Rauða eplið 6. tbl. júní 2013 Heilir og sælir kæru félagsmenn FF Í síðasta Rauða eplinu fyrir sumarleyfi er fjallað um helstu atriði í starfsemi fél

FF-eplamynd

Rauða eplið 6. tbl. júní 2013

Heilir og sælir kæru félagsmenn FF
Í síðasta Rauða eplinu fyrir sumarleyfi er fjallað um helstu atriði í starfsemi félagsins að undanförnu og skólamálaumræðuna sem hefur verið áberandi upp á síðkastið.

Efni:

Kjaramoli frá hagfræðingi KÍ
Aðför að SEF
Aukin hagsæld í skólamálum?
Sleggjudómar um brottfall
Framhaldsskólanám á Íslandi er ekki gjaldfrítt
Breytingar á vinnutíma kennara í dönskum framhaldsskólum
Þátttaka framhaldsskólakennara í Talis
Um kynningarátak FF

Molinn

***

FF mótmælir fyrirhuguðum breytingum á starfsemi SEF

FF hefur mótmælt harðlega fyrirhuguðum breytingum sem menntamálaráðuneyti hefur boðað á starfsemi SEF, Samstarfsnefndar um endurmenntun framhaldsskólakennara. Á síðasta fundi nefndarinnar þann 19. mars síðastliðinn voru stjórn SEF boðaðar breytingar á starfsemi nefndarinna, einföldun á umsvifum, sameining og fækkun styrkjaflokka og tilkynnt að í framtíðinni ætti SEF að vera ráðgefandi í stað þess að vera stefnumótandi eins og verið hefur frá stofnun nefndarinnar árið 1987.

FF telur að með þessum breytingum sé dregið úr áhrifum kennara og skólastjórnenda í framhaldsskólum og samtaka þeirra á símenntun sem er þvert á ríkjandi stefnu og álit sérfræðinga um mikilvægi þess að fagstéttir eigi beina aðild að símenntun sinni.

Slíkar aðgerðir væru mjög í andstöðu við félagsmenn KÍ í framhaldsskólum. Félag framhaldsskólakennara sendi menntamálaráðherra mótmæli og skoraði á hann að hætta við breytingarnar. Rétt er að rifja upp að í sama streng tók fulltrúafundur Félags framhaldsskólakennara þann 12. apríl síðastliðinn. Hér má sjá bréfið til ráðherra í heild og hér má sjá ályktun fulltrúafundarins.

***

Aukin hagsæld í skólamálum?

Kennarasamband Íslands hefur ýmislegt að athuga við fullyrðingar sem Samráðsvettvangur um aukna hagsæld sem starfar á vegum forsætisráðuneytisins hefur sett fram um skólastarf á Íslandi. Áður en lengra er haldið skal tekið fram að KÍ var ekki boðin þátttaka í samráðsvettvangnum og þurfti sambandið að leita sérstaklega eftir fundi með forsvarsmönnum verkefnisins til þess að fá upplýsingar frá fyrstu hendi og koma sjónarmiðum kennara og samtaka þeirra um skóla- og menntamál á framfæri.

Af mörgu er að taka í efni samráðsvettvangsins um skóla- og menntamál en hér verður sjónum einkum beint að fullyrðingum sem snúa að framhaldsskólanum og varða fjárframlög til menntunar, útgjöld skólastiganna, framleiðni í kennarastarfinu og í skólastarfi og útskriftaraldur.

Vegna umræðu um há fjárframlög til menntamála og meintra neikvæðra tengsla þeirra við frammistöðu og menntun bendir KÍ, auk þekktra ástæðna svo sem strjálbýlis og hás hlutfalls 5-19 ára af íbúafjölda miðað við samanburðarlönd, á atriði sem eru beinlínis villandi þegar kemur að mati á framhaldsskólunum. Nánar tiltekið eru framlög til hvers framhaldsskólanemanda mjög lág í alþjóðlegum samanburði. Tenging samráðsvettvangsins á fjárframlögum við brotthvarf úr námi í framhaldsskólum og við spurningar um framleiðni í skólastarfi verður þannig afar hæpin hvað varðar framhaldsskólann. Nær væri að álykta með skýrsluhöfundum OECD skýrslu um aðgerðir til að draga úr brotthvarfi úr námi á Íslandi Towards a strategy to prevent dropout in Iceland, January 2012 að Ísland þurfi að tryggja fjármagn til þess að koma í framkvæmd umbótum sem menntastefna og lög frá árinu 2008 fela í sér og snerta nám, námsumhverfi og námsframboð sem líklegt megi telja að dragi úr brotthvarfi úr námi.

