Rauða eplið 7. tbl. september 2013 Útlenskt mat á kennarastarfinu til launa – já takk! Það er áhugavert að skoða hvernig launin okkar væru ef mat á

FF-eplamynd

Rauða eplið 7. tbl. september 2013

***

Útlenskt mat á kennarastarfinu til launa – já takk!

Það er áhugavert að skoða hvernig launin okkar væru ef mat á kennarastarfinu væri sambærilegt á Íslandi og í öðrum löndum. Því er nú hér – um leið og minnt er á gömul sannindi um launamun milli okkar og samanburðarhópa innanlands – brugðið upp mynd hér að neðan af því hvernig sama mat á kennarastarfinu á Íslandi og að meðaltali í löndum OECD myndi breyta kennaralaununum. Í fleiri dæmum ber allt að sama brunni - á Íslandi er kennarastarfið lakar metið en annars staðar. Mælikvarðinn sem notaður er heitir hlutfall af vergri landsframleiðslu á mann (= VLF) en með því er átt við markaðsvirði allrar vöru og þjónustu, sem framleidd er til endanlegra nota innan lands á tilteknu tímabili. (Heimild: Oddur S. Jakobsson, hagfræðingur KÍ).

Laun í hlutfalli við VLF á mann 2012
***

Undirbúningur fyrir kjarasamninga

Undirbúningur fyrir komandi kjarasamninga er nú hafinn hjá Félagi framhaldsskólakennara og Félagi stjórnenda í framhaldsskólum. En samningur KÍ/framhaldsskóla við ríkið er laus 31. janúar næstkomandi. Kjarasamningar við eftirtalda einkarekna framhaldsskóla: Menntaskóla Borgarfjarðar og Tækniskólann eru lausir 31. mars nk. en við Verzlunarskóla Íslands 31. maí nk. Ennfremur er sérstakur samningur gerður við Fjölmennt og er hann laus 31. mars nk.
Formlegar samningaviðræður eru ekki hafnar en FF og FS áttu í sumar einn fund með viðsemjendum sínum í fjármálaráðuneytinu og nú nýlega fund með menntamálaráðherra.

Stjórn og samninganefnd FF héldu daglangan vinnufund þann 24. ágúst síðastliðinn þar sem farið var yfir kjarastöðuna, launaþróun og fleira. Þann 16. september verður fræðslufundur fyrir samstarfsnefndir og erindrekstur í einstökum skólum er að fara í gang.

Lögum samkvæmt ber að gera viðræðuáætlun 10 vikum fyrir lok samningstíma og er við það miðað í lögum að nýr kjarasamningur sé tilbúinn þegar sá gamli rennur út. Þetta skipulag hefur lítt gengið eftir eins og kunnugt er og seinagangur oft einkennt samskipti við ríkið í aðdraganda samninga. Vonandi verður ekki svo að þessu sinni enda ærin viðfangsefni framundan í kennarasamningum.

***

Orð Illuga

Illugi Gunnarsson tók við embætti mennta-og menningarmálaráðherra þann 23. maí síðastliðinn. Fram til þessa hefur hans helsta innlegg til menntamála verið að boða styttingu framhaldsskólans. Hann segist hafa tekið ákvörðun um að koma þessu máli í gegn, hefur kynnt hugmyndir sínar á ríkisstjórnarfundi og segir að starfshópar í menntamálaráðuneyti útfæri þær nú. Að öðru leyti hefur hann lítið tjáð sig um framhaldsskólastigið.

Helsti rökstuðningur Illuga er að Ísland sé eina landið innan OECD þar sem taki 14 ár að ljúka námi til stúdentsprófs. Illugi sækir stuðning í hugmyndir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um niðurskurð í menntakerfinu og leggst á sveif með forsvarsmönnum atvinnulífsins sem vilja stytta námstíma til að draga úr kostnaði.

