Fréttabréf Mý deildar Delta Kappa Gamma 1. tbl. 2013 Smelltu hér ef þú sérð ekki fréttabréfið eins það á að vera Og hér fyrir aftan er hægt að smell

DKG

Fréttabréf Mý deildar Delta Kappa Gamma 1. tbl. 2013

Smelltu hér ef þú sérð ekki fréttabréfið eins það á að vera

Og hér fyrir aftan er hægt að smella til að komast á heimasíðu landssamtakanna og Mý deildarinnar

***

Af störfum stjórnar

Stjórn Mý deildar kom saman á Dalvík þriðjudaginn 29. janúar sl. og ræddi starfið framundan.

Fréttamiðlun og tengslanet

Útgáfumál deildarinnar og samtakanna bar á góma á fundinum og í framhaldi af því var ákveðið að deildin eignaðist Facebook síðu og rafrænt fréttabréf til viðbótar við heimasíðu og tölvupósta.

Með þessu móti vill stjórnin leggja sitt af mörkum til að auka upplýsingamiðlun innan deildarinnar og jafnframt að efla tengslin á milli deildarkvenna.

Guðný Ólafsdóttir ritari hefur nú þegar stofnað hóp inni á Facebook sem heitir Mý deild. Þangað hefur hún boðið konum úr deildinni. Svo er það undir okkur hinum komið að nýta þennan vettvang til að miðla ábendingum og upplýsingum. Með því að smella á Facebook táknið neðst á fréttabréfinu er hægt að komast inná Facebook síðu Mý deildar. Sendu Guðnýju skilaboð ef henni hefur ekki tekist að finna þig og bjóða þér í hópinn.

Fyrsta fréttabréfið kemur til ykkar nú og ætlunin er að það verði í mótun fram á vorið. Allar ábendingar um innihald þess eru vel þegnar.

Á aðalfundinum metum við svo hvernig til hafi tekist og hvort vert sé að halda áfram með bæði fréttabréf og Facebook hóp til viðbótar við það sem fyrir var.

Óformleg samvera

Innan stjórnar hefur komið fram sú hugmynd hvort konur innan deildarinnar ættu ekki að hittast meira en á formlegum fundum hennar. Það gæti til dæmis verið að fara saman á kaffihús, í bíó, gönguferð, á fyrirlestur, listviðburð eða hvað annað sem hverri og einni dettur í hug.

Facebook síða deildarinnar er m.a. hugsuð til að koma hugmyndum um slíka samveru á framfæri. Hver sem er getur stungið upp á því að við hittumst einhvers staðar. Skemmtilegast væri ef sú hin sama væri búin að fá eina til tvær með sér og þær yrðu svo glaðar ef fleiri bættust í hópinn.

***

Af fundum

Jólafundurinn

Hann þótti takast vel og myndir frá honum er að finna á heimasíðu deildarinnar.

Næsti fundur

Næsti fundur okkar verður 21. febrúar n.k. Umsjón með honum hafa Dagný Birnisdóttir, Ragnheiður Björk Þórsdóttir og Anna María Sigurðardóttir.

Dagskrá og staðsetning verða send til ykkar í tölvupósti þegar nær dregur.

***

Hver er konan?

BjorgSigurvinsdottir2

Í þessum hluta fréttabréfsins er ætlunin að kynna eina konu í hverju bréfi. Sú sem ríður á vaðið er Björg Sigurvinsdóttir.

Ætt og uppruni: Ég er fædd á Akureyri í desember 1961. Ég kom aðeins fyrr í heiminn en áætlað var svo koma mín truflaði jólabakstur mömmu minnar og fjölskyldan fékk eitthvað færri sortir þessi jólin en áður. Ég er næstyngst fimm systkina, við erum fjórar systur og einn bróðir sem er yngstur. Ég hef alla tíð átt heima á Akureyri utan sjö námsára þegar ég bjó í Reykjavík.

Segja má að rætur mínar liggi víða utan Akureyrar: pabbi minn, Sigurvin Jónsson, er úr Glæsibæjarhepp í Eyjafjarðarsveit og Tréstöðum í Hörgárdal og mamma mín Guðrún B. Hafliðadóttir, var uppalin á Akranesi. Hún vann sem húsfreyja, verkakona og seinustu ár starfsævinnar sem skólaliði í Lundarskóla.
Pabbi minn starfaði sem vörubílstjóri en seinni ár var hann umsjónarmaður í Lundarskóla.

Ég er gift Stefáni Þór Sæmundssyni og eigum við tvö börn og eina yndislega 4 ára ömmustelpu.