Annað atriði í efni samráðsvettvangsins sem verður að telja villandi er að í efninu er kostnaður greindur eftir primary (fyrir 1-7. bekk grunnskóla) og secondary (fyrir framhaldsskóla og 3 efstu bekki grunnskóla). Sá kostnaðarsamanburður verður því markleysa fyrir íslenskan framhaldsskóla.

En víkjum þá umræðunni að sýn samráðsvettvangsins á skipulag framhaldsskóla, námstíma og útskriftaraldur. Klisjan þar er þessi: Í útlöndum verða allir stúdentar 18 ára en á Íslandi 20 ára. Staðreyndir í málinu eru m.a. þessar: Í áratugi hefur sá möguleikir verið í boði í framhaldsskólum með áfangakerfi að nemendur ljúki námi á 3 árum eða þremur og hálfu í stað fjögurra skólaára. Eftir framhaldsskólalögin frá 2008 binda aðeins fáir framhaldsskólar námstímann við fjögur ár. Formleg lengd náms í framhaldsskóla til stúdentsprófs var skv. heimild frá 2002 (Skýrsla verkefnisstjórnar um styttingu námstíma til stúdentsprófs, menntamálaráðuneytið, desember 2002 ), 2747 klst. í Danmörku en 2702 á Íslandi – reyndar 2150 klst. í Svíþjóð og algengasti aldur við lok stúdentsprófs skv. sömu heimild var 20 ár bæði í Danmörku og á Íslandi en 19 ár í Svíþjóð. Hér skal auk þess bent á þá staðreynd að skólaárið í dönskum framhaldsskólum er frá miðjum ágúst til 28. júní ár hvert en á Íslandi er það 9 mánuðir eða t.d. 22. ágúst -21. maí. Lenging skólaárs í framhaldsskólum hér hefur hvorki fengið undirtektir samfélagsins né hafa stjórnvöld á hverjum tíma horfst í augu við kostnaðarauka sem af því hlytist a.m.k. tímabundið. Þessi mál er semsagt ekki hægt að afgreiða með því að slengja fram ofureinfölduðum fullyrðingum sem standast ekki skoðun.

Síðast en ekki síst vekur athygli hugmyndafræði samráðsvettvangsins um aukna framleiðni í skólastarfinu og í störfum kennara. Það skal gera með því að kennarar kenni fleiri kennslustundir og kenni fjölmennari námshópum og kosti þannig sjálfir ,,launahækkanir“ sínar. Ekkert er rætt um einingaverð eða óþarfa á borð við tíma til undirbúnings og samráðs og liggur svona í orðunum að slíkt sé annaðhvort allt of mikið hvort sem er eða óþarft. Svo er náttúrulega aðalherbragðið en það er að fækka námsárum nemenda. Þetta og fleira úr málflutningi samráðsvettvangsins dregur Atli Harðarson saman með svofelldum hætti:

,,Við gætum semsagt ,,hækkað menntunarstig“ upp undir OECD meðaltalið með því einu að kenna stúdentsefnum fjórðungi minna en við gerum. Við gætum komist talsvert yfir það með því að kalla tíunda bekk grunnskóla fyrsta bekk framhaldsskóla og stytta stúdentsnámið um tvö ár. Gætum kannski náð ,,hæsta menntunarstigi í heimi“ með því einu að læra minna en við gerum.

Greinina Atla í heild má lesa hér.

