Haust ÞyturFréttabréf Þelamerkurskóla 1/2013 Smelltu hér ef þú sérð ekki fréttabréfið með myndum þess Smelltu svo hér ef þú vilt skoða heimasíðu Þe

Haust Þytur

Fréttabréf Þelamerkurskóla 1/2013

***

Þytur endurvakinn

Fyrir allnokkru var til fréttabréfið Þytur sem skólinn sendi heim á alla bæi í sveitarfélaginu. Í haust fannst skólastjórnendum kominn tími til að endurlífga þetta fréttabréf.

Endurlífgunin felur í sér að nú verður Þytur rafrænn og sendur heim til foreldra nemenda í tölvupósti í gegnum Mentor. Einnig verður hægt að nálgast hann á heimasíðu skólans og heimasíðu Hörgársveitar. Til viðbótar verður Þyti dreift á Facebook síðu skólans og Twitter-svæði hans.

Í ár er áformað að Þytur komi út fjórum sinnum, tvisvar á hvorri önn. Honum er ætlað að flytja fréttir af skólastarfinu, bæði það sem hefur gerst og einnig að segja frá viðburðum sem eru á döfinni.

Útgáfa Þyts á að auka upplýsinga- og fréttaflæði frá skólanum.

***

Vinaliðaverkefnið í Þelamerkurskóla

Í haust var byrjað á innleiðingu verkefnis sem kallast Vinaliðaverkefnið. Í stórum dráttum gengur það út á að auka fjölbreytni leikja í frímínútum. Vinaliðum úr hópi nemenda er ætlað að sjá um skipulag og stjórnun leikjanna. Nemendur velja vinaliðana úr eigin röðum tvisar sinnum á ári.

Vinaliðar fá kennslu og þjálfun á leikjanámskeiðum sem Vinaliðaverkefnið stendur fyrir. Á þessum námskeiðum er farið í ýmsa vinsæla leiki og vinaliðarnir fá ráð um hvernig þeir geta verið leiðtogar í leikjastarfinu. Einnig fá þeir fyrirlestra um hvernig þeir geta hvatt aðra nemendur til þátttöku, verið vinalegir og fullir virðingar.

Vinaliðaverkefnið er góð viðbót við áætlun skólans gegn einelti og einnig á hann vel við einkunnarorð hans þroski, menntun, samkennd.

Á myndinni hér fyrir ofan eru fyrstu vinaliðar Þelamerkurskóla: Elís Freyr, Anna Ágústa, Máni Freyr, Sunneva, Hildur Helga, Benedikt Sölvi, Eyrún Lilja og Kara Hildur. Hulda Arnsteinsdóttir er verkefnisstjóri vinaliðanna.

Það er óhætt að segja að verkefnið gangi vel. Oftar en ekki er það þannig í frímínútum að meira en helmingur nemenda er virkur í leikjum hjá vinaliðunum. Því er hægt að fullyrða að strax hafi þetta verkefni náð markmiði sínu.

Og til að auka áhrif verkefnisins enn meira fer starfsfólk skólans einnig á leikjanámskeið. Það verður haldið í íþróttahúsinu á Þelamörk miðvikudaginn 30. október n.k.

***

Dagur gegn einelti

Dagurinn 8. nóvember er helgaður baráttunni gegn einelti í samfélaginu. Markmiðið með honum er að vekja sérstaka athygli á málefninu og hversu alvarlegt einelti er. Í tilefni dagsins munu bjöllur, klukkur og skipsflautur óma í sjö mínútur um allt land frá kl. 13:00-13:07, ein mínúta er fyrir hvern dag vikunnar án eineltis.

Í tilefni dagsins ætlum við í skólanum að hafa skólavinastund rétt fyrir hádegi. Þá hittast skólavinirnir og gera eitthvað sem treystir vinaböndin. Klukkan 13:00 þennan dag safnast allir saman í íþróttahúsinu. Þar byrjar samkoman á því að allir sem þar eru hringja bjöllum sjö sinnum og svo dansa allir skólaliðadansinn saman áður en hver og einn heldur til sinna starfa.

