Rauða eplið 8. april 2013 Rýr ráherrasvör FF og FS sendur ráðherrum fjármála og menntamála bréf 21. janúar síðastliðnn. Sjötíu dögum síðar kom svo s

FF-eplamynd

Rauða eplið 8. april 2013

Rýr ráherrasvör

FF og FS sendur ráðherrum fjármála og menntamála bréf 21. janúar síðastliðnn. Sjötíu dögum síðar kom svo svarið og reyndist rýrt í roðinu. Í bréfinu örlar ekki á neinni úrlausn varðandi starfskjör framhaldsskólakennara eða vonda rekstrarstöðu framhaldsskólanna. Þó ráðherrar segi að þeim sé staðan ljós.

Í bréfinu er tilgreint að 400 milljónum verði varið til innleiðingar aðalnámskrár á árinu en ekki tekið fram að sú upphæð er ætluð öllum þremur skólastigunum. Annars staðar hefur komið fram að aðeins milli eitt og tvö hundruð milljónir af þessu fé eru ætlaðar framhaldsskólunum.

Flest bendir því til að ástandið í framhaldsskólunum versni enná næstu mánuðum.

***

Sumarnámskeið njóta forgangs hjá SEF

Í ársbyrjun 2012 átti Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara óráðstöfuðum tæpum 17 milljónum af fjárveitingum fyrri ára og fékk þar að auki tæpar 33 milljónir í framlög vegna ársins 2012. Þess vegna ákvað nefndin að gera sérstakt átak og bjóða upp á aukinn fjölda námskeiða og fyrirlestra fyrir framhaldsskólakennara. Til að mynda tvöfaldaði nefndin vettvangsnámsskeið framhaldsskólakennara skólaárið 2012-2013, jók styrki til skóla og hélt fleiri námskeið en venjulega.

Því miður voru fjárframlög til símenntunar og starfsþróunnar framhaldsskólakennara ekki aukin árið 2013 og því neyddist nefndin aftur til að draga saman. Á fyrsta fundi nefndarinnar í ár var ákveðið að láta sumarnámskeið faggreinafélaga njóta forgangs á árinu. Því verður ekki um neina aðra styrki að ræða fyrr en ljóst er hver kostnaður við það vettvangsnám sem hófst haustið 2012 er og hversu mörg sumarnámskeið verða haldin.

Frá stofnun nefndarinnar hefur hún haft þjónustusamning við Endurmenntun Háskóla Íslands. Haustið 2012 ákvað menntmálaráðuneytið að endurnýja ekki þann þjónustusamning heldur semja við Rannís um þjónustu við nefndina. Þetta var liður í þeirri vinnu ráðuneytisins að koma umsýslu við alla sjóði ráðuneytisins á einn stað.Sigrún Ólafsdóttir er sá starfsmaður Rannís sem vinnur fyrir nefndina.

***

Fulltrúafundur FF 2013 er 12. apríl

Samkvæmt 10. grein laga FF eru fulltrúafundir haldnir þau ár sem ekki eru haldnir aðalfundir. Fundinn sitja formenn félagsdeilda, stjórn, samninganefnd og skólamálanefnd félagsins. Vegna lögbundinna viðfangsefna eru boðaðir fulltrúar FF í stjórn Vísindasjóðs FF/FS, kjörstjórn og uppstillingarnefnd. Fyrir hádegi verður gefin skýrsla um starfsemi félagsins og félagsdeilda, fjallað um fjárhagsstöðu félagsins og Vísindasjóðs, ákveðnar reglur um störf kjörstjórnar og framkvæmd atkvæðagreiðslu til stjórnarkjörs 2014 og kosinn einn fulltrúi í uppstillingarnefnd. Hanna Björg Vilhjálmsdóttir formaður nefndar um stöðu FF innan KÍ kynnir skýrslu nefndarinnar. Eftir hádegi er málstofa á dagskrá um kjaramál, samninga og stöðu framhaldsskólans.

Borist hafa tvö framboð til setu í uppstillingarnefndinni, Halldís Ármannsdóttir FB og Hjálmar Þ. Baldursson BHS. Kosningar á fundinum eru samkvæmt venjulegum fundarsköpum sem kjörstjórn stýrir.

***

Ársfundur KÍ 2013 er 19. apríl

Stjórn KÍ boðar til ársfunda þau ár sem þing er ekki haldið, samkvæmt 22. grein laga KÍ. Á ársfundi eiga seturétt stjórn KÍ, stjórnir-, skólamála- og samninganefndir aðildarfélaga KÍ, formenn þingkjörinna nefnda og nefnda sem starfa samkvæmt ákvörðun þings, þingkjörnir skoðunarmenn reikninga KÍ og aðrir sem stjórn KÍ ákveður hverju sinni.

Fyrir hádegi fara fram lögbundin viðfangsefni, lagðir fram endurskoðaðir reikningar KÍ, gefin skýrsla um starfsemi sambandsins og þingkjörinna nefnda, fjallað verður um húsnæðismál KÍ og lífeyrismál félagsmanna. Eftir hádegi verður fjallað um næstu kjarasamninga, könnun meðal trúnaðarmanna og mat á skólastarfi.

***

Ritstjórar: Anna María Gunnarsdóttir og Elna Katrín Jónsdóttir
Ábyrgðarmaður: Aðalheiður Steingrímsdóttir

facebook
1px