastarfi. Hattie leggur afgerandi mesta áherslu á tengslin milli nemenda og kennara, mikilvægi þess að kanna oft og reglulega námsstöðu nemandans og að kennarar þekki áhrif sín á nemendur. Í greininni er boðað ítarlegt viðtal við Hattie í næsta blaði. Greinina í heild sinni má lesa hér.

***

Þrír frambjóðendur til formanns FF

Þegar liggja fyrir þrjú framboð til embættis formanns og þrettán til stjórnar en framboðsfrestur er til 1. desember næstkomandi.

Núverandi formaður félagsins, Aðalheiður Steingrímsdóttir mun ekki gefa kost á sér til endurkjörs og ljóst er að kosið verður um nýjan formann, sem mun taka við embætti næsta vor. Eftirtalin hafa þegar gefið kost á sér til embættis formanns Félags framhaldsskólakennara:

1. Guðríður Arnardóttir-Fjölbrautaskólanum í Garðabæ
2. Gylfi Þorkelsson-Fjölbrautaskóla Suðurlands
3. Hrafnkell Tumi Kolbeinsson-Flensborg

Þeir fjórtán sem hafa gefið kost á sér til stjórnar eru:

Framboð til stjónar:
1. Elías Þorsteinsson- Verkmenntaskóla Akureyrar
2. Guðný Lára Petersen- Tækniskólanum
3. Guðmundur Björgvin Gylfason-Fjölbrautaskóla Suðurlands
4. Hafdís Fjóla Ásgeirsdóttir- Framhaldsskóla Vesturlands, Akranesi
5. Hanna Björg Vilhjálmsdóttir- Borgarholtsskóla
6. Helga Helena Sturlaugsdóttir-Iðnskólanum í Hafnarfirði
7. Helgi Helgason-Menntaskólanum að Laugarvatni
8. Jórunn Tómasdóttir- Fjölbrautaskóla Suðurnesja
9. Katrín Gunnarsdóttir- Menntaskólanum á Ísafirði
10. Kjartan Þór Ragnarsson-Kvennaskólanum
11. Reynir Þór Eggertsson-Menntaskólanum í Kópavogi
12. Sigríður Ragna Birgisdóttir-Flensborg
13. Sigrún Lilja Guðbjörnsdóttir-Menntaskólanum við Sund
14. Þóra Þórðardóttir-Menntaskólanum í Kópavogi

***
vikupósturinn

Átján framhaldsskólar hafa lagt til Vikupóstsritara frá ársbyrjun 2013

Nú er um að gera fyrir hina fjórtán að slást í hópinn. Gaman er að segja frá því að rúmlega þrjátíu kennarar og skólastjórnendur úr 18 skólum hafa nú þegar skrifað Vikupósta sem birtir eru á heimasíðu Félags framhaldsskólakennara og miðlað áfram á samfélagsmiðla. Mest hafa borist fjórir Vikupistlar úr sama skóla og eru það FB, MH, MS og Kvennaskólinn sem hafa vinninginn en aðrir skólar sem eiga pistlahöfunda eru FÁ, FG, Flensborg. F.Mos, FS, FSH, FSu., FVA, MA, MH, MK, TÍ, VA og VÍ. Við hvetjum nú félagsfólk okkar í skólunum fjórtán á höfuðborgarsvæðinu, í Borgarnesi, á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Laugum, Egilsstöðum, Höfn og í Vestmannaeyjum sem ekki hafa enn blandað sér í Vikupóstsritun að drífa í að senda okkur Vikupistla á næstunni. Loks má geta þess að kynjaskipting er nær alveg jöfn það sem af er og er það vel en til þess að sjónarmiða um kennslu, skólastjórnun og náms- og starfsráðgjöf sjái stað á þessum vettvangi þurfa náms- og starfsráðgjafar að blanda sér í vikupóstsritun. Áskorun til þeirra er hér með komið á framfæri.

***

Um greiðslur til félagsdeilda

Fjárframlög FF til félagsdeilda fyrir haustönn 2013 verða greidd um miðjan desember. Samkvæmt fjárhagsáætlun FF eru 5 milljónir áætlaðar til starfsemi félagsdeilda ár hvert. Þær skiptast í framlög til félagsstarfs deilda, umbun til trúnaðarmanna og formanna félagsdeilda og til greiðslna vegna fundarsetu fulltrúa FF í samstarfsnefndum.

Aðalfundur

Ritstjórar: Anna María Gunnarsdóttir og Elna Katrín Jónsdóttir
Ábyrgðarmaður: Aðalheiður Steingrímsdóttir

facebook
1px