8. fréttabréf Mý deildar DKG, útg. apríl 2014 Ef þú sérð ekki fréttabréfið með myndum smelltu þá hér Smelltu svo hérna ef þú vilt komast á heimasíðu

DKG

8. fréttabréf Mý deildar DKG, útg. apríl 2014

***

Ef þú sérð ekki fréttabréfið með myndum smelltu þá hér

Smelltu svo hérna ef þú vilt komast á heimasíðu landssambandsins og hérna ef þú vilt komast á heimasíðu Mý deildar.

***

Af fundum

nyjar konur

Á þessu ári hafa verið haldnir þrír formlegir fundir í Mý deild og einn óformlegur bókafundur.

Fyrsti fundur ársins var bókafundur sem haldinn var í Naustaskóla. Síðan hittust deildarkonur í febrúar í Hrafnagilsskóla og hófu umfjöllunina um þema vorannarinnar, grunnþáttinn heilbrigði og velferð með því að fræðast um verkefnið heilsueflandi grunnskóli og hráfæði.

Næsti fundur var óformlegur bókafundur en á bókafundinum í janúar komu konur sér saman um að lesa tvær af þeim bókum sem voru nefndar á fundinum og hittast svo um miðjan mars til að spjalla um þær. Þessi fundur var haldinn á kaffihúsinu Bláu könnunni og var þann 13. mars. Á þeim fundi kom upp sú hugmynd að hafa óformlega spjallfundi um bækur með reglulegu millibili. Sú hugmynd verður vonandi að veruleika innan deildarinnar.

Síðasti fundur var svo haldinn í Síðuskóla þann 26. mars s.l. Á þeim fundi voru fjórar nýjar konur teknar inn í deildina; Sigríður Víkingsdóttir, Ólöf Inga Andrésdóttir, Björg Eiríksdóttir og María Aðalsteinsdóttir. Frétt um þann fund er að finna á heimasíðu deildarinnar.

Næsti fundur

Næsti fundur verður haldinn þriðjudaginn 29. apríl. Hann verður haldinn á Dalvík og er jafnframt aðalfundur deildarinnar. Á þeim fundi verður skipt um stjórn. Konur eru hvattar til að gefa kost á sér til starfa í stjórn með því að hafa samband við uppstillingarnefnd deildarinnar, Petreu Óskarsdóttur og Ragnheiði Björk Þórsdóttur.

Það er ánægjulegt að segja frá því að nokkrar konur hafa þegar gefið kost á sér en best væri að fleiri gerðu það svo að nýja stjórnin verði fullskipuð konum sem hafa boðist til starfans án þess að gengið sé á eftir þeim.

***

Vorþing landssambandsins

DKG Rose Icon3cLg

Eins og áður hefur komið fram verður vorþing landssambandsins haldið á Ísafirði þann 10. maí n.k.

Dagskrá vorþingsins er komin inn á vefsíðu landssambands DKG. Yfirskrift þingsins er Skóli á nýjum tímum. Lýðræði, sköpun og tækni. Boðið verður upp á fimm áhugaverð erindi. Að þeim loknum verður hátíðarkvöldverður í Tjöruhúsinu.

Skráning á þingið fer fram með því að greiða ráðstefnugjaldið inn á reikning samtakanna fyrir 20. apríl. Mý deildin mun greiða ráðstefnugjaldið fyrir þær deildarkonur sem fara á þingið. Þess vegna þurfa þær sem fara á þingið að tilkynna þátttöku sína til Jennýar (netfang jennyg@unak.is) formanns deildarinnar fyrir 15. apríl. Það þarf að skrá sig sérstaklega á hátíðarkvöldverðinn með því að senda tölvupóst á jonabene@gmail.com.

Á þessari slóð á heimsíðu landssambandsins er hægt að nálgast dagskrá þingsins í heild sinni og finna yfirlit yfir gistimöguleika.

***

Hver er konan?

birnabaldursdottir

Að þessu sinni er það Birna Guðrún Baldursdóttir sem segir okkur frá sjálfri sér.

