Fréttabréf SÍ. 12 tölublað, 19 nóvember 2013 Hekla skartar sínu fegursta í nóvembersól Heilir og sælir ágætu félagsmenn, ég vil byrja á þakka ykkur

SI Haus

Fréttabréf SÍ. 12 tölublað, 19 nóvember 2013

10 nóvember 2013 028

Hekla skartar sínu fegursta í nóvembersól

***

Heilir og sælir ágætu félagsmenn, ég vil byrja á þakka ykkur fyrir góða þátttöku og áhugaverðar umræður á félagsfundum nú á haustönninni. Á þessu fundum hefur verið farið stuttlega yfir starf félagsins en meginefnið hefur verið að kynna markmið og leiðir í kjaramálum SÍ 2014-2024 þar sem við höfum sett okkur langtímamarkmið. Á þessum fundum hafa farið fram gagnlegar umræður og ábendingar sem stjórn og samninganefnd geta unnið með áfram.

Námstefna SÍ og FSL var haldin 11. október. Hér má finna upptökur af erindum Frank Grawford og Ollie Bray. Vil benda ykkur á þessa fyrirlestra sem eru mjög góðir og vel hægt að nota erindi Ollie Bray á kennarafundi og til umræðna um stefnumótun skóla í því hvernig við nýtum vef- og samskiptamiðla í kennslu.

Skólaþing Sambandsins var haldið 4. nóvember. Þar komu fram mörg athyglisverð erindi sem ég hvet ykkur til að skoða. Erindin voru tekin upp og eru aðgengileg hér á vef Sambandsins.

Einnig vil ég benda ykkur á Facebook síðu félagsins en þar setjum við inn tengla á allar greinar eða fréttir um skólamál. Nú er þar t.d. mjög áhugaverð grein Ólafs H Sigurjónssonar, formanns Félags stjórnenda í framhaldskskóla. Hægt er að tengjast síðunni í gegnum facebookhnappinn hér neðst í fréttabréfinu.

með kveðju
Svanhildur

***

Kjaramál

1236290090a2uD5j[1]

Stjórn og samninganefnd SÍ hittist á fundi 15. nóvember þar sem gengið var frá markmiðum og leiðum félagsins í kjaramálum 2014-2024. Lagður var grunnur að kröfugerð fyrir næstu kjarasamninga sem eru lausir 31. janúar 2014.

Fundur verður með Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga 21. nóvember þar sem gerð verður viðræðuáætlun á milli aðila. Þar verða lögð fram markmið félagsins í kjaramálum 2014-2024.

***

Hvað er starfsþróun?

Í Lokaskýrslu samstarfsnefndar um símenntun kennara 2011-12 segir á bls. 11:
"Með hugtakinu starfsþróun er átt við faglega starfsþróun sem kennarar og skólastjórnendur byggja upp með því að bæta stöðugt við þekkingu sína og færni í þeim fræðum eða hugmyndaheimi sem starf þeirra grundvallast á. Undir hugtakið starfsþróun fellur mun fleira en það að sækja námskeið eða formlegt nám. Þar má nefna rannsóknir á eigin starfi, þátttöku í þróunarverkefnum, að sækja ráðstefnur, að lesa sér til og fara í skólaheimsóknir svo eitthvað sé nefnt.

Starfsþróun er samfellt ferli sem miðar að því að auka og efla færni og þekkingu kennara og skólastjórnenda sem fagmanna. Stefnumiðuð starfsþróun getur stuðlað að aukinni starfsánægju, haft áhrif á árangur í starfi og minnkað líkur á kulnun eða brotthvarfi kennara úr starfi."

Mikilvægt er að finna jafnvægi á milli þarfa og krafna margra ólíkra aðila. Kennarar og skólastjórnendur bera ábyrgð á eigin starfsþróun en hvað merkir það? Mikilvægt er að skólastjórnendur og kennarar ígrundi vel eigin starfþróun og merkingu hennar fyrir þá.

Jafnvægi þarf að vera á milli einstaklingsbundinna þarfa kennara og skólastjórnenda og þarfa/krafna frá skólastofnunum og fræðsluyfirvöldum. Árleg starfsmannasamtöl eiga að vera liður í því að finna það jafnvægi sem nauðsynlegt er í starfsþróun kennara og skólastjórnenda. Leggja þarf áherslu á mikilvægi fjölbreyttra leiða í starfsþróun kennara og skólastjórnenda. Starfsþróun starfsmanna skóla þarf að styðja við stefnu, markmið og skólaþróun hvers skóla.

Sérstaklega þarf að huga að starfsþróun skólastjórnenda sem eiga að stýra faglegri starfsþróun sinna kennara bæði út frá þörfum hans sem fagmanns og út frá þörfum skólans í heild til að efla árangur nemenda í námi. Viviane Robinsson greinir frá niðurstöðum áhugaverðrar rannsóknar í bók sinni Student-Centered Leadership (2011) Sjá frekar hér
Þar kemur fram að að það sem hefur mest áhrif á árangur nemenda er fagleg leiðsögn skólastjórnenda við starfsþróun kennara eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Ekki láta þessa grein fara fram hjá ykkur.

viviane-robinson

„Til þess að aðrir virði mann verður maður að virða sig sjálfur“

13186866-paper-cut-of-children-play-on-grass-book

Hér er áhugaverð grein í Netlu um sýn grunnskólakennara á virðingu í starfi þeirra, byggð á rannsókn Sigrúnar Erlu Ólafsdóttur og Sigrúnar Aðalbjarnardóttur.

Meginmarkmið rannsóknarinnar var að rýna í sjálfsvirðingu kennara og reynslu þeirra af virðingu annarra fyrir kennarastarfinu. Jafnframt var markmiðið að leita eftir því hvernig þeir telja vænlegt að efla sjálfsvirðingu kennara og virðingu í samfélaginu fyrir kennarastarfinu.
Niðurstöður rannsóknarinnar fela í sér margs konar hvatningu kennara til skólafólks, valdhafa og annarra samfélagsþegna til að huga að sjálfsvirðingu kennara, virðingu annarra fyrir kennarastarfinu og leiðum til að efla virðingu fyrir þessu mikilvæga starfi. Þær ættu því að vera þarft innlegg í umræðu um kennarastarfið og skólastarf almennt. Sjá frekar hér

***

Heilsueflandi starfstaður - Pro-Active

stock-vector-school-tools-and-supplies-set-in-house-shape-background-vector-file-layered-for-easy-manipulation-104059898[1]

Hér er kynning á fyrirtækinu ProActive - Ráðgjöf og fræðslu ehf., sem er nýstofnað þjónustufyrirtæki á sviði mannauðsmála. Þau bjóða upp á ýmiss konar fræðslu og námskeið bæði fyrir stjórnendur og starfsfólk. Þau leggja áherslu á starfsánægju, heilsueflandi stjórnunarhætti, viðverustefnu og vellíðan á vinnustað. Finna má frekari upplýsingar á heimasíðu og facebook síðu.

***
Korpu 071

Ábyrgðarmaður
Svanhildur María Ólafsdóttir,
formaður Skólastjórafélags Íslands.
svanhildur@ki.is, símar 5951129/8917648

facebook
1px