Fréttabréf Mý deildar Delta Kappa Gamma 7. tbl. 2013 Ef þú sérð ekki fréttabréfið með myndum smelltu þá hér. Smelltu svo hérna ef þú vilt komast á h

DKG

Fréttabréf Mý deildar Delta Kappa Gamma 7. tbl. 2013

Ef þú sérð ekki fréttabréfið með myndum smelltu þá hér.

Smelltu svo hérna ef þú vilt komast á heimasíðu landssambandsins. Og hérna ef þú vilt komast á heimasíðu Mý deildar.

***

Jólafundurinn

jolafundur 6283

Jólafundurinn var haldinn með Betadeildinni þann 3. desember s.l. Samkvæmt venju var hann haldinn í sal hússtjórnarbrautar VMA.

Jónína Hauksdóttir formaður Betadeildar setti fundinn, kveikti á kertum og bauð konur velkomnar. Þær Jenný formaður Mýdeildar báru fundarkonum kveðjur frá fjarstöddum félögum.

Þá voru tónlistaratriði á dagskránni, þær Petrea Óskarsdóttir og Ásdís Arnardóttir spiluðu á selló og þverflautu nokkur falleg jólalög.

Þorgerður, Halldóra, María og Eygló í Betadeild sögðu frá reynslu sinni af því að sækja landssambands- og Evrópuþing Delta Kappa Gamma. Var það mjög fróðlegt og hvöttu þær félagskonur eindregið til að mæta á þing.

Dagbjörg Ásgeirsdóttir í Mýdeild las þvínæst upp úr nýútkominni bók sinni sem heitir Gummi fer í fjöruferð, en hún er þriðja barnabók höfundar.

Þær Ragnheiður Júlíusdóttir úr Mýdeild og María Gunnarsdóttir úr Betadeild sungu næst nokkur jólalög og fundargestir tóku undir með þeim. Hér til hliðar má sjá mynd af þeim stöllum.

Zane Brikovska frá Lettlandi sagði okkur frá jólahaldinu í sínu heimalandi og var mjög gaman að hlusta á hana segja frá því hvernig þau hjónin sameina jólasiði frá sínum heimalöndum á þeirra jólum.

Þá var boðið uppá dýrindis jólakrásir sem stjórnir deildanna buðu uppá og jólalögin sungin.

Jenný formaður Mýdeildir sleit að lokum þessari notalegu samverustund okkar með því að slökkva á kertunum.

Það er hægt að skoða myndir af fundinum inni á vef Betadeildarinnar.

***

Fyrsti fundur nýs árs

bokafundur

Næsti fundur verður haldinn miðvikudaginn 29. janúar. Þá heldur deildin sinn fyrsta bókafund. Fundurinn verður í höndum Erlu Bjargar Guðmundsdóttur, Bjargar Sigurvinsdóttur og Bryndísar Björnsdóttur.

Þegar nær dregur verður staðsetning og dagskrá fundarins send til félagskvenna með tölvupósti. Þangað til undurbúum við okkur með því að lesa jólabækurnar.

***

Hver er konan?

thorgunnur

Að þessu sinni segir Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir okkur frá sjálfri sér.

Ætt og uppruni: Ég er fædd á Dalvík heima hjá móðurforeldrum og bjó á Dalvík alla mína barnæsku. Ég er önnur í röð þriggja systkina og á yngri systur og eldri bróður. Foreldrar mínir eru Vigfús R. Jóhannesson og Svanhildur Árnadóttir . Þau eru bæði norðlensk í húð og hár eins sagt er. Pabbi alinn upp á Hauganesi og mamma á Dalvíkinni draumabláu.

Ég er gift Arnari Guðmundssyni rafvirkja. Við kynntumst sumarið 2000 og eigum fyrir hvor sína dótturina. Ég á Andreu sem nú er 22 ára og er við nám í Mílanó í iðnhönnun, Arnar á Örnu núna 17 ára og stundar nám í VMA. Þær voru því á níunda og þriðja aldursári þegar þeirra leiðir lágu saman og er systrakærleikurinn mikill. Saman eigum svo Vigfús William 6 ára en hann ættleiddum við frá Kolumbíu haustið 2009.

Menntun: Barnæskan og grunnskólagangan er sveipuð töfraljóma alls þess sem Dalvíkurskóli bauð upp á. Þaðan lá leið mín í heimavist að Reykholti í Borgarfirði, afhverju ég fór þangað, veit ég ekki en þar átti ég mjög skemmtilega og þroskandi tíma. Þaðan lá leið mín í Kvennaskóla Reykjavíkur og svo loks í Háskólann á Akureyri 1993 þar sem ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að vera í fyrsta árgangnum sem tekinn var inn í kennaranámið og mikið mótunarstarf var í gangi. Leiðin átti aftur eftir að liggja í Borgarfjörðinn en ég lauk meistaranámi við Háskólann á Bifröst vor 2010 í Stjórnun mennta- og menningastofnana.