Þó aðeins sé gripið niður í efni samráðsvettvangsins á nokkrum stöðum hér að framan má lesa út úr því að sterk öfl í þjóðfélaginu hafa nú enn á ný hrint af stað umræðu um menntun sem verslunarvöru og mæla ákaft fyrir því að skólastarf og menntun sé vegin og mæld á sömu mælikvarða og tíðkast í verslun og viðskiptum. Einfölduðum og oft villandi fullyrðingum er slegið fram um skólastarf, störf kennara og menntun í landinu, en þess vandlega gætt að hafa kennara og samtök þeirra hvergi nærri í stefnumótunarvinnunni enda vísast talið tómt vesen.

***

Sleggjudómar um brottfall

Umræða um brottfall úr íslenskum framhaldsskólum hefur verið mikil undanfarnar vikur. Því miður hefur sú umræða litast af fordómum og þekkingarleysi á þessu flókna fyrirbæri og lítil tilraun verið gerð til umræðna á faglegum nótum.
Upphafið að þessum umræðum má rekja til tillagna „verkefnisstjórnar samráðsvettvangs um aukna hagsæld“. Einn hluti þeirra tillagna fjallaði um hvernig auka mætti skilvirkni menntakerfisins. Í fyrirsögn að glæru nr. 202 er fullyrt að langur námstími og endurtekning í nám valdi háu brottfalli. Á glærunni sjálfri kemur ekkert fram sem styður fullyrðinguna. Þar segir að 60% þeirra sem falli úr framhaldsskóla geri það að loknu þriðja námsári. Endurtekning í námi hefur hins vegar verið mest í upphafi náms í framhaldsskólum þannig að þessi staðhæfing fellur um sjálfa sig.
Fullyrðingar um að endurtekning í námi og langur námstími valdi brottfalli styðjast ekki við nein haldbær rök. Brottfall úr framhaldsskólum hefur lítið verið rannsakað á Íslandi og ekki út frá þessum forsendum. Hluti þess sem talið er brottfall á sér aðrar skýringar. Þannig teljast bæði nemendur sem hafa ekki náð tilskildum námsárangri og þeir sem flytja sig milli skóla brottfallsnemendur í íslenska skólakerfinu en myndu ekki teljast með brottfallsnemendum í öðrum OECD löndum. Atriði sem margoft hefur einnig verið bent á er að nemendur sem ljúka tveggja ára námi í framhaldsskóla teljast með brottfallsnemendum öfugt við samanburðarlöndin. Eins má nefna að allir íslenskir nemendur sem þess óska komast inn í íslenska framhaldsskóla en víða í nágrannalöndunum þurfa nemendur lágmarksárangur til að komast inn í framhaldsskóla.
Mikil þörf er á að gera vandaða rannsókn á brottfalli úr íslenska framhaldsskólakerfinu þar sem áhrif t.d. heimilisaðstæðna, námsgetu, skólagerðar, tegundar náms og aldurs á brottfall verða könnuð. Á vef danska menntamálaráðuneytisins má finna stóra sundurgreinanlega athugun á brottfalli úr framhaldsskólum í Danmörku. Þar kemur í ljós að orsakir brottfalls eru mjög flóknar og ástæður oft á tíðum margar samverkandi. Rannsóknina má nálgast hér.

Brottfall nemenda úr framhaldsskólum er þjóðfélagslegt vandamál sem á sér væntanlega margþættar flóknar skýringar. Það er lokapunktur í löngu ferli en ekki rót vandans. Til þess að ná böndum á brottfall þarf víðtæka samstöðu bæði í þjóðfélaginu og milli ráðuneyta og lausn finnst ekki meðan hver bendir á annan í leit að sökudólgum.

***

Framhaldsskólanám á Íslandi er ekki gjaldfrítt

Íslensk menntayfirvöld láta gjarnan að því liggja að framhaldsskólanám á Íslandi sé gjaldfrítt og nemendum að kostnaðarlausu. Svo er ekki. Í framhaldsskólalögum 2008 eru nokkur ákvæði um útgjöld nemenda.

