Rauða eplið maí 2013 Heilir og sælir kæru félagsmenn FF. Í Rauða eplinu er að þessu sinni fjallað um helstu atriði í starfsemi félagsins að undanför

FF-eplamynd

Rauða eplið maí 2013

***

Heilir og sælir kæru félagsmenn FF.
Í Rauða eplinu er að þessu sinni fjallað um helstu atriði í starfsemi félagsins að undanförnu.

Kjaramoli frá hagfræðingi KÍ
Fulltrúafundur 2013
FF hafnar þátttöku í starfshópi menntamálaráðuneytis um vinnumat
Úttekt á stofnanasamningum framhaldsskóla
Tillögur verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld
Lög á verkbannið í Danmörku og áhrif þess á vinnutíma kennara
Greiðslur til félagsdeilda
Heimasíða og Fasbókarsíða félagsins

***

Molinn

Meðal dagvinnulaun í ríkisreknum framhaldsskólum (FF+FS) voru 377 þús. kr. árið 2012 en voru 418 þús.kr. árið 2006 (á verðlagi ársins 2012 m.v. VNV).

Þetta er 9,7% lækkun á raunvirði launanna. Sambærileg lækkun á raunvirði reglulegra launa sérfræðinga á almennum markaði er 4,6%.

***

Fulltrúafundur 2013

Fulltrúafundir eru haldnir árlega milli aðalfunda FF. Þann tólfta apríl síðastliðinn mættu sextíu fulltrúar félagsins til fulltrúafundar, fengust við lögbundin viðfangsefni fyrir hádegi og tóku þátt í málstofu um kjaramál og stöðu framhaldsskólans eftir hádegi.

Fjallað var meðal annars um starfsemina og fjárhagsstöðu félagsins og Vísindasjóðs FF/FS og áfangaskýrsla nefndar um stöðu félagsins innan KÍ var flutt.

Erindi í málstofu fluttu Ingibjörg Guðmundsdóttir skólameistari Kvennaskólans sem ræddi um niðurskurð og fjármál framhaldsskóla, Oddur S. Jakobsson hagfræðingur KÍ, sem fjallaði um laun og launaþróun í framhaldsskólum, Guðmundur H. Guðmundsson starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis sem ræddi um kjarasamninga ríkisstarfsmanna, Ólafur H. Sigurjónsson formaður FS sem talaði um sjónarmið stjórnenda um samningamál og Aðalheiður Steingrímsdóttir formaður FF um aðgerðir og aðferðir í kjarabaráttu. Fundurinn sendi frá sér ályktanir um kjaramál félagsmanna í framhaldsskólum, símenntun og starfsþróun, samskipti stjórna FF og FS og stjórnar Vísindasjóðs FF/FS og áskorun til fjölmiðla og stjórnmálamanna um að setja menntamál í kastljósið. Fundargögnin eru á heimasíðu félagsins.

 
 
***

FF hafnar þátttöku í starfshópi menntamálaráðuneytis um vinnumat
Fyrir nokkru óskaði menntamálaráðuneytið eftir þátttöku félagsins í óformlegum starfshópi ráðuneytis og skólameistara til að þróa áfram hugmyndir um breytingar á vinnumati kennara. Félagið hafnaði þátttökunni og rökstuddi þá ákvörðun m.a. með tilvísun til þess að verksvið og umboð væri óljóst og ekki gert ráð fyrir þátttöku hins samningsaðilans sem er fjármálaráðuneyti. Ennfremur benti FF á að ársgömul skýrsla starfshóps menntamálaráðherra frá sumri 2012 sem samningsaðilar, menntamálaráðuneytið og skólastjórnendur unnu saman að hefði enn ekki verið nýtt til stefnumótunar. Loks bendir FF á að samningagerð sl. haust sem byggja átti á vinnu starfshópsins að verulegu leyti hófst allt of seint og gekk illa meðal annars vegna þess að ekki voru tryggðir fjármunir í samræmi við verkefnið. Sjá bæði bréfin hér.

 
***

Úttekt á stofnanasamningum framhaldsskóla
Rösk 10 ár eru síðan dreifstýrðir kjarasamningar voru teknir upp í framhaldsskólum. Fyrra skrefið var tekið í samningum við ríkið árið 2001, með stofnun samstarfsnefnda í skólunum sem gerðu samkomulög um mat á kennslu og kennslutengdum störfum. Síðara skrefið var tekið í kjarasamningum árið 2005 og grunnröðun starfa útfærð í stofnanasamningum. Í vetur hefur félagið skoðað kjörin í dreifstýrðu kerfi.