Ætt og uppruni: Ég er fædd og uppalin á Eyjardalsá í Bárðardal, dóttir hjónanna Baldurs Vagnssonar og Sæunnar Gestsdóttur. Ég er þriðja í systkinaröðinni af 6 systkinum, tvö yngstu eru reyndar næstum því eins og börnin mín en þau eru það mikið yngri. Ég gekk í Barnaskóla Bárðdælinga, þar sem nú er Kiðagil í 1.-6. bekk og var í heimavist frá fyrsta degi. Þó það hljómi illa þá á ég margar mjög góðar minningar úr skólanum og margt sem við lærðum sem var kannski ekkert sjálfsagt eins og að dansa gömlu dansana, undibúa leikrit, syngja, spila á hljóðfæri og margt fleira spennandi. Í 7. bekk fluttist ég í Stóru Tjarnarskóla en síðan var ferðinni haldið áfram inn á Akureyri í VMA. Þar byrjaði ég á heilbrigðisbraut og útskrifaðist bæði sem stúdent og sjúkraliði.

Ég er gift Rögnvaldi Braga Rögnvaldssyni en ég kynntist honum ung, sá strax að hann var góður kostur og hef haldið fast í hann síðan. Við prófuðum að búa í Danmörku og Reykjavík en til mikillar lukkur fyrir okkur var Iðjuþjálfanámið aðeins kennt hér og það dró okkur aftur heim. Ég á með honum þrjá yndislega drengi, Rökkva 16 ára, Kormák 10 ára og Styrmir rekur lestina 6 ára. Það er óhætt að segja að það sé oft fjör en mér finnst fjölskyldulífið oftast ótrúlega skemmtilegt og finnst ég mjög lukkuleg kona í lífinu. Ég elska að hafa gaman, búa til ævintýri stór og smá. Ég er andlega þenkjandi, elska jóga, alla útiveru og hreyfingu – hef gaman af því að skapa s.s. sauma, taka ljósmyndir og margt fleira. Það er eiginlega það flókna í lífinu að koma öllu þessu skemmtilega fyrir inn í 24 stunda sólarhring.

Menntun: Eftir að hafa unnið sem sjúkraliði í nokkur ár skellti ég mér í nám í iðjuþjálfun við Háskólann á Akureyri, ég er sannfærð um að það er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu. Þessi fjögur ár þroskuðu mig ótrúlega mikið auk þess að ég eignaðist frábæra vini sem ég veit að eiga eftir að fylgja mér út allt lífið, á einmitt 10 ára útskriftarafmæli í sumar og það er strax búið að skipuleggja hitting.

Starf: Ég starfa sem iðjuþjálfi við Glerárskóla og hef verið þar síðan 2005 og er í 75% vinnu einnig hef ég umsjón með klúbbum f. einhverfa, bæði ungmenni og fullorðna í samvinnu við Einhverfusamtökin.

Það skemmtilegasta við starfið: Börnin – að vera með skemmtilegum krökkum sem eru að gera flotta hluti er ómetanlegt, hjálpa þeim að þroska hæfileika sína og finna leiðir í lífinu. Síðan er fjölbreytileikinn, enginn vetur er eins og sennilega frelsið sem ég hef en ég hef fengið að móta starfið mitt og reyni að nýta mína hæfileika mína til fulls. Eins má ekki gleyma góðum starfsmannahóp í Glerárskóla, líflegt félagslíf ásamt gleði og hlátri á kaffistofunni sem mér finnst mjög mikilvægt.

Áherslur í starfi: Fjölskyldumiðuð nálgun og teymisvinna, s.s. að hafa fjölskylduna, foreldrana og umsjónakennarann sem mest með í ráðum og allir séu að vinna að sama markinu. Eins að nýta áhugahvötina til að efla nemendur og reyna að finna nýjar leiðir þegar þessar gömlu eru ekki að virka. Reyna að festast ekki í einhverjum fyrirframákveðnum kassa og komast ekki lönd né strönd!

