12.12.2013 Ég vil að stéttarfélagið þjappi saman stéttinni sem ég tilheyri og leiði hana áfram í baráttu fyrir góðum kjörum og starfsaðstæðum. Guðla

FF-eplamynd

12.12.2013

Ég vil að stéttarfélagið þjappi saman stéttinni sem ég tilheyri og leiði hana áfram í baráttu fyrir góðum kjörum og starfsaðstæðum.
Guðlaug Guðmundsdóttir í síðasta Vikupósti á vef FF.

***

Upp með launakjörin í framhaldsskólunum

Oddur Jakobsson, hagfræðingur KÍ dregur í umfjöllun sinni fram staðreyndir um laun og launabreytingar félagsmanna KÍ í framhaldsskólum byggðar á nýrri skýrslu heildarsamtaka vinnumarkaðarins. Þar sést glöggt hvernig kjör okkar hafa dregist aftur úr viðmiðunarhópum í mörg ár þrátt fyrir sambærilegar hækkanir við samningaborðið hverju sinni. Þetta þýðir að framhaldsskólarnir lúta einhverjum öðrum lögmálum en aðrar ríkisstofnanir þar sem launahækkanir umfram miðlægt umsamin lágmarkskjör eru nær engar. Af þessu má draga ýmsar ályktanir t.d. um stofnanasamninga, sjálfstæði og umboð framhaldsskólanna til að fara með starfsmannamál og fleira. Ekki er það þó samningafólki FF og FS efst í huga heldur einfaldlega það viðfangsefni sem blasir við í samningagerð sem nú er hafin – að laun í framhaldsskólum verði leiðrétt og launakjörin verði sambærileg og hjá skyldum hópum. Launakjör okkar samanborið við aðra hafa farið versnandi í a.m.k. 6-8 síðustu ár og við það verður ekki unað.

***

Um launaþróun og launaskrið

Launahækkanir umfram þær sem kveðið er á um í kjarasamningum eru stundum kallaðar launaskrið eða yfirborganir. Slíkar hækkanir geta eðli málsins samkvæmt aðeins átt sér stað vegna ákvörðunar launagreiðenda.

Hópar launamanna njóta launaskriðs í mis miklum mæli. Vísbendingar um það má finna í skýrslu heildarsamtaka vinnumarkaðarins Í aðdraganda kjarasamninga, efnahagsumhverfi og launaþróun (okt. 2013). Til dæmis kemur þar fram að á tímabilinu frá nóvember 2012 til maí 2013 var gert ráð fyrir því í flestum kjarasamningum að laun hækkuðu almennt um 3,25%. Það átti m.a. við um kjarasamninga ASÍ á almennum markaði og kjarasamninga BHM og KÍ við ríkið. Launahækkanir þessara hópa urðu hins vegar ekki á einn veg. Á almennum markaði hækkuðu regluleg laun sérfræðinga í iðnaði um 4,4% og regluleg laun sérfræðinga í samgöngum og flutningum um 5,0%. Hjá ríkinu hækkuðu regluleg laun félagsmanna BHM á þessum tíma um 4,4% og regluleg laun félagsmanna KÍ um 3,5%.

breytingar

Einhverjum kann að finnast þetta lítill munur en safnast þegar saman kemur. Frá nóvember 2006 til maí 2013 hækkuðu regluleg laun sérfræðinga í iðnaði og sérfræðinga í samgöngum og flutningum annars vegar um 52,4% og hins vegar um 53,2%. Sambærilegar tölur fyrir sérfræðinga hjá ríkinu eru 50,0% fyrir félagsmenn BHM og 45,2% fyrir félagsmenn KÍ. Þessi munur kemur fram þrátt fyrir að alls ekki halli á félagsmenn KÍ hvað varðar kjarasamningsbundnar hækkanir.

uppsafnadar

Ekki þarf að fjölyrða um launamun sérfræðinga á almennum markaði og hjá hinu opinbera. Munurinn á meðal dagvinnulaunum félagsmanna BHM og félagsmanna KÍ sem starfa hjá ríkinu var á árinu 2012 um 16% en sambærilegur munur á launum sérfræðinga á almennum markaði og launum félagsmanna BHM sem starfa hjá ríkinu var 49%. Munurinn á heildarlaununum var heldur minni.

medal2012-2

Í aðdraganda kjarasamninga er stundum látið að því liggja að launaskrið sé óumflýjanlegt. Til dæmis ef almennt er gert ráð fyrir því að launahækkanir umfram 4% samræmist ekki verðbólgumarkmiði seðlabankans (sem er 2,5%) þá sé óráðlegt að hækka laun samkvæmt kjarasamningum um meira en 2% vegna launaskriðs sem fylgi í kjölfarið. Launþegar eru beðnir um að sýna þessu skilning og sætta sig við hóflegar launahækkanir í kjarasamningum. Skiljanlega eiga þeir hópar launamanna sem síst njóta launaskriðs erfitt með að sætta sig við þessa nálgun.

Oddur S. Jakobsson,
hagfræðingur KÍ

facebook
1px