Íslenskum framhaldsskólum er heimilt að innheimta skráningargjöld, efnisgjöld og gjöld fyrir hluta af kennslu utan hefðbundins skólatíma, svo sem fyrir fjar- og dreifnám, nám í kvöldskóla, síðdegisnám og sumarnám. Við lagasetninguna 2008 voru bundnar vonir við að stíga ætti skref í þá átt að nám í framhaldsskólum yrði nemendum raunverulega að kostnaðarlausu og finna má í lögunum ýmsar vísbendingar þar um. Í lögunum segir að fjárlög hvers árs tilgreini upphæð til að mæta kostnaði nemenda vegna kaupa á námsgögnum en þessu ákvæði hefur enn ekki verið hrint í framkvæmd.
Nemendur á Íslandi búa við mun meiri gjaldtöku en framhaldsskólanemendur á hinum Norðurlöndunum. Líkt og á Íslandi er réttur til skólagöngu lögbundinn. Aðeins mismunandi er til hvaða aldurs sá réttur nær. Á Íslandi er hann til 18 ára, 20 ára í Svíþjóð, 19 ára í Danmörku og Noregi en til 17 ára í Finnlandi.

Á hinum Norðurlöndunum er skólaganga nemenda í framhaldsskólum gjaldfrjáls en í Finnlandi er framhaldsmenntun einungis ókeypis ef nemendur ljúka námi og ráðuneytið getur veitt skólum undanþágu til skólagjalda. Eins eiga nemendur í Svíþjóð, Danmörku og Noregi rétt á að fá námsefni bæði rafrænt og stafrænt án endurgjalds þó með einhverjum takmörkunum í Finnlandi þar sem framhaldsskólamenntun er einungis gjaldfrjáls, ljúki nemendur námi.

Á öllum Norðurlöndum, að Íslandi undanskildu, eiga nemendur rétt á einhverjum námsstyrkjum. Námsstyrkirnir eru yfirleitt tekjutengdir og tengdir tekjum foreldra og heimilisaðstæðum allt til 20 ára aldurs nemenda.

Nemendur í Svíþjóð eldri en 17 ára fá sem svarar um 19.500 ISK á mánuði (1050 SEK) í námsstyrki. Eins er því farið í Noregi en þar fá nemendur eldri en 16 ára um 19.000-61.000 ISK í skólastyrki (930- 2.970 NOK) í skólastyrki. Í Danmörku fá nemendur eldri en 18 ára sem svarar 27.500-124.000 ISK (1.274-5.735) í skólastyrki á mánuði. Í Finnlandi fá allir framhaldsskólanemendur sem svarar 3200-6000 ISK á mánuði (20-38 EUR) auk þess sem þeir geta fengið um 9000 ISK (54 EUR) endurgreiddar vegna ferðakostnaðar mánaðarlega. Þar við bætist að finnskir framhaldsskólanemendur fá fría máltíð í skólanum séu þeir í fullu námi.

Af þessu ætti að vera ljóst að því fer víðs fjarri að framhaldsskólanám sé gjaldfrítt á Íslandi og að kostnaður nemenda og foreldra þeirra er verulegur. Í nýlegri stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er lögð rík áhersla á að efla menntakerfið með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Í ljósi þess, sem her kemur fram, er einsýnt að nýr menntamálaráðherra hefur verk að vinna ef standa á við þá stefnu í framhaldsskólalögunum að bæta hag nemenda.

***

Þátttaka framhaldsskólakennara í Talis

Nú í vor bauðst framhaldsskólakennurum í fyrsta skipti að taka þátt í Talis rannsókninni sem er alþjóðleg rannsókn OECD á kennsluháttum og viðhorfum kennara, starfsþróun og endurgjöf. Könnunin hefur áður verið lögð fyrir alla kennara á unglingastigi en var nú líka lögð fyrir alla kennara á framhaldsskólastigi í fyrsta sinn í rúmlega 30 þátttökulöndum. Þátttakan var nægileg til að gögn væru metin samanburðarhæf í alþjóðlega gagnasafninu en 78% framhaldsskólakennara tóku þátt. Niðurstöður verða væntanlega kynntar í upphafi árs 2014.