Félagi framhaldsskólakennara þykir þetta vera fremur metnaðarlaus stefna að hirða ekki um innihald menntunarinnar heldur einblína á að skera niður menntun til að spara ríkisútgjöld. Rétt er að benda á að árlegur heildarkostnaður á hvern framhaldsskólanema á Íslandi er langt undir meðaltali landa OECD, einnig hlutfall kennaralauna af íslenskri þjóðarframleiðslu á mann miðað við flest önnur ríki OECD. Það er sorglegt til þess að vita að Illugi sem gefur sig út fyrir að hafa mikinn áhuga á menntamálum sem hann kallaði í aðdraganda kosninganna „fjöregg þjóðarinnar“ hafi ekki betra til málanna að leggja en þetta eftir að skorið hefur verið markvisst niður til málflokksins frá því löngu fyrir kreppu og sá niðurskurður nú talinn nema tæpum 12 milljörðum á síðustu fjórum til fimm árum.

***

FF hvetur til árvekni og fagmennsku í skólunum

Á fundum með fulltrúum úr öllum framhaldsskólum landsins sl. vor hvatti stjórn félagsins til aukinnar árvekni gagnvart mögulegum kjarasamningsbrotum og til þess að gera kröfur um fagmennsku og gæði í skólastarfi. Ástæðan er sú að í fjársvelti og vandræðum undanfarinna ára er oft gripið til aðgerða sem eru bæði slæmar fyrir nemendur og nám þeirra og gera störf kennara erfiðari og enn verr launuð en þó eru þó fyrir. Ítrekuð skal nú hér ósk til ykkar allra um að við
...

Segjum stopp við

Yfirfullum námshópum.
• Skertri kennslu miðað við einingafjölda.
• Illa launaðri eða ólaunaðri umsjón með nemendum.
• Ólaunaðri námskrárvinnu.
• Viðbótarverkefnum sem bætt er inn í störf án viðbótarkjara.

***

Útgáfumál FF í vetur

Félag framhaldsskólakennara vill vera í góðu sambandi við félagsmenn sína í vetur og efla enn fremur útgáfu og kynningamál. Ráðgert er að Rauða eplið, rafræna fréttabréfið komi út á þriggja vikna fresti og áfram kemur Vikupósturinn út í hverri viku og Kennari mánaðarins verður á sínum stað. Ný heimasíða KÍ er væntanleg sem vonandi verður lyftistöng fyrir útgáfu og upplýsingagjöf félagsins.

***

Vikupóstsritarar óskast

Til þess að útgáfan verði sem öflugust leitar félagið nú að Vikupóstsriturum fyrir veturinn og biður áhugasama að setja sig í samband við félagið.
Við óskum einnig eftir ábendingum um gott efni fyrir Rauða eplið. Þar gæti t.d verið um að ræða áhugaverð verkefni í skólunum, fræðilegt efni um framhaldsskólana eða erlendar fréttir sem snerta framhaldsskólastigið og starfssystkin okkar erlendis. Áhugasamir snúi sér til félagsins á netfangið anna@ki.is.

***

Uppstillinganefnd

Uppstillingarnefnd félagsins er að taka til starfa en samkvæmt lögum er það sex mánuðum fyrir aðalfund félagsins. Uppstillingarnefndin auglýsir, leitar eftir og leggur fram tillögur um frambjóðendur til formanns og stjórnar félagsins, samninganefndar, formanns skólamálanefndar, fulltrúa í stjórn Vísindasjóðs, í kjörstjórn og uppstillingarnefnd, fulltrúa í stjórn KÍ, skoðunarmenn reikninga og til annarra trúnaðarstarfa sem aðalfundur kýs. Kjörstjórn FF undirbýr og sér um kosningarnar.. Starfsreglur hvorra tveggja nefndanna má finna hér og hér á vef FF.

Aðalfundur
***

Ritstjórar: Anna María Gunnarsdóttir og Elna Katrín Jónsdóttir
Ábyrgðarmaður: Aðalheiður Steingrímsdóttir

facebook
1px