Fimmtudagur, 13. desember 2012 Kæru félagsmenn Fréttabréf Félags framhaldsskólakennara birtist hér í fyrsta sinn með nýju sniði. Vonandi mælist brey

 

Fimmtudagur, 13. desember 2012

Kæru félagsmenn
Fréttabréf Félags framhaldsskólakennara birtist hér í fyrsta sinn með nýju sniði. Vonandi mælist breytingin vel fyrir.

***

Kennarar og hjúkrunarfræðingar verr launaðir en viðmiðunarstéttir

Ríkisútvarpið flutti frétt 7. desember sl. um launamál hjúkrunarfræðinga, félagsmanna KÍ í framhaldsskólum og félagsmanna BHM. Sjá hér.
Tölur um launamun sem nemur 60 þúsund krónum á mánuði eru kunnuglegar fyrir félagsmenn FF en tímabært að fjölmiðlar veki athygli á lakari kjörum lykilstarfsmanna í velferðarkerfinu en samanburðarhópa. Hjúkrunarfræðingar og kennarar eiga auk þess sameiginlegt að starfa í stofnunum sem glíma við langvarandi og alvarlegan niðurskurð í rekstri samhliða stöðugri fjölgun skjólstæðinga sem eru sjúklingar og nemendur

***

Niðurskurður framhaldsskóla miklu meiri en stjórnvöld láta í veðri vaka

Milli áranna 2007 og 2011 fjölgaði nemendum í framhaldsskólum um rúmlega eitt þúsund eða tæp 6% auk þess sem nemendum fjölgaði um önnur fimmtán hundruð haustið 2011 vegna átaksins Nám er vinnandi vegur. Niðurskurður á rekstrafé framhaldsskólanna var á sama tíma rúmlega 18% og voru útgjöldin t.d. árið 2008 að raunvirði 12% undir OECD meðaltali. Harkalegur niðurskurður eftir hrunið hefur því aukið vanda sem fyrir var. Uppsafnaður niðurskurður er rúmlega 4 milljarðar 2009-13 eða rúmlega 18% á verðlagi 2013. Stjórnvöld varpa ryki í augu almennings þegar þau fullyrða að framhaldsskólum sé hlíft frekar en öðrum ríkisstofnunum við niðurskurði. En taka verður tillit til óhóflegrar fjölgunar í nemendahópum sem er alvarleg birtingarmynd niðurskurðarins.
Sjá grein formanns og varaformanns FF hér.

***

Greinum á milli viðfangsefna kjarasamninga og faglegra mála

Stjórn FF hefur nýlega sent félagsdeildum sínum í framhaldsskólum stöðumat stjórnar og samninganefndar á samningamálum og áætlun um vinnu í kjaramálum næstu mánuðina.

Stjórnin dregur meðal annars þann lærdóm af skipbroti samkomulags við ríkið frá 24. október síðastliðinn að skýrari línur þurfi að draga milli kjarasamningsviðfangsefna og þátttöku í framkvæmd menntastefnu og laga. Samkomulagið átti að samþætta endurskoðun og endurskilgreiningu faglegra þátta og kjara og það gekk ekki upp. Meginástæðan er þó sú að ríkisvaldið reiddi ekki fram fjármuni í neinu samræmi við efni samkomulagsins. Sú aðferð að efna til víðtæks samstarfs við ríkisvaldið um kennarastarfið og kennarakjörin í ljósi nýrra laga og breytts skólastarfs hefur að mati stjórnarinnar beðið hnekki. Samkomulagið við menntamálaráðherra veslaðist upp í meðförum ríkisvaldsins sem veitti málefnum þess ekki brautargengi í fjárlagagerðinni.

***

Ósk um almennan félagsfund FF

Nýlega barst beiðni til stjórnar FF frá BHS, TS, FSU, IH, MK, MR um almennan félagsfund með tilvísun til 11. gr. félagslaga um stöðuna í samningamálum og önnur mál er lúta að starfsemi FF. Stjórnin verður að sjálfsögðu við þessu og hafði þegar ákveðið að halda almenna fundi um þessi mál á næstu önn. Stjórnin hefur óskað eftir fundi með fundarbeiðendum um dagskrá og fundartíma. Nánari grein verður gerð fyrir fundinum eftir jólaleyfi á heimasíðu og í Fréttabréfi FF.

***
rauða eplið

Átak í útgáfu- og kynningarmálum

Félagið setti á stefnuskrá sína á aðalfundi FF vorið 2011 að efla kynningarstarf á vegum félagsins um kennarastarfið og starf framhaldsskóla. Kynninganefnd var í framhaldi af því skipuð í nóvember 2012. Í henni sitja Elna Katrín Jónsdóttir, Hrafnkell Tumi Kolbeinsson, Ármann Halldórsson og Anna María Gunnarsdóttir. Nefndin sem hefur margt nýtt á prjónunum nýtur liðsinnis starfsfólks á útgáfu- og kynningarsviði KÍ. Stofnuð hefur verið fasbókarsíða FF. Strax á nýja árinu gengur heimasíða félagsins í endurnýjun lífdaga með nokkrum föstum nýjum efnisþáttum s.s. mánaðarlegu myndskeiði um ,,Kennara mánaðarins“ og ,,Vikupóstinum“ en í báðum tilvikum verður leitað til félagsmanna vítt og breitt um landið og í sem flestum skólum um efni, skoðanir og sjónarhorn á kennarastarfið, kjaramálin og skólamálin. Frekar verður fjallað um málin eftir því sem breytingarstarfinu vindur fram.

***

Tilkynning til félagsdeilda

Frjárframlög til félagsdeilda FF hafa nú verið greidd eins og undanfarin ár. Tilgangurinn er að styðja við félagsstarf í deildum, störf trúnaðarmanna og formanna.

***

Stjórn og starfsfólk Félags framhaldsskólakennara óska félagsmönnum gleðilegra jóla, ánægjulegs jólaleyfis og heillaríks komandi árs.

***

Ritstjórar: Anna María Gunnarsdóttir og Elna Katrín Jónsdóttir
Ábyrgðarmaður: Aðalheiður Steingrímsdóttir

facebook
1px