***

Breytingar í framhaldsskólum í Danmörku

Í síðasta Rauða epli var sagt frá breytingum á vinnutíma danskra framhaldsskólakennara sem taka gildi í haust en þá verða skólarnir skyldaðir til að taka upp svokallað stimpilklukkukerfi til að tímaskrá raunvinnutíma framhaldsskólakennara. Í nýjasta tölublaði af Gymnasieskolen sem nálgast má hér er fjallað ýtarlega um breytingarnar sem verða í kjölfar þessa í framhaldsskólum í Danmörku í haust.

Þá verða gerðar breytingar í mörgum skólum og kennarar eiga að dvelja þar á dagvinnutíma eða frá kl. 8.00-16.00. Í öðrum skólum ætla skólameistarar að fara sér hægar og bíða með breytingar þar til vinnuaðstaða kennara verður ásættanleg.

Kennurum sýnist sitt hvað um þessar breytingar. Einhverjir sjá fyrir sér betri tíð þar sem vinnan hætti að flæða inn í frítímannn og heimilið muni ekki lengur líta út sem útibú úr skólanum. Þeir sjá einnig fyrir sér að auðveldara verði með allt samstarf og samráð.
Þeir eru þó fleiri sem lýsa yfir áhyggjum sínum og kvíða fyrir breytingunum og segja að einn meginkostur kennarastarfsins, sveigjanleikinn verði nú úr sögunni. Flestir hafa áhyggjur yfir vinnuaðstöðu, að fá ekki næði við yfirferð og undibúning og því að í vinnuherbergjum kennara verði fyrst og fremst gert ráð fyrir því að þeir sinni sameiginlegum verkefnum og fundahöldum en ekki undirbúningi og yfirferð flókinna verkefna. Undir þetta taka skólastjórnendur sem segja að nú þurfi að hugsa allt vinnurými í skólunum upp á nýtt. Við hönnun skólahúsnæðis hafi hingað til fyrst og fremst verið hugsað um vinnurými nemenda en nú bætist við fjölmargir þættir sem taka þurfi tillit til.

***
rauða eplið

Kynningarátak FF
Félagið setti á stefnuskrá sína á aðalfundi FF 2011 að efla kynningarstarf á kennarastarfinu og starfi framhaldsskóla. Kynninganefnd var í framhaldi af því skipuð í nóvember 2012. Í henni sitja Elna Katrín Jónsdóttir, Hrafnkell Tumi Kolbeinsson, Ármann Halldórsson og Anna María Gunnarsdóttir.

Nefndin endurnýjaði fréttabréfið og til varð Rauða eplið. Heimasíða félagsis var endurskoðuð og settir inn fastir þættir eins og „Kennara mánaðarins“ og „Vikupóstinn“ en í báðum tilvikum var leitað til félagsmanna vítt og breitt um landið. Fljótlega kom í ljós að félagsmenn FF höfðu margt til málanna að leggja og eru vel ritfærir. Nítján kennarar skrifuðu „Vikupóst“ fyrir FF og settu fram skoðanir sínar á kennarastarfinu, kjara- og skólamálum. Fjórir framhaldsskólakennarar tóku að sér að vera „Kennari mánaðarins“ og gáfu innsýn í starf sitt og viðhorf sín til náms og kennslu í stuttum myndböndum sem Halldór Árni Sveinsson framhaldsskólakennari í Flensborg á veg og vanda að.

Viðtökurnar hafa verið mjög góðar. Vikupóstarnir hafa verið lesnir frá 300-1200 skiptum hver. Eins hefur áhorf á „Kennara mánaðarins“ verið mjög gott. Á fyrsta þáttinn hefur verið horft um þúsund sinnum en þann síðasta nærri 2000 sinnum þannig að áhorf þar er mjög gott. Eins er mjög góð umferð á Fasbókarsíðu félagsins og hvert innlegg skoðað frá 200-1000 sinnum. FF vill nota tækifærði og þakkar þeim kærlega fyrir sem hafa starfað með nefndinni í vetur.

***

Ritstjórar: Anna María Gunnarsdóttir og Elna Katrín Jónsdóttir
Ábyrgðarmaður: Aðalheiður Steingrímsdótti

facebook
1px