Starf: Skólastjóri Borgarhólsskóla, Húsavík

Það skemmtilegasta við starfið: Fjölbreytileiki verkefna er tvímælalaust mjög jákvæður þáttur. Að geta haft áhrif á skipulag skólastarfs og þróun starfshátta er mjög skemmtilegt. Það er gefandi að sjá nemendur þroskast og dafna í gegnum leik og störf skólans og maður nemur eitthvað nýtt á hverjum degi í þessu stóra samfélagi. Þá finnst mér öll krefjandi verkefni mjög skemmtileg, þau þroska okkur sem einstaklinga.

Áherslur í starfi: Ég tel það vera skyldu mína að gera allt sem mér er mögulegt til að styrkleikar alls starfsfólks og nemenda fái notið sín og ég reyni að vinna út frá því markmiði á hverjum degi. Þannig trúi ég að nemendur geti líka fengið það besta.

Af hverju DKG?: Það var nú hrein og klár forvitni sem dreif mig áfram í upphafi. Mér fannst líka að þetta mundi vera gott tækifæri til að efla tengslanetið og frábært að fá tækifæri til að tengjast konum í ólíkum hlutverkum innan fræðslusamfélagsins.

Spurning frá Birnu: Hvað er það mikilvægasta sem þú hefur lært í starfi þínu sem skólastjóri og hvernig nýtist það þér?

Þetta er svo stór spurning að mér vafðist tunga um tönn þegar ég fór að leita svara hjá sjálfri mér. Það er í raun svo margt sem starfið hefur kennt mér sl. 13 ár. Ef ég hugsa um mannlega þáttinn þá er mér efst í huga virðing. Að sýna öllum virðingu í orðum og í verki er ómetanlegt. Ég held að við gerum þetta flest eða finnst okkur það en maður skyldi aldrei vanmeta hversu mikið það er hægt að auka vellíðan allra í kringum sig, þegar maður setur sjálfan sig til hliðar, hlustar, hughreystir, gefur styrk, leiðir og jafnvel huggar. Hvort þetta er það mikilvægasta skal ég ekki segja um en mér finnst þetta mikilvægara en allt það sem ég hef lært um íslenska stjórnsýslu í gegnum starf mitt, mannlegi þáttur starfsins stendur alltaf upp úr.

Hvaða konu viltu kynnast í næsta fréttabréfi: Birnu Baldursdóttur.

Hvaða spurningu viltu leggja fyrir þá konu?: Hvaða drauma um framtíðina hefðir þú sem barn?

***

Yndislestur er mikilvægur!

yndislestur

Í ljósi jólahátíðarinnar og vonandi mikillar lestrarhátíðar fyrir okkur allar og einnig í tilefni af bókafundinum í janúar er ekki úr vegi að minna á fyrirlestur rithöfundarins Neil Gaiman sem birtist í The Guardian í október sl.

Í stuttu máli sagt færir Gaiman rök fyrir því að nauðsynlegt sé að efla og styrkja bókasöfn og starfsfólk þeirra. Þetta segir hann vegna þess að hann telur að yndislestur sé eitt það mikilvægasta sem við (bæði fullorðnir og börn) gerum. Hann heldur því fram að yndislestur efli ímyndunaraflið og um leið færnina til að halda þræði frá upphafi til enda. Samhliða því fáum við innsýn í líf og hugsanir sögupersónanna sem gerir okkur færari í að skilja aðstæður annarra og setja okkur í spor þeirra.

Hann hefur áhyggjur af því að nútímamaðurinn muni líta á bækur, bókasöfn, starfsmenn þeirra og það sem þar er sýslað sem úrelt fyrirbæri og leggur Gaiman áherslu á að þeirri hugsun beri að verjast. Hann telur að þvert á móti þurfi nú sem aldrei fyrr að efla allt sem hvetur til yndislestrar.

Flestir geta verið sammála hugmyndum Gaiman og ef fyrirlestur hans er settur í samhengi við umræðuna um niðurstöður síðustu PISA könnunar hér á landi er hægt að taka undir hvert orð.

Enda má finna líkindi með boðskap Gaiman og umfjöllun Spegilsins á RÚV þann 9. des. sl. um niðurstöður PISA. Þar talaði doktor Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur og sérfræðingur í rafrænni stjórnsýslu um nauðsyn lestrarfærninnar í hröðu og netvæddu upplýsingasamfélagi. Hann benti á að þeir sem ekki næðu að taka þátt í því samfélagi ættu á hættu að verða utanveltu og án þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.

Svo við vonum að þið og ykkar fólk eigi ánægjulegan yndislestur um jól og áramót.

***
jolarosir

Kæru systur,

stjórn MÝ deildar óskar ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Við hlökkum til starfsins með ykkur á komandi árum,

Jenný, Anna, Guðný og Ingileif

facebook
1px