Úttektir voru gerðar á almennum og sambærilegum þáttum í grunnröðun kennarastarfsins í samningum skólanna og á viðbótarstörfum sem margir kennarar gegna samhliða kennslu svo sem fagstjórn og umsjón með nemendum. Úttektir sýna talsverðan mun á því hvernig menntun og reynsla er metin milli skóla.

Einnig er greinilegt að mikið bakslag hefur orðið í greiðslum fyrir viðbótarstörf miðað við fyrri kjarasamninga. Stofnasamningarnir hafa þannig verið notaðir sem farvegur fyrir niðurskurð í skólunum.

Á eftirfarandi myndum hagfræðings KÍ eru tekin dæmi um launaröðun miðað við BA/BS próf MA/MS próf og kennsluréttindi án starfsreynslu og miðað við 15 ára reynslu. Eins og sjá má leiðir mismunandi launaröðun starfa í stofnasamningi til um 20% launamunar milli skóla. Myndirnar má sjá stærri hér.

***

Tillögur verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld
Sýnin á menntakerfið í tillögunum er út frá mælikvörðum um skilvirkni og afköst og litið á skólastarf eins og hverja aðra færibandabandaframleiðslu í verksmiðju. Með því að láta kennara kenna meira og stytta námstíma verði afleiðingin minna brottfall og hærra menntunarstig á vinnumarkaði. Algerlega er horft fram hjá gæðum menntunar og skólastarfs og áherslum skólastigalaga 2008 um að nemendur geti hraðað sér í námi. Tölfræði um brottfall, námstíma, menntunarstig og fleira hér á landi og annars staðar byggir á samanburði á eplum og appelsínum. Svona hugmyndir um vöruvæðingu menntunar komu fyrst fram hér hjá spekingum Verslunarráðsins fyrir um 20 árum og var þeim ýtt til hliðar í samningu laganna 2008. Víða um lönd er hart gengið að skólum með kröfum um meiri skilvirkni og afköst og eru nýlegir atburðir í Danmörku dæmi um slíkt. Ýmis teikn eru á lofti um að meiri þungi gæti færst í umræðu af þessu tagi hér á landi.

***

Lög á verkbannið í Danmörku og áhrif á vinnutíma kennara
Danska ríkisstjórnin greip inn í verkbann sveitarfélaga á grunnskólakennara með lagasetningu nú í apríl og kippti með því öllum vinnutímaákvæðum úr sambandi. Í því felst skerðing á undirbúningstíma og fjölgun kennslustunda. Þannig ætla dönsk yfirvöld að greiða að hluta fyrir breytingar á lögum um grunnskóla.

Eftir á má vera ljóst að atburðarásin var að miklu leyti hönnuð fyrir fram af ríki og sveitarfélögum og aldrei stóð til að semja við kennara. Hamrað var á OECD tölum um vinnutíma og að kennarar væru andsnúnir öllum breytingum og þróun í skólastarfi.

Í samningaviðræðum við heildarsamtök háskólamenntaðra starfsmanna sem framhaldsskólakennarar (GL) eru hluti af, náði ríkið í gegn sömu breytingum á vinnutíma og gert var í lagasetningunni um grunnskólann, en þó ekki skerðingu á undirbúningstíma og fjölgun kennsludaga. Breytingar voru felldar í atkvæðagreiðslu félagsmanna GL en samþykktar hjá heildarsamtökunum samanlagt. Lesa má um breytingarnar (OK13) á heimasíðu GL.

 
 
***

Greiðslur til félagsdeilda
Á næstu dögum verða greidd út fjárframlög til félagsdeilda vegna trúnaðarmanna og samstarfsnefnda. Formenn félagsdeilda eru beðnir að fylgjast með þegar skilagrein kemur í tölvupósti og sjá til þess að greiða þóknanir. Formönnum og trúnaðarmönnum er þökkuð góð samvinna í vetur.

***

Heimasíða og Fasbókarsíða félagsins
Félagið hvetur kennara til að skoða reglulega heimasíðuna, fréttir og þær nýjunugar sem þar hefur verið bryddað upp á; Kennara mánaðarins og Vikupóstinn og einnig til að fylgjast með Fasbókarsíðu félagsins.

Ritstjórar: Anna María Gunnarsdóttir og Elna Katrín Jónsdóttir
Ábyrgðarmaður: Aðalheiður Steingrímsdóttir

facebook
1px