Menntun: Fósturskóli Íslands 1983.
B.Ed- gráða sérskipulagt nám fyrir leikskólakennara Háskólinn á Akureyri 2000.
Framhaldsnám í stjórnun diplóma, Háskólinn á Akureyri 2001.
Meistaragráða í menntunarfræðum með áherslu á stjórnun, Háskólinn á Akureyri 2007.

Starf: Allan minn starfsferil hef ég unnið störf tengd leikskólum, langlengst í stjórnunarstörfum. Núverandi starf er leikskólastjóri Lundarsels.

Það skemmtilegasta við starfið: Vera með og umgangast samstarfsmenn, börn, foreldra. Hafa áhrif á uppeldi barna og vera faglegur stjórnandi/leiðtogi í starfinu.

Áherslur í starfi: Ég hef ávallt lagt áherslu á lýðræði í starfi mínu, starfsmenn taka þátt í ákvörðunum um starfið. Með foreldraráði hafa foreldrar einnig tekið meira þátt í sambandi við það sem viðkemur starfinu og nú er ég að leita fleiri leiða til að börnin verði enn virkari þátttakendur. Helstu lífsgildin mín eru traust, virðing og vellíðan, þau endurspegla áherslur mínar í starfinu. Ég legg einnig upp úr því að leikskólinn sé lærdómssamfélag, þar sem allir læra, börn jafnt sem fullorðnir með því að rannsaka og ígrunda lífið og tilveruna.

Af hverju DKG?: Ég vissi ekkert um tilvist DKG þegar hringt var í mig og mér boðið að vera einn af stofnendum Mýdeildar, sem ég þáði. Það hefur verið mjög skemmtilegt og fróðlegt að vera í þessum félagsskap og ég sé ekki eftir að hafa tekið þátt. Gefur mikið að vera með konum með fræði sem bakgrunn, kynnist fleirum konum og fæ víðari sýn á veröldina.

Hvaða spurningu viltu leggja fyrir næstu konu? Hver eru helstu áhugamál þín?

***

Héðan og þaðan

Styrkir

Á heimasíðu landssamtaka DKG er að finna frétt um Lucile Cornetet styrk alþjóðasamtakanna.

Lucile Cornetet styrkurinn er tvískiptur, bæði fyrir deildir og landssamtök og einnig fyrir einstaklinga til að sækja ráðstefnur og aðra viðburði sem tengjast menntun. Umsóknarfrestur er þrisvar á ári, 1. feb., 1. maí og 1. september.

Konur í DKG geta sótt um styrk í Íslenska námstyrkjasjóðinn. Meginhlutverk sjóðsins er að styrkja félagskonur í Delta Kappa Gamma á Íslandi sem vinna að lokaverkefnum í meistara- og doktorsnámi eða öðru sambærilegu framhaldsnámi.
Hér er hægt að nálgast úthlutunarreglurnar. Umsóknarfresturinn í ár rennur út 1. mars.

Aðalfundur landssambandsins að Hótel Heklu

Aðalfundurinn verður haldinn 4. maí n.k. og gaman væri ef við einhverjar konur úr okkar deild sæju sér fært að mæta fyrir hönd deildarinnar. Við ræðum það þegar við hittumst.

Dagkráin er ekki að fullu tilbúin en verður kynnt síðar en nú þegar er ljóst að Dr. Margaret Trybus kemur sem alþjóðlegur fyrirlesari.

Smelltu hér og þú kemst inná ferilskrá hennar við Concordia háskólann í Chicago. Einnig er von á Dr. Lyn Babb Schmid en hún er annar varaforseti alþjóðasamtaka DKG og mætir á fundinn sem fulltrúi þeirra.

***

Eflumst og styrkjumst

Stjórnin þiggur allar ábendingar um efni í fréttabréfið okkar. Allt sem kemur okkur að gagni í daglegum störfum okkar er vel þegið: greinar, bækur, fréttir, hugleiðingar, hugmyndir, ritgerðir, lokaverkefni, samantektir og svo mætti lengi telja. Þið getið sent ábendingarnar til Ingileifar á netfangið ingileif@bjarkir.net.

Veftímaritið Krítin er til dæmis gott framtak kvenna í fræðslustörfum og þess virði að benda á það. Þar er að finna greinar, myndbönd, viðtöl og margt annað sem fróðlegt og gagnlegt er að skoða.

Markmið Krítarinnar er einmitt í anda samtaka okkar: Að auka faglega umræðu um málefni skóla og auka virðingu fyrir því starfi sem þar fer fram.

***

Hafið það sem allra best, bæði í leik og starfi, þar til við hittumst næst,

Jenný, Anna, Guðný og Ingileif

facebook
1px