Þennan dag eru nemendur beðnir um að hafa litla bjöllu með sér í skólann svo þeir geti hringt bjöllum gegn einelti í íþróttahúsinu.

Höldum saman gegn einelti!

***

Spjaldtölvur í námi og kennslu

Í haust eignaðist skólinn 15 spjaldtölvur. Það var kvenfélagið Gleym mér ei sem gaf skólanum höfðinglega peningagjöf svo mögulegt var að kaupa spjaldtölvurnar. Fyrir það erum við sem störfum í skólanum afar þakklát.

Kennararnir hafa nýtt tölvunar vel með nemendum og eru þær í notkun nánast í hverri kennslustund.

Til að auka færni kennara í notkun spjaldtölvanna var boðið upp á námskeið frá TMF hér í skólanum í síðustu viku. Þar lærðu kennarar grunnatriði spjaldtölvunotkunar og einnig að möguleikum þessara tækja í námi og kennslu eru nánast engin takmörk sett. Þess vegna er áformað að kennarar hittist reglulega til að bera saman bækur sínar og til að læra hver af öðrum.

Helsta markmiðið með notkun spjaldtölva í námi og kennslu er að auka fjölbreytni í kennsluháttum innan skólans. Þannig tekst kennurum betur en áður að laga námið að þörfum og áhuga nemenda.

***

Samstarf heimila og skóla

Foreldrafélag Þelamerkurskóla hélt aðalfund sinn þann 22. október sl. og ný stjórn var kosin.

Núverandi stjórn skipa: Jóhanna Oddsdóttir Dagverðareyri, Vaka Sigurðardóttir líka á Dagverðareyri, Jón Þór Benediktsson Ytri Bakka, Gunnlaug Ósk Sigurðardóttir Þelamerkurskóla og Eva María Ólafsdóttir Lönguhlíð. Þegar þetta er skrifað hefur stjórn ekki komið saman til að skipta með sér verkum.

Á foreldrafundi þann 1. okt. sl. voru til viðbótar valdir tengiliðir hvers árgangs. Þeir eiga að vera tengiliðir árganganna við stjórn foreldrafélagsins, við skólann og aðra foreldra innan hvers árgangs. Á þeim sama fundi ræddu foreldrar saman um hvort og hvað væri hægt að gera til að auka samstarfið enn frekar en nú og gæði þess.

Á næstu dögum munu ný stjórn, tengiliðirnir og skólastjórnendur hittast til að gera hugmyndirnar sem komu fram í umræðum foreldra að verkefnum sem hægt er að hrinda í framkvæmd.

***

Þelamerkurskóli 50 ára

Á þessu starfsári verður skólinn 50 ára. Á sama tíma heldur Tónlistarskóli Eyjafjarðar upp á 25 ára afmæli sitt. Þann 20. nóvember höldum við upp á afmæli skólanna hér í Þelamerkurskóla. Þá verður boðið upp á afmælisdagskrá í skólanum frá kl. 10-18. Þennan dag geta gestir og gangandi:

kynnt sér útiskólann,
leikið sér undir stjórn vinaliðanna,
hlustað á skólakórinn syngja skólasönginn undir nýju lagi,
fengið sér hressingu á Café Þeló,
hlustað á upplestur og tónlistaratriði
kíkt í kennslustund og tónlistartíma,
skoðað rafræna afmælisútgáfu Glaðnings
og margt fleira.

Undirbúningur er í fullum gangi og hafa smiðjur og val nemenda tekið mið af þessum viðburði. Þess vegna eru allir hvattir til að líta á afmælisbörnin þann 20. nóvember og njóta þess sem nemendur hafa undirbúið.

***

Hafið það ávallt sem allra best og verið velkomin í afmælið 20. nóvember n.k.

Ingileif og Unnar

facebook instagram twitter
1px