Af hverju DKG?: Er mjög forvitinn kona og hef ótrúlega gaman að samskiptum við annað fólk, hef tekið þátt í mörgum svona hópnum og fannst þetta áhugaverður hópur að prófa. Ég hef líka alltaf gaman að heyra um nýjar leiðir og hugmyndir til að efla mig almennt í starfi. Eins hef ég mikinn áhuga á uppbyggjandi samveru og mér finnast þessir fundir einkennast af því, oft fer ég dauðþreytt en kem endurnærð til baka.

Spurning frá Þórgunni, hvaða drauma um framtíðina hafðir þú sem barn?: Ég ætlaði að hjálpa öðrum, vera læknir og eignast mann og börn, það eru einmitt til skemmtilegar myndir af því þegar ég var búinn að drösla nýfæddum bróður mínum milli herbergja til að „lækna“ hann með nýja læknisdótinu mínu – aðeins 3.ára. Eins var alltaf ríkt í mér sem barni að ég myndi eignast mína eigin fjölskyldu. Ég hafði líka mikinn áhuga á fjölmiðlum og leiklist. Fór í starfsnám á Dag og var ákveðinn í því að verða blaðamaður á unglingsárunum, hver veit hvað framtíðin á eftir að bera í skauti sér ;)

Hvaða konu úr Mý deild viltu kynnast í næsta fréttabréfi? Erlu Guðmundsdóttur

Hvaða spurningu viltu leggja fyrir Erlu? Hvaða hrekk ert þú stoltust af að hafa tekið þátt í?

***

Konfektkassinn

konfektid

Konfektkassinn hefur verið daufur frá því á jólafundinum. Fyrir nokkrum dögum var skipulag að konfektmolum næstu vikna sett inn á vef deildarinnar.

Munum að molanum er ætlað að halda lífi inni á Facebook síðu hópsins og einnig að gefa okkur tækifæri til að miðla okkar á milli því sem við vitum um skólastarf og vitum að getur komið öðrum að gagni.

Hér fyrir neðan er yfirlit yfir hverjar sjá um molann fram á vorið:

Vikan 31. mar.-6. apr.: Bryndís Björnsdóttir
Vikan 7.-13. apríl: Dagbjört Ásgeirsdóttir
Vikan 14.-20. apríl: Helena Eydís Ingólfsdóttir
Vikan 21.-27. apríl: Hildur Ösp Gylfadóttir
Vikan 28.ap.-4. maí: Ingibjörg M. Magnúsdóttir

Munum líka að molinn á ekki að vera okkur íþyngjandi. Ef konur sjá ekki fram á að geta sinnt honum þá gerir það ekkert til þó honum seinki eða að hann birtist ekki. Við bíðum bara þolinmóðar eftir þeim næsta.

***

Heilbrigði og velferð

WordItOut-word-cloud-375137

Á síðasta fundi var Birna María Svanbjörnsdóttir með orð til umhugsunar. Í samantekt sinni velti hún fyrir sér "multi-tasking" og núvitund og hvernig þessi orð tengdust heilbrigði og velferð. Þegar hún hafði lokið máli sínu lagði hún krossglímu fyrir fundarkonur og áttu þær að skrá orð sem þær tengdu við heilbrigði og velferð. Á myndinni hérna fyrir ofan eru orðin sem voru skráð í öllum krossglímunum. Flestir hóparnir nefndu orðin sem eru stærst: gleði, hreyfingu og næringu.

Á vefnum Nám til framtíðar sem menntamálaráðuneytið lét gera í kjölfar útgáfu nýrrar aðalnámskrár eru m.a. myndbönd þar sem kennarar á öllum skólastigum segja frá því hvernig þeir vinna með grunnþætti aðalnámskrárinnar.

Þó að áður hafi verið bent á þennan vef í fréttabréfi okkar er góð vísa aldrei of oft kveðin. Ef þú smellir hér sérðu myndböndin sem þar er að finna og fjalla um grunnþáttinn heilbrigði og velferð.

***
krokus

Hafið það sem allra best þar til við hittumst næst,

Jenný, Anna, Guðný og Ingileif